13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2529 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

122. mál, snjómokstursreglur

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. spyr um snjómokstursreglur, hvort ekki séu fyrirhugaðar breytingar á gildandi reglum til að minnka þann aðstöðumun sem menn búi við í þessum efnum, spyr sérstaklega um skiptingu snjómoksturskostnaðar milli Vegagerðar ríkisins og sveitarfélaga á snjóþungum svæðum, um leiðina frá Akureyri til Ólafsfjarðar og frá Húsavík um Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn til Vopnafjarðar.

Reglur um snjómokstur á þjóðvegum, sem nú eru í gildi, eru frá árinu 1977, voru samþ. af samgrh. 9. febr. það ár. Meginreglur um snjómokstur segja að Vegagerðin greiði helming kostnaðar við snjómokstur á öllum þjóðvegum, þegar beðið hafi verið um hann og greiðsla hins helmings kostnaðarins verið tryggð, enda telji verkstjóri moksturinn koma fleiri vegfarendum til góða en þeim sem um moksturinn biður. Óskir sveitarfélaga um helmingamokstur gangi að jafnaði á undan óskum einstaklinga. Önnur meginreglan er sú, að Vegagerðin greiðir allan kostnað við mokstur nokkurra mikilvægra samgönguleiða, þó ekki nema ákveðinn fjölda daga í viku eða mánuði. Vegagerðin greiðir fyrsta mokstur á haustin, svo fyrstu snjóar stöðvi ekki umferð og ökumönnum gefist kostur á að ljúka ferð sinni, og hún greiðir einnig síðasta mokstur á vorin, nema um hann hafi verið beðið áður en verkstjóri telur tímabært.

Hér kemur fram, að reglulegur mokstur á sér fyrst og fremst stað á meginleiðum sem liggja til þéttbýlisstaða, einnig á vegum sem liggja að skólum, flugvöllum, höfnum og fleiri opinberum mannvirkjum.

Um fyrstu spurningu hv. þm.: skiptingu snjómoksturskostnaðar milli Vegagerðar ríkisins og sveitarfélaga á snjóþungum svæðum, er þetta að segja: Í reglum um snjómokstur, sem nú eru í gildi, segir:

„Á mjög snjóþungum vetrum geta sveitarfélög, sem verða fyrir verulegum útgjöldum vegna snjómoksturs, sótt um endurgreiðslu til Vegagerðar ríkisins á hluta þess kostnaðar sem þeim ber að greiða. Endurgreiðsla skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en helmingi af hluta sveitarfélaga.“

Í síðari hluta júnímánaðar í ár gerði Vegagerð ríkisins tillögur um greiðslu á hluta af kostnaði sveitarfélaga, enda höfðu þá 7 sveitarfélög sótt um endurgreiðslu. Till. voru á þessa leið:

„1) Ef kostnaður sveitarfélags við snjómokstur er undir 500 kr. á íbúa yfir árið verður ekki um endurgreiðslu að ræða. 2) Nemi hlutur sveitarfélags hærri upphæð en 500 kr. á íbúa yfir árið skal það, sem er umfram 500 kr., endurgreitt, en þó ekki meira en helmingur kostnaðar. Lágmarksupphæðin breytist í samræmi við verðlag.“

Rn. mun hafa samþ. að nota þessa viðmiðun við greiðslu til þessara 7 sveitarfélaga, en mun hafa frestað endanlegri ákvörðun um hvernig greiðslum þessum skyldi hagað.

Í umsögn Vegagerðarinnar um þetta atriði segir, að þar sem ekki sé liðinn nema einn vetur síðan 10. gr. tók gildi og ekki vitað að öllum sveitarstjórnarmönnum sé kunnugt um hana sé varla ráðlegt eða tímabært að taka ákvörðun um hærri endurgreiðslur að sinni.

Við þessi orð hef ég ekki neinu að bæta og tel rétt, að málið sé nánar skoðað, en legg áherslu á það sem hér kom fram, að sjálfsagt er að lágmarksupphæðin breytist í samræmi við verðlag.

Um snjómokstur á leiðinni Akureyri — Ólafsfjörður skal þetta tekið fram: Snjómokstri á þessari leið er þannig háttað, að frá Akureyri er mokað alla virka daga, þegar veður leyfir, út á Moldhaugnaháls, en þar skiljast leiðir: Norðurlandsvegur um Hörgárdal vestur og suður, en Ólafsfjarðarvegur út með Eyjafirði til Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Við Ólafsfjarðarveg norðan þessara vegamóta bjuggu 1. des. 1977 rúmlega 3500 manns að Hríseyingum meðtöldum. Í héruðum þeim, sem að veginum liggja, er mjög mikil mjólkurframleiðsla og er mjólkin flutt til Akureyrar. Ólafsfjarðarvegur frá Moldhaugnahálsi til Dalvíkur er ruddur tvisvar í viku, eins og margir af fjölfarnari vegum landsins. Af þeim 3500, sem við veginn búa, eru um 1150 norðan Dalvíkur, þ.e. íbúar Ólafsfjarðar. Af þeirri ástæðu hefur verið mokað sjaldnar þegar kemur norður fyrir Dalvík. En fleira kemur til. Ólafsfjarðarmúlinn er talinn mjög dýr í mokstri. Árið 1977 nam snjómoksturskostnaður við hann 16.9 millj. kr. eða tæpri 1 millj. kr. á hvern km og var hvergi á landinu meiri, nema á Oddsskarði áður en göngin voru tekin í notkun. Af þessari ástæðu hefur Vegagerð ríkisins talið eðlilegt að halda í við snjómokstur, eins og gert er á allra erfiðustu fjallvegum, og gildir það sama um Oddsskarð, Fjarðarheiði, Breiðadalsheiði og Botnsheiði. Meðan snjólétt er er heimilt að moka þessa vegi tvisvar í viku, en þegar snjóar eru miklir telur Vegagerðin illgerlegt að moka oftar, þar eð stundum taki tvo til þrjá daga að moka þessa vegi í slíkum tilvikum og m.a. af þeirri ástæðu hefur Vegagerðin ekki treyst sér til að mæla með meiri mokstri á þessum leiðum.

