15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3284 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

93. mál, endurskipulagning á olíuverslun

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég get varla stillt mig um það í upphafi orða minna um þessa till. að lýsa þeirri tilfinningu minni, að það fari nú að verða harla tilgangslaust að ræða á Alþ. einhver mál, sem þjóðina varða einhverju, vegna þeirra mála sem hér hafa verið til umr. í dag, harla tilgangslítilla að minni hyggju, og hefði kosið að lengri tími gæfist en 5 mínútur af fundartíma Sþ. til þess að ræða jafnmikilvægt mál og þessi tillaga felur í sér.

Ég vil í sambandi við þessa till. minna á það ástand, sem nú hefur skapast. í orkumálum í heiminum, þar sem þessi orkulind fer nú mjög þverrandi og horúr svo að um næstu aldamót verði ekki til olía svo nokkru nemi, nema þá til iðnaðarframleiðslu. Það er því mikil nauðsyn að leita allra leiða til þess að lækka dreifingarkostnað á olíu hér á landi, einkum og sér í lagi, og þar með olíuverð. Þessi till. hefur komið fram á hinu háa Alþingi áður, till. Alþfl.-manna um breytingu á olíuverslun hér á landi. Í till. segir, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að skipa 5 manna nefnd til að gera tillögur um endurskipulagningu á innflutningi á olíuvörum og dreifingu þeirra um landið. Nefndin hafi það verkefni að tryggja fyllstu hagkvæmni í innkaupum, sölu og dreifingu á olíuvörum innanlands, svo þær geti jafnan verið á boðstólum á lægsta verði til notenda. Nefndin hraði störfum sínum eftir mætti og skili till. til ríkisstj. og Alþ. eigi síðar en 1. ágúst 1979. Æskilegt væri, að nefndin beindi athygli sinni einkum að eftirfarandi atriðum: 1. Hugsanlegri einkasölu ríkisins á olíuvörum. 2. Sameiningu olíufélaganna. 3. Aðhaldi í rekstri félaganna og meira frjálsræði í olíuinnflutningi, er gæti aukið samkeppni í olíukaupum og olíudreifingu.“

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess, eins og málum er nú háttað í Sþ., að hafa fleiri orð um þessa till. Ég hefði kosið að hún hefði komið hér á dagskrá þegar ástand var öðruvísi í þinginu, við aðrar aðstæður en hér hafa ríkt í dag. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hann skyldi taka till. á dagskrá, en áskil mér rétt til þess að flytja fyrir henni lengri framsögu þegar hún verður tekin upp aftur, enda vænti ég þess að umr. um málið verði frestað.