28.02.1979
Efri deild: 60. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2834 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

195. mál, hefting landbrots og varnir gegn ágangi vatna

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 374 hef ég flutt frv. til l. um breyt. á l. um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna. Þau lög voru sett árið 1975 samkv. tillögu landnýtingar- og landgræðslunefndar. Var það fyrsta sérstaka löggjöfin um þetta málefni. Við undirbúning landgræðsluáætlunarinnar hafði n. látið gera athugun á landbroti af völdum fallvatna í öllum héruðum landsins, og kom þá í ljós að víða er um það að ræða. Með fyrrnefndum lögum er komið föstu skipulagi á þessi mál heima í héraði, þar sem tveimur matsmönnum, þ. e. héraðsráðunaut og umdæmisverkfræðingi Vegagerðarinnar, er falið að fylgjast með því, hvar er hætta á landskemmdum, og taka á móti ábendingum um það. Þessum upplýsingum er síðan komið til fjvn. Alþ. sem geri tillögur um framlög á fjárl. til einstakra verkefna. Á þetta skipulag virðist hins vegar vanta að matsnefndirnar geri nægilega ákveðnar kostnaðaráætlanir um varnir, sem nauðsynlegt er að gera hið allra fyrsta, og síðan að einn aðili hafi yfirumsjón með starfi matsnefndanna og fylgi till. þeirra eftir.

Á undanförnum árum og áratugum hefur mikið starf verið unnið við að stöðva gróðureyðingu og snúa vörn í sókn með uppgræðslu örfoka lands. Enn þá sést samt allt of víða að vatnsföll eru að brjóta gróið land og skola gróðurmoldinni burt og sums staðar eru stór landssvæði í hættu. Virðist því eðlilegt að sami aðili, landgræðslustjóri, hafi umsjón með öllum þessum málum og geti metið hvert mest er þörf að heina því fjármagni sem til gróðurverndar og landgræðslu er veitt. Á þann hátt ættu að vera mestar líkur til að þær framkvæmdir sitji fyrir sem brýnastar eru hverju sinni, jafnframt því sem gleggra yfirlit ætti að liggja fyrir um ástand þessara mála. Þess vegna er í þessu frv. lagt til, að aftan við 1. gr. laganna komi setning um að landgræðslustjóri fari með yfirstjórn þeirra mála, sem lög þessi fjalla um, fyrir hönd landbrn. Skulu þá matsnefndir senda álitsgerðir sínar til landgræðslustjóra og Vegagerð ríkisins hafa samráð við hann um framkvæmdir.

Enn fremur er hert á ákvæði um að matsnefndirnar semji álitsgerð um allar nauðsynlegar framkvæmdir. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og landbn. Þar sem Búnaðarþing situr nú að störfum vil ég beina þeirri ósk til landbn., að þetta frv. verði sent til umsagnar og álits þess.