09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3162 í B-deild Alþingistíðinda. (2463)

78. mál, smíði brúar yfir Ölfusá við Óseyrarnes

Flm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Það er eins með þessa till. og aðrar þær þáltill. sem eru á dagskránni í dag, að það er orðinn alllangur tími liðinn síðan þær voru lagðar fram. Það hefur vissulega ekki verið rekið mikið á eftir því að þessi till. kæmi á dagskrá í hv. þingi. Hins vegar hefur verið rekið á eftir öðrum till. með miklu offorsi og afbrigðakröfum. (Gripið fram í.) Eins og t. d. þjóðaratkvæðagreiðslutillögu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar. (Gripið fram í.) Sannleikurinn um þá till. er sá, að það er ekki heil brú í henni, en í till., sem ég hef leyft mér að flytja, er svo sannarlega heil brú. (Gripið fram í: Það er ekkert smásmíði.) Brú yfir Ölfusá við Óseyrarnes.

Sjálf till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar hefja allan nauðsynlegan undirbúning að smíði brúar yfir Ölfusá við Óseyrarnes; þannig að hönnun brúarinnar liggi fyrir og framkvæmdir við brúargerðina geti hafist strax og aðalframkvæmdum við Borgarfjarðarbrúna er lokið.“

Þannig hljóðar sjálf till. Efni hennar er, eins og af þessu má heyra, um það, að nú þegar verði hafist handa um undirbúning og hönnun brúarinnar. Hún fjallar hins vegar ekki uni að farið verði að smíða brúna núna, heldur aðeins um það, að þegar því stóra brúarverkefni lýkur, sem nú er unnið að í landinu, verði brú þessi næsta stóra brúarverkefnið sem við tökum okkur fyrir hendur. Það er skoðun mín að brúargerð þessi sé ein sú nauðsynlegasta sem við getum lagt í vegna eðlis brúarinnar, þar sem hún er ekki aðeins venjulegt samgöngutæki í venjulegum skilningi, heldur kemur hún einnig að miklu meiri notum öðrum, eins og fram kemur í grg.

Herra forseti. Ég vil ekki að þessu sinni hafa um þetta mál langa ræðu, en svo sannarlega væri ástæða til þess, ekki síst vegna þess, hvernig ýmsir hafa leyft sér að tala um þennan tillöguflutning og kalla það mikið ábyrgðarleysi að leggja til að farið verði að smíða brú af þessari stærð og þessum dýrleika. Sannleikurinn er sá, að þeir, sem svo tala, tala auðvitað þannig vegna þess að þeir vita ekki betur. Menn hafa sem sagt ekki reynt að gera sér grein fyrir því, hvert er eðli þessarar brúar.

Ég vil leyfa mér að lesa grg., sem fylgir frv, Hún er svo hljóðandi:

„Þrjú sjávarþorp eru á suðurströndinni, Þorlákshöfn vestan Ölfusár, en Eyrarbakki og Stokkseyri austan ár. Þorlákshöfn var til skamms tíma lítil og opin fyrir haföldunni, en er nú komin í allgott horf og öryggi skipa í höfninni allt annað og betra en var.

Útgerð hefur verið stunduð um mjög langan tíma frá Stokkseyri og Eyrarbakka, þrátt fyrir erfið hafnarskilyrði. Með kröfum um meiri sókn, lengri róðra, meiri og fjölbreyttari veiðarfæri og bættan aðbúnað og vinnuskilyrði stækkuðu bátarnir og þeir minni urðu síður samkeppnisfærir. Þar með dugðu ekki lengur hafnirnar á Eyrarbakka og Stokkseyri, svo fiskibátar þeirra landa nú og hafa gert um langt skeið nær öllum afla sínum í Þorlákshöfn og aflanum og afurðunum ekið á milli — vegalengdin fram og til baka er á annað hundrað km.

Með tilkomu skuttogaranna var unnt að reka fiskiðnað eins og verksmiðjuiðnað — hráefnið berst jafnt til vinnslustöðvanna allt árið um kring, skapar betri og öruggari rekstrarmöguleika og jafnari og tryggari vinnu fiskvinnslufólks. Þessi þróun hefur orðið í nær öllum verstöðvum landsins, en hefur ekki náð til þorpanna austan Ölfusár, því þau eru nú orðin hafnlaus í nútímaskilningi.

Brú yfir Ölfusá við Óseyrarnes mundi tengja saman þorpin báðum megin ár og skapa auk þess mikla möguleika fyrir alla byggðina í vesturhluta Arnessýslu neðanverðri.

Brú yfir Ölfusá við Óseyrarnes losaði að mestu leyti þorpin austan ár undan niðurdrepandi oki hafnleysisins — kæmi í stað tveggja hafna, að svo miklu leyti sem það er unnt án hafnargerða.

