13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2533 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

122. mál, snjómokstursreglur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég er að sumu leyti nokkuð óánægður með viðhorf ráðh., hæstv. samgrh., til þessara snjómokstursreglna. Mér finnst snjómokstur ríkisins vera ónógur og á ég þá sérstaklega við vegi sem hér hafa ekki mikið verið ræddir nú, þ.e.a.s. þjóðbrautirnar. Það fellur geysilegur kostnaður á sum sveitarfélög og jafnvel þó að endurgreiddur sé helmingurinn af þeim kostnaði, sem er fram yfir 500 kr. á íbúa, þá er þarna um mjög miklar byrðar að ræða. Og það er illt við það að búa að hafa fannfergi, því það skapar ekki einungis geysilega erfiðleika og kostnað, heldur einnig öryggisleysi og orsakar óviðunandi aðstöðumun. Þetta er öðrum þræði jöfnun á aðstöðu manna til þess að lifa í landinu og þar með félagslegs eðlis, og þá er ekki óeðlilegt að sameiginlegur sjóður beri þessar byrðar að talsverðu leyti.

Auðvitað notast ekki peningar, sem eytt er í snjómokstur á veturna, til að byggja upp vegina á sumrin. Það er okkur öllum ljóst og þess vegna verður að gæta hófs í þessu efni. En aðalvegir ganga að öðru jöfnu á undan í uppbyggingu og þar með eykst aðstöðumunurinn enn vegna þess að þeir vegir, sem þó eru alloft mokaðir á ríkisins kostnað, taka líka til sín fjármagnið, sem til vegakerfisins fer, og aðrir eru látnir sitja á hakanum. Það er eðlilegt að taka aukið tillit til aðstæðna, og ég hefði viljað leggja til að það væri greiddur kostnaður oftar en haust og vor við að opna vegi, gegn e.t.v. einhverju mótframlagi heimamanna þannig að þeir yrðu ekki til þess að misnota þetta. Mér fyndist engin ofrausn að verja til þess peningum að opnað væri einu sinni í mánuði eða jafnvel tvisvar til fólksins í dreifbýlinu sem býr ekki við hringveginn.