20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3412 í B-deild Alþingistíðinda. (2652)

155. mál, verðmyndun á bensíni og olíum

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Sem betur fer verður þetta síðasta fsp. mín að sinni. Hún er á þskj. 257 og henni er beint til hæstv. viðskrh. um verðmyndun á bensíni og olíum og hljóðar svo:

„Hverjir eru verðmyndunarþættir bensíns og hinna ýmsu tegunda olíu?“

Þessi fsp. er orðin allgömul á dagskrá, en það er ekki hæstv. forseta um að kenna að hún hefur ekki komið til umr. fyrr. Að vísu hefur olíumálin og verðlagningu á olíu borðið á góma hér á hinu háa Alþingi, því þingi sem nú situr. Fyrir alllöngu birtist í einu dagblaðanna skrá um þessa verðmyndunarþætti og þeir reyndust 20. Kennir þar margra forvitnilegra grasa, svo að ekki sé meira sagt, eins og t. a. m. þeirra, að olíufélögin hafa til þess heimild að leggja á fyrir landsútsvari sínu. Og það sýnir sig vegna hlutfallsálagningar stöðugt í þessum liðum, að það er um að gera bæði fyrir ríki og olíufélögin að olía hækki sem mest, því að það skilar langmestum ágóða til handa olíufélögunum og í ríkiskassann.

Af því sem ég veit að hæstv. ráðh. hefur haft tækifæri til þess að kynna sér þetta mál rækilega vegna þessara upplýsinga sem birtust í dagblaðinu Þjóðviljanum á sínum tíma, þá væri forvitnilegt að vita hvort hann eða hæstv. ríkisstj. hefur tekið afstöðu til þess, hvort ekki sé ástæða til að endurskoða frá grunni þessa furðulegu verðmyndunarþætti, og í öðru lagi, hvort það er ekki stefnan hjá hæstv. ríkisstj. að lina eitthvað á innheimtunni á þessari lífsnauðsynlegu vöru í ríkiskassann, sem margfaldast hefur nú hin síðustu árin vegna margföldunar á olíuverði. Er mjög mikilvægt að fá einhverja vissu um þetta, og eins og ég hef áður sagt snýr það að fleirum en útgerðarmönnum. Þetta snýr auðvitað enn fremur og frekar að öllum almenningi í landinu, þeim sem notar olíu til upphitunar húsa sinna.

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. sjái sér einnig fært að koma að áliti sínu á þessum atriðum sem ég hef nefnt, fyrir utan hina beinu skýrslugerð um verðmyndunarþættina sjálfa.