13.03.1979
Sameinað þing: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3215 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

103. mál, landgræðsla árin 1980- 1985

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 114 hef ég leyft mér ásamt nokkrum hv. þm. öðrum að flytja till. til þál. um áætlun um landgræðslu árin 1980–1985. Í sambandi við flutning þessarar þáltill., sem er flutt til þess að koma í veg fyrir að stöðvuð verði landgræðsla sú sem unnið hefur verið að á síðustu árum, vil ég leyfa mér að gera grein fyrir þeim árangri sem náðst hefur í sambandi við landgræðsluáætlunina frá 1974, og styðst ég þar við frásagnir sem ég hef fengið frá Landgræðslu ríkisins.

Landgræðslu ríkisins voru ætluð 70% af þjóðargjöfinni. Árleg grunnfjárhæð, sem féll í hlut Landgræðslunnar, var því um 140 millj. kr., að viðbættum verðbótum sem greiddar hafa verið árið eftir samkv. útreikningi Hagstofu Íslands og komu fyrst til greiðslu árið 1976. Landgræðsluáætlunin gerir ráð fyrir að hlutverk Landgræðslunnar í framkvæmdaáætluninni skiptist í sex meginþætti:

Stöðvun gróður- og jarðvegseyðingar og sandfoks. Þetta er megintakmarkið í landgræðsluáætluninni og til þessa verkefnis hefur verið varið megninu af því fé sem til umráða hefur verið. Þessum þætti er skipt í þrjá þætti, þ. e. uppsetningu nýrra girðinga og landgræðslu innan þeirra, í öðru lagi viðhald uppgræðslu innan eldri girðinga og svo vinnu við sáningu.

Í landgræðsluáætluninni er getið um 19 uppblásturssvæði sem nauðsynlegt er talið að girða samkv. tillögum Landgræðslu ríkisins. Nú er búið að girða 12 af þessum svæðum. Girðingaframkvæmdir eru í undirbúningi á 4 svæðum, sem tilnefnd voru, en 3 svæði eru ekki enn þá á dagskrá, fyrst og fremst vegna þess að önnur válegri uppblásturssvæði hafa komið til eftir að áætlunin var samin. Er þar sérstaklega um að ræða svæði innan Suður-Þingeyjarsýslu.

Uppgræðsla hefur að langmestu leyti verið framkvæmd með áburðarvélum. Um framhald af uppgræðslu eldri svæða er það að segja, að á 12 svæðum var aukinna aðgerða talin þörf, og hefur mikið verk verið unnið á þeim öllum og einnig á fjölmörgum af þeim liðlega 100 svæðum sem Landgræðslan hefur aðallega starfað á á liðnum árum. Skipulega hefur verið unnið að endurnýjun þeirra landgræðslugirðinga sem Landgræðslan annast vegna ofbeitar á landi eða hún telur að viðkomandi landssvæði þoll ekki neina beit á næstu árum.

Uppgræðsla jarðvegs. Unnið hefur verið ötullega að jöfnun rofabarða og var lítil jarðýta keypt og notuð til þess verks. Unnið hefur verið bæði utan og innan landgræðslugirðinganna, aðallega hefur verið unnið austur í Mýrdal, undir Eyjafjöllum, á Rangárvöllum, í Hrunamannahreppi, á Haukadalsheiði og í Ölfusi. Rétt er að taka það fram, að víða hafa heimamenn tekið virkan þátt í þessu starfi, bæði stungið niður rofabörð og einnig mjög víða sáð þar sem jarðýta hefur verið að verki. Þar fyrir utan hefur svo mikið áhugamannastarf verið unnið á þessu sviði á vegum Landverndar.

Í lögum um landgræðslu segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í 8. gr.:

„Heimilt er Landgræðslu ríkisins að styrkja sveitarfélög, upprekstrarfélög eða einstaklinga til uppgræðslu, jarðvegs- og gróðurverndaraðgerða, svo sem til að koma upp girðingum í kringum uppblásturssvæði eða vangróið land, græða það og halda við girðingum. Framlög mega vera allt að 2/3 kostnaðar við þessar framkvæmdir, að meðtöldum þeim framlögum, sem kunna að verða greidd samkv. jarðræktarlögum.

Landssvæði, sem að dómi Landgræðslunnar eru í hættu eða þar sem þröngt er í högum og þörf hagabóta, ganga fyrir með slíka aðstoð.

Aðstoð skal binda skilyrðum um meðferð landsins, og er heimilt að krefjast endurgreiðslu á framlagi, ef út af þeim er brugðið.“

Í 25. gr. sömu laga eru ákvæði um heimild til að styrkja gróðurverndaraðgerðir sem hafa verulegan kostnað í för með sér. Yfirleitt hefur aðstoð Landgræðslunnar verið bundin við að styrkja sveitarfélög til uppgræðslu stórra samfelldra heildarbeitilanda á örfoka landi á mörkum afréttar og byggðar, eins og áður hefur verið vikið að. Einstaklingum hefur verið veitt aðstoð við að stöðva uppblástur og gróðureyðingu á heimajörðum, þar sem ástæða hefur þótt til að hefta fokið.

