20.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3427 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

113. mál, umbætur í málefnum barna

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Hér er á ferðinni till. til þál. um umbætur í málefnum barna. Þessi till. er flutt í tilefni af barnaári sem mjög hefur verið um rætt. Ég tel ekki ástæðu til að flytja langa framsögu fyrir þessu máli, það skýrir sig að verulegu leyti sjálft, og vil ég því, með leyfi forseta, fá að lesa aðfaraorð og grg., þannig að skýrt komi fram hvað hér er á ferðinni. Í till. segir:

„Alþingi ályktar að fara þess á leit við ríkisstj., að hún skipi samstarfsnefnd stjórnmálaflokka og félagasamtaka, er fjalli sérstaklega um málefni barna í tilefni af ári barnsins 1979. Samstarfsnefnd þessi geri till. um nýja lagasetningu og umbætur í málefnum barna og liggi þær fyrir 101. löggjafarþingi haustið 1979. Í grg. með till. til þál. þessarar er bent á allmarga málaflokka, sem nefndin gæti hugað að.“

Ár barnsins er á þessu ári, 1979. Til þess er ætlast, að á því ári verði börnum og málefnum þeirra sérstakur gaumur gefinn, enda ekki vanþörf á. Á þessu ári hafa átt sér stað talsverðar umr. um barnið og samfélag þess. Þetta er ekki síður mikilvægt á Íslandi en í öðrum löndum. Það er ekki fátækt né hungur er steðjar að íslenskum börnum. Það er miklu frekar umhyggjuleysi, sem stafar af hinni gífurlegu vinnu, er foreldrar og umráðamenn barna leggja af mörkum. Fyrir þetta líða börn stórlega, og má segja, að nokkurt málmhljóð hafi mátt heyra í umr. um lausn á uppeldismálum barna undanfarin ár.

Nútímaþjóðfélagið virðist í „framfara“ vilja sínum hafa gleymt hinum mannlega þætti í uppbyggingu þjóðfélagsins. Það hefur verið andsnúið börnum að vissu leyti. Má t. d. benda á þá öfugþróun, að í flestum tilvikum eiga fjölskyldur og foreldrar barna í mestum fjárhagsörðugleikum þegar börnin eru yngst og þurfa á mestri umhyggju að halda. Þetta á við um þá, er stofna heimili, standa í íbúðarbyggingum eða íbúðarkaupum. Á því tímabili er mest vinna lögð af mörkum og minnstur tími gefst til að sinna barnauppeldi. Þjóðfélagið hefur ekki reynt að létta byrði þessa samfélagshóps, og er vert að gefa þessum þætti gaum á ári barnsins.

Þeir málaflokkar, sem flm. þessarar till. leggja mesta áherslu á, eru í samræmi við niðurstöður Sambands Alþýðuflokkskvenna, sem hefur fjallað mikið og ítarlega um málefni barna. Samband Alþýðuflokkskvenna hefur gefið út sérstaka stefnuskrá um barnið í þjóðfélagi jafnaðarstefnunnar og er einu stjórnmálasamtökin sem það hafa gert. Verður nú getið þeirra mála, sem flm. óska að samstarfsnefndin hugi að. Auðvitað kemur margt annað til greina, en nauðsynlegt er að afmarka starfssvið nefndarinnar eftir mætti.

1. Sett verði löggjöf um allt að 10 daga leyfi á ári á fullum launum fyrir hvort foreldri, sem er frá störfum vegna veikinda barna.

2. Sett verði lög, þar sem framleiðsla, innflutningur og sala á „stríðsleikföngum“ verði bönnuð, einnig að hert verði allt eftirlit með kvikmyndum, útvarps- og sjónvarpsdagskrám, sem ætlaðar eru börnum.

3. Komið verði á fót embætti barnaumboðsmanns með eftirfarandi starfssvið m. a.: Fræðstu fyrir almenning um réttarstöðu barna, — eflingu áhugamála og réttindamála barna, — úrskurðarvald í ágreiningsmálum um börn, — eflingu réttaröryggis barna á heimilum og uppeldisstofnunum, — til að koma á framfæri og fylgja eftir hagsmuna- og áhugamálum barna við skipulagningu á sviði umhverfismála og íbúðahverfa, — eflingu samvinnu, jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar milli barna og annarra aldursflokka, án tillits til kynferðis og annarra sér ástæðna, — sem verði opinber áfrýjunaraðili, þegar grunur leikur á, að barn hefði verið órétti beitt.

