01.03.1979
Neðri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2908 í B-deild Alþingistíðinda. (2298)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Vegna þeirrar brtt., sem hér hefur komið fram, er það vitaskuld svo, að þau 2.5%, sem hér er talað um, eru skerðing á samningum sjómanna, því verður ekki á móti mælt, og það er hliðstæðan í sambandi við siglingar sem hér er um að ræða. Ég get ekki séð að það gildi neitt annað að því er siglingarnar varðar að þessu leyti en þegar landað er heima. Það er samræmið þarna á milli sem menn höfðu í huga þegar ákveðið var að taka þetta 1% gjald í höfn þegar landað er erlendis.

Það er svo af undirbúningi þessa frv. að segja, að sérstök samstarfsnefnd allra þriggja stjórnarflokkanna átti viðræður við fulltrúa þá, sem um getur í aths. með lagafrv. þessu, og það var undirbúið af henni. Mér kemur ákaflega á óvart að fá þessa till. frá einum stjórnarflokknum inn á þessu stigi. Tilgangurinn með 2. gr. er að halda jafnvægi milli þess þegar landað er erlendis og þegar selt er heima. Til þess að fullt jafnvægi væri þyrfti þessi prósenta í rauninni að vera 1.5%. Það þekkja auðvitað allir, hver þrýstingur er á siglingar hér á landi. Sá þrýstingur kemur auðvitað allt eins frá sjómönnum og útgerðarmönnum. Samræmisins vegna hefur þess vegna 2. gr. verið sett inn í þetta frv. til l. og þetta er flutt sem stjfrv. með samþykki allrar ríkisstj. og allra ráðh.