12.03.1979
Efri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3178 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

197. mál, söluskattur

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í tilefni af orðum síðasta ræðumanns, en ég vil nota tækifærið til að þakka hinar góðu undirtektir sem hafa komið fram við þetta mál.

Hv. síðasti ræðumaður fór að tala um endurskoðun á snjómokstursreglum. Það er alger misskilningur að þetta mál varði snjómokstursreglurnar. Það er algerlega óháð þeim. Hv. þm. hafði, að því er virtist, áhyggjur af tekjumissi Vegasjóðs. Eins og ég tók fram í ræðu minni áðan er meginkostnaðurinn við snjómoksturinn greiddur af Vegagerð ríkisins. Ríkið er að greiða sjálfu sér söluskatt, eins og ég sagði, og þetta hefur engin áhrif á stöðu ríkissjóðs að því leyti sem um þennan kostnað er að ræða. Ég sagði að þær reglur, sem giltu nú um þetta efni, væru bæði óeðlilegar og ranglátar. Það er óeðlilegt að ríkið sé að greiða sjálfu sér söluskatt, en þetta er ranglátt vegna þess að þær reglur gilda að þar sem fámennið er mest, þar leggst söluskatturinn á íbúana sjálfa, sveitarfélög þar, mjólkurbú og aðra aðila sem hafa beina hagsmuni af því að halda þjóðvegunum í byggðarlaginu akfærum. Ég vil leyfa mér að halda því fram og endurtaka það sem ég sagði áðan, að þetta er ranglátur skattur og þess vegna ber að fella niður söluskatt af snjómokstri.