4. Tryggt verði, að allar konur njóti fæðingarorlofs, og sett verði löggjöf þar um.

5. Stefnt verði að launalausu leyfi vegna fæðingar barna í allt að eitt ár fyrir hvort foreldri sem er, án réttindaskerðingar, einnig að gefa foreldrum ungra barna kost á styttri eða breytilegum vinnutíma.

6. Að endurskoðuð verði tollaálagning á ungbarnafæðu, barnavögnum og á öðrum nauðsynjavörum fyrir börn.

7. Sett verði löggjöf um foreldrafræðslu og fjölskylduráðgjöf, er felur í sér fræðslu fyrir foreldra í formi kynlífsfræðslu, hjónabandsráðlegginga, heimilisfræðslu, barnasálfræði og fræðslu um barnaumönnun og barnauppeldi.

8. Að komið verði á fót fjölskylduráðgjöf um allt land í umsjá hins opinbera.

9. Að börnum, sem eru foreldralaus eða vanrækt, verði samfélagið að sjá fyrir nægum fjölda aðlaðandi lítilla heimila með traustu starfsfólki af báðum kynjum.

10. Að stofnsett verði fósturheimili undir eftirliti sérhæfðs starfsliðs fullorðinna, sem sé nægilega vel launað fyrir vandasamt starf.

11. Ríkið taki að nýju þátt í rekstri dagvistarstofnana.

12. Þroskaheft börn fái aukna heilsugæslu á vegum heilsugæslustöðva. Staða þeirra í skóla- og dagvistarmálum verði endurskoðuð í samræmi við félagasamtökin Þroskahjálp.

13. Að um allt land verði starfandi kunnáttufólk og sérfræðingar, sem geti aðstoðað þau börn, sem eiga við einstök vandkvæði að etja.

14. Að tekin verði upp í efri bekkjum grunnskóla almenn fræðsla um réttindi og skyldur hvers einstaklings í íslensku þjóðfélagi.

15. Að gerð verði úttekt á almennri réttarstöðu barna í þjóðfélaginu með það fyrir augum að fá nákvæmt yfirlit yfir hana. Síðar verði komið á samræmdari og sjálfri sér samkvæmari löggjöf um börn.

16. Áð endurskoðuð verði núgildandi lög um vernd barna og ungmenna (nr. 53 1966).

Það er einlæg von flm., að mál þetta fái skjótan framgang og innan þessarar samstarfsnefndar megi samræma þær hugmyndir, sem fram kunna að koma um réttindamál barna. Það hefur verið orðað svo, að fátt sé nútímabörnum nauðsynlegra en að fá foreldra sína aftur. Þessi setning segir meira en langar greinargerðir. Framfarir eru til lítils ef þær verða á kostnað þeirrar undirstöðu, sem hvert þjóðfélag byggir á, þ. e. nýjum kynslóðum.“

Herra forseti. Hér hefur verið rakin grg. sem fylgir till. til þál. um umbætur í málefnum barna. Það er sagt og hefur verið sagt að undanförnu, að svo mjög hafi málefnum barna verið gefinn gaumur í tilefni af barnaári að þar fari út úr að flóa. Þessi till. gerir einkum og sér í lagi ráð fyrir því, að málefnum barna verði sinnt á þann hátt að ekki sé hver að ota sínum tota, ef ég mætti orða það þannig, þ. e. a. s. hver sé í sínu horni að vinna að þessum málefnum, heldur verði reynt að sameina það starf og þá vinnu sem nú fer fram í þjóðfélaginu, í sambandi við málefni barna. Þetta er geysiviðamikið mál og mjög mikilvægt að fjallað verði um það af þekkingu og skilningi. Við flm. þessarar þáltill. um umbætur í málefnum barna teldum það mjög til sóma þessari stofnun, ef hægt væri að koma á fót slíkri nefnd eða samstarfshópi, eins og menn eru nú gjarnan farnir að kalla nefndir, er gæti á skipulegan hátt fjallað um þessi mál, sem nú virðast að mörgu leyti nokkuð laus í böndunum þar sem svo margir aðilar eru að fjalla um þau víða í stofnunum og félögum hér á landi.

Ég tel mig ekki þurfa að fara fleiri orðum um þessa till., herra forseti, en legg hana fram og vænti þess, eins og segir í grg. með henni, að hún geti fengið skjótan framgang, þannig að hún geti þó a. m. k. orðið framlag til þess sem af okkur er ætlast á ári barnsins 1979.