Uppgræðsla samfellds beitilands er víða í gangi og eru þau svæði nytjuð verulega, en undir eftirliti Landgræðslunnar. Má þar nefna svæði í Biskupstungum, Hrunamanna-, Gnúpverja-, Landmanna-, Holts-, Hvols-, Fljótshlíðar- og Vestur-Eyjafjallahreppum í Árnessýslu og Rangárvallasýslu, Dyrhólahreppi í Vestur-Skaftafellssýslu, í afrétti Reykjavíkur og Kópavogs og nokkurt land í hreppum í Suður-Þingeyjarsýslu. Rétt er að ítreka það hér, að um er að ræða uppgræðslu gróins lands í langflestum tilfellum, þar sem heimamenn taka verulegan þátt í uppgræðslukostnaði, og er alveg ljóst að þessar aðgerðir hafa víða létt gífurlega beitarálagi af nálægum svæðum. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að farið hefur verið út fyrir beitarsvæði til gróðurverndar, t. d. hér í nágrenni Reykjavíkur, og var með styrktarframlagi af hálfu Landgræðslunnar komið til móts við Reykjavíkurborg vegna unglingavinnu sem hér var unnin.

Um landgræðsluáveitur er það að segja, að veruleg reynsla hafði fengist við að stöðva jarðvegsfok með vatni áður en landgræðsluáætlun var samþykkt. Það, sem helst hefur verið framkvæmt í áveitum, er í Langvíuhrauni, upp af Keldum á Rangárvöllum, við Kirkjubæjarklaustur, á Brunasandi í Landbroti og Vogsósum. Ástæður hafa verið kannaðar allrækilega við Sandvatn og við Sandkluftavatn, en það eru stærri framkvæmdir en fjárveitingar hafa fengist til.

Ekki þarf að taka það fram, að melgresið hefur verið helsta vopn landgræðslumanna í heftingu sandfoks hér á landi. Á nokkrum stöðum á landinu lá við hreinni auðn vegna sandfoks áður en melgresi var sáð þar, og hafa ýmsir fullyrt að á þessum stöðum væri ekki búið nú ef melgresi hefði ekki verið notað. Fjármagn var veitt til að smíða melskurðarsláttuvél sem hefur reynst mjög vel. Undanfarandi ár hefur mest verið skorið af mel í Sauðlauksdal, Meðallandi, Álftaveri, Kelduhverfi, á Hólsfjöllum og í Þorlákshöfn. Ekkert sjálfboðastarf kemur Landgræðslunni eins vel og við söfnun melfræs og verður því að harma hvað þessi starfsemi hefur dregist saman. Hún féll að mestu leyti niður á s. l. ári.

Unnið hefur verið að ræktun innlends fræs í samvinnu við Rannsóknastofnun landbúnaðarins, eins og hv. 6. þm. Suðurl. komst að orði áðan. Nú er ljóst að það er framkvæmanlegt að rækta innlent grasfræ, en mikið vantar á að fjármagn sé fyrir hendi til þess að rækta hér fræ í stórum stíl.

Þá vil ég geta þess, að flugvellir þeir, sem Landgræðslan hefur notað; hafa verið endurbættir mjög verulega á síðustu árum, sérstaklega hjá Gunnarsholti.

Um gróðureftirlit er það að segja, að þetta er eitt af þremur meginverkefnum Landgræðslunnar samkv. lögum. Fylgst hefur verið með gróður- og beitilöndum úr lofti og af láði. Sérstaklega hefur verið fylgst með ástandi gróðurs við afréttargirðingar, sem oft hefur nálgast verulegt hættuástand. Einnig hefur verið unnið að því að draga úr upprekstri stóðhrossa á viðkvæm afréttarlönd og fækka beitarhögum þeirra, þar sem þau keppa um beitargróður við sauðfé á ofsetnum afréttum. Hrossum virðist fjölga stöðugt hér á landi og þess vegna hefur þetta eftirlit verið upp tekið.

Um leið og ég lýk máli mínu vil ég geta þess, að niðurstaðan af því, sem að framan hefur verið sagt um árangur af þjóðargjöfinni sem gefin var til verndar landgræðslu hér á landi 1974, er sú, að hún hafi valdið straumhvörfum í íslenskum landgræðslumálum. Að vísu hefur verið um það deilt, hvort svo hafi verið, en sannanlegt er að verulega hefur á unnist, þó enn þá séu til uppblásturssvæði. Hitt er ljóst, að til þess að sú sókn nýtist, sem þá var hafin, þarf að halda áfram í ekki minna mæli og með svipuðum hætti í aðalatriðum og verið hefur, þ. e. að skipta fjármagni því, sem fer til landgræðslu og landverndar eftir svipuðum leiðum og gert hefur verið á síðustu 4 árum. Úr fjármagni til landgræðslu má því ekki draga. Lífbeltin tvö, landgrunnið og gróður landsins, skapa grundvöll að tilveru þessarar þjóðar í landi okkar. Þau verk, sem unnin hafa verið á síðustu árum í þróun í þessa átt, mega ekki falla í gleymsku hjá þjóðinni. Það má ekki heldur gleymast að starfræksla í þessum verndarþáttum þarf að halda áfram. Það þarf að vera örugg sókn og vísindaleg rannsókn til þess að staðfesta hvað að gagni megi koma til landverndar og landgræðslu á þann veg sem sótt hefur verið fram á síðustu árum. Til þess að tryggja stöðuga sókn á sviði landgræðslunnar er þessi þáltill. flutt. Hún gerir ráð fyrir að unnið verði að þessum málum með sama fjármagni eða svipuðu fjármagni og síðustu 4 árin og farnar verði svipaðar leiðir og verið hefur til þess að nýta það.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. þessari verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.