Þessi brú yrði ekki aðeins samgöngubót í þeim venjulega skilningi þegar um almennar brúargerðir er rætt, heldur auk þess gegna allt öðru og mikilvægara hlutverki, eins og nokkuð hefur verið drepið á hér að framan, og er þá ekki allt talið.

Tímabundið atvinnuleysi hefur ríkt í þessum þorpum báðum, einkum á Eyrarbakka — og miklir erfiðleikar steðja þar að fiskvinnslunni af fyrrgreindum ástæðum. Brýna nauðsyn ber til að tryggja aukið og jafnara hráefni til þessara sjávarþorpa — þar bíða vinnufúsar hendur eftir að fá tækifæri til að sækja sjávarafla og vinna hann, eins og þar hefur verið gert um aldir. Mesta nauðsynjamál þessara þorpa og þessa svæðis alls er að fá þessa brú; þess vegna er þessi till. flutt og þess vegna verður barist fyrir framgangi þessa máls þar til sigur vinnst.

Að lokum má geta þess í tengslum við þá umr., sem farið hefur fram vegna mikillar jarðskjálftahættu á Suðurlandi, að núverandi brú yfir Ölfusá er á einu mesta hættusvæðinu, en ekki eru heimildir um skjálfta þar sem gert er ráð fyrir að hin nýja og mikilvæga brú rísi.“

Það er kannske einfaldast til þess að vekja athygli á höfuðatriði þessa máls að leggja fram spurningu — koma aðeins með eina spurningu: Hvað er það sem eitt sjávarþorp má síst missa? Svarið er að vísu afar augljóst. Það er auðvitað höfnin sem útgerðarstaðir og sjávarþorp mega síst vera án. En hafnirnar á Stokkseyri og Eyrarbakka eru ekki nægilega góðar til þess að taka inn skip af þeirri stærð, sem nú eru í notkun, og alls ekki auðvitað togara af einni eða neinni stærð. Þessi þorp eru hafnlaus. Það er auðvitað hægt að nota þarna mjög smáa báta, sem eiga ákaflega erfitt með að standast samkeppnina við aðra sem hafa betri skip að bjóða, bæði hvað snertir aflamöguleika og eins það að fá mannskap á þessi skip.

Þannig eru þessi tvö merku sjávarþorp orðin hafnlaus og það er afar dýrt að gera hafnir á þessum stöðum, jafnvel þó ekki væri gert nema á öðrum staðnum. Það hafa legið frammi teikningar og útskýringar á hvernig hægt væri á ódýrastan hátt að gera höfn á Eyrarbakka. En þær upphæðir eru allt aðrar og miklu hærri en þær sem koma fram þegar athugað er hvað þessi brú mundi kosta, því samkv. nýjustu tölum er álitið að kostnaður við gerð þessarar brúar væri um 2 milljarðar kr. — auðvitað margfalt minna en Borgarfjarðarbrúin kostar. Það yrði talinn lítill kostnaður við hafnargerð fyrir eins mikilvægt og stórt svæði og þarna er um að ræða, en brúin gæti komið í staðinn fyrir slíka hafnargerð.

Hins vegar er kostnaður, sem yrði við samþykkt þessarar till., sáralítill: að hanna þetta mannvirki. Kostnaðurinn er svona lágur vegna þess að brú, sem þarna yrði smíðuð, yrði svipuð í lagi og þær brýr sem lagðar voru yfir vötnin miklu í Skaftafellssýslu. Í smíði slíkra brúa hafa menn mikla reynslu og hönnunarkostnaður á þessu fyrirtæki yrði þess vegna miklu lægri.

Einnig er óhætt að geta þess, að ýmsar kannanir hafa þegar farið fram á brúarstæðinu. Það hafa þegar verið rannsakaðar undirstöður undir brúna. Það hefur komið í ljós að það er allvæn hraunhella undir öllum ósnum, svo að þar getur brúin fengið ágæta undirstöðu. Þannig hafa nú þegar verið rannsakaðir ýmsir þeir hlutir, sem minnst er á í þessari till., — viss hluti undirbúningsins er í raun og veru a. m. k. langt kominn, þó ekki sé hægt að segja að honum sé lokið.

Ef till. þessi yrði samþ. kostaði það ekki mikil fjárútlát, síður en svo. Ég treysti mér ekki til þess að nefna tölur í því sambandi. Ég átti tal við vegagerðarmenn um þetta nú í vetur og þeir höfðu ekki tölurnar handbærar. Ég kann varla við að vera að nefna hér ágiskunartölur þeirra, en þar er sannarlega ekki um háar upphæðir að ræða. Það er einhvers staðar á milli 10 og 20 millj. kr. sem giskað er á að sá kostnaður gæti orðið. Það er ekki meira. Hins vegar er kostnaðurinn við smíði brúarinnar, eins og ég sagði áðan, um 2 milljarðar kr. Til samanburðar má geta þess, að nú er verið að smíða fiskiskip hér í landinu sem áætlað er að kosti tæpa 2 milljarða kr.