Um snjómokstur á leiðinni Húsavík um Raufarhöfn og Þórshöfn til Vopnafjarðar er þetta að segja: Hafa verður í huga að hér er um mjög langa leið um strjálbýl héruð að ræða, eða rúmlega 250 km leið. Snjómokstri á þessari leið er núna hagað þannig, að mestöll leiðin er aðeins mokuð einu sinni í hálfum mánuði meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla, en heimilt er að opna vikulega haust og vor meðan snjólétt er. Þó eru gerðar undantekningar varðandi leiðina frá Þórshöfn til flugvallar og frá Raufarhöfn til flugvallar, og það sama gildir um Vopnafjörð. Aukinn snjómokstur á allri þessari leið mundi vafalaust kosta allmarga tugi millj. kr. árlega, auk þess sem vafalaust yrði að auka snjómokstur á ýmsum öðrum leiðum ef öll þessi langa leið yrði mokuð einu sinni í viku.

Á fjárl. eru ætlaðar 1150 millj. kr. til snjómoksturs, þar af er reiknað með 120 millj. kr. vegna halla frá árinu 1978, en raunverulegur halli mun hafa numið 250 millj. kr. Af þessari ástæðu hefur nú af ríkisstj. hálfu verið gert ráð fyrir að í lánsfjáráætlun verði aflað 130 millj. kr. til viðbótar við það sem í fjárl. er, ef þessar áætlunartölur eru miðaðar við óbreyttar reglur. Breytingar á snjómokstursreglum munu hins vegar valda því, að annaðhvort verður um stóraukinn halla á vegáætlun að ræða ellegar þá að nýbygging vega hlýtur að verða talsvert miklu minni en áformað er.

Ég tel, að það sé mjög eðlilegt að við tökum þessar snjómokstursreglur til endurskoðunar með jöfnu millibili, og legg á það áherslu, að þær séu rökfastar og sjálfum sér samkvæmar. Ég tek undir það með hv. þm., að ef hægt er að sýna fram á að um sé að ræða óeðlilega mismunun, án þess að hægt sé að rökstyðja hana með einum eða neinum hætti, þá er sjálfsagt að skoða það. Ég tel hins vegar að stóraukinn snjómokstur um allt land hljóti að verða erfiður fjárhagslega, einfaldlega vegna þess að nýbygging vega má ekki minni vera en hún er nú.

Það er nú svo að enginn mokar snjó af þvílíkum krafti og vindur á vel uppbyggðum vegi. Og ég held að það sé skynsamlegra að við reynum að einbeita okkur sem allra mest að því að byggja vegina upp tír snjónum, þannig að verulega dragi úr snjómokstri. Ég verð hins vegar að segja, að mér virðist að leiðin milli Húsavíkur o Raufarhafnar hafi nokkra sérstöðu í þessum efnum. Á þessari leið er, eins og ég hef áður sagt, aðeins mokað tvisvar sinnum í mánuði. Síðan seinustu snjómokstursreglur voru settar hefur skipaferðum Skipaútgerðar ríkisins verið breytt á þann veg, að skipin hafa ekki lengur viðkomu á Kópaskeri. Það þýðir að í snjóþungu árferði e;r allur Axarfjörðurinn án samgangna á sjó eða landi og getur verið það í allt að hálfan mánuð í einu. Einnig verður að hafa það í huga, að mjólk er flutt til Húsavíkur. Þar að auki eru mikil náttúruumbrot á þessum slóðum og hafa verið undanfarin ár og allt útlit fyrir að þau haldi áfram enn um sinn. Ég tel því óhjákvæmilegt að gerð verði a.m.k. einhver breyting á snjómokstursreglum hvað snertir þessa leið milli Húsavíkur og Raufarhafnar. En það mun hafa kostnað í för með sér sem vafalaust verður ekki minni en 10–20 millj. kr. á ári, ef þarna yrði mokað einu sinni í viku.

Ég verð hins vegar að segja það að endingu, að jafnvel þótt einhverju verði nú hnikað til í sambandi við snjómokstursreglur, þá tel ég afskaplega mikilvægt að slíkar breytingar kosti það ekki, að ein allsherjarskriða fari af stað um allt land með stórfelldum breytingum á snjómokstursreglum, sem mundu óhjákvæmilega rýra nýbyggingafé í vegamálum um mörg hundruð millj. kr. Ég held, því miður, að við megum ekki við því.