Helstu mótbárurnar, sem fram koma þegar talað er um þessa brúarsmíði, eru auðvitað eðli málsins samkvæmt, að það er spurt um hvort þessi brúarsmíði sé hagkvæm, þ. e. a. s. menn reikna út hagkvæmnina: hvað hún kosti, hver sé vaxtabyrðin og hvað komi í staðinn. Slíkt á auðvitað alltaf að gera. En það er nú svo, að þegar menn reikna út hagkvæmni við mannvirki af þessu tagi geta menn kannske ekki haft aðrar forsendur en þær sem þegar liggja fyrir. Það er að mínum dómi ákaflega ótraust niðurstaða úr slíkum útreikningi. Ég held að þegar menn fara að velta málinu fyrir sér gaumgæfilegar sé nauðsynlegt að taka tillit til þess, hvernig aðstæður breytast við tilkomu brúarinnar og þá myndist aðrar forsendur við útreikning dæmisins.

Það er enginn vafi á því að fiskvinnslufyrirtækin í þessum þorpum, sem fólkið vinnur við og lifir á og öll þorpin raunar, munu að sjálfsögðu lyftast upp og eflast öll við að hafa greiðari aðgang að sjónum — við að fá betri og hagkvæmari tæki til að afla sér hráefnis og miklu betri skilyrði til að nýta hráefnið eins og best verður á kosið. Nú þurfa hinir litlu bátar þeirra, sem komast inn í hafnirnar við bestu skilyrði, þó ekki nálægt því allir, að landa afla sínum í Þorlákshöfn. Á undanförnum árum hafa þeir landað um og yfir 80% af afla sínum þar, sem þeir hafa síðan þurft að keyra austur eftir ákaflega misjöfnum vegum og við misjöfn skilyrði. Það er þekkt staðreynd, að þegar menn aka sjávarfangi á vörubifreiðum langan og vondan veg er hægt að reikna út rýrnunina á aflanum og það gætu jafnvel, ef menn væru reikningsglaðir og vildu fara að reikna út hversu mikið hefði tapast af verðmætum á undanförnum 10–20 árum á því að aka öllum þessum afla þarna á milli, svo ég tali nú ekki um allan viðbótaraflann og viðbótarvinnsluna, sem þarna hefði getað farið fram við miklu betri og hagkvæmari skilyrði, þá gætu komið út býsna háar upphæðir, sem jafnvel væru farnar að nálgast þennan kostnað allan. (Gripið fram í: Vörubílstjórarnir hafa haft mjög gott upp úr þessu.) Það er rétt hjá hv. þm., að ákveðnar þjónustugreinar hagnast á þeirri niðurlægingu þessara sjávarþorpa að hafa ekki hafnir. Það er eins og segir í kapítalíska kverinu: Eins dauði er annars brauð.

Ég vil ekki sætta mig við að það séu rök á móti málinu að einhverjir þjónustuaðilar missi vissan spón úr aski sínum á móti öllu því hagræði og öllum þeim verðmætum sem í staðinn kæmu. Það er sannleikur, sem við þekkjum sem höfum komið til Eyrarbakka, að þar hafa ekki orðið miklar framfarir — manni finnst eins og þorpið hafi dregist aftur úr. (Gripið fram í: Hvað er brúin löng?) Hún er 400 m. Þorpið sýnist hafa dregist aftur úr og stundum vera býsna líflítið og erfiðleikarnir miklir þarna í vinnslu, eins og maður getur rétt ímyndað sér. Hafnirnar hafa verið svo lélegar að þær hafa rústað niður þennan flota með vissu millibili. Það er ljót lesning að lesa alla þá löngu og miklu lista yfir sjótjón á fiskiskipum þeirra manna sem hafa verið að reyna við hin ótrúlega erfiðu skilyrði að sækja sjó frá þessum stöðum. Ég þori ekki að nefna það, hversu stór hluti flotans hefur eyðilagst einu sinni eða kannske tvisvar á síðustu 20 árum. Ég gæti trúað að það væri eitthvað nálægt því allur.

Herra forseti. Ég talaði um að tala stutt og skal verða við því eigin loforði, eins og sjálfsagt er og vandi minn er. En ég legg áherslu á að hv. alþm. kynni sér hið raunverulega eðli þessa máls, en líti ekki á það sem tilraun til þess að koma í gegnum þingið einhverju ómerkilegu kosningaloforði, eins og flestum dettur oft í hug þegar menn eru að fjalla um svona kjördæmismál. Þetta er sannarlega verulega mikið alvörumál. Ég verð að segja það eins og er, að mér líst ekki vel og mér líst m. a. s. illa á framtíð þessara þorpa, ef ekki verður bætt úr í þessum efnum, og mér sýnist — og öllum sem til þekkja þarna að eina ráðið til þess að einhverjar umtalsverðar úrbætur verði í þessa átt sé að smíða brú yfir Ölfusá við Óseyrarnes.