01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

6. mál, stjórnarskipunarlög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Vegna umr. þeirrar, sem hér hefur fram í þessari deild um afnám deildaskiptingar Alþingis og hugsanlegt hagræði, sem af slíku kynni að vinnast, held ég að það sé rétt, einnig eftir ræðu Lúðvíks Jósepssonar, hv. 1. þm. Austurl., að við, sem þessar hugmyndir styðjum, gerum í örstuttu máli grein fyrir því, hvað við hyggjum að skynsamlegt sé að komi í staðinn, enda hefur þm. til þess hvatt.

Ég held að það sé söguleg staðreynd, sem öllum er ljós, að þrátt fyrir það að engar lagabreytingar hafi um það verið gerðar á undanförnum árum eða áratugum hefur þessi stofnun verið að þróast frá tvískiptingu í deildir eða frá tveimur deildum og annars vegar yfir til Sameinaðs þings og hins vegar yfir til nefnda. Æ meiri þungi sérfræðivinnu fer fram í nefndum og æ meiri málfundur fer fram í Sþ.

Hugmyndir þær, sem Finnur Torfi Stefánsson og fleiri hafa mælt fyrir um deildaskiptingu. Alþ., eru raunar mjög í samhengi við annað frv. sem liggur fyrir þessari d. og fjallar um aukið aðhalds- og eftirlitshlutverk nefnda. Þar er gert ráð fyrir því í fyrsta lagi, að aukinn hluti af þeirri starfsemi, sem hér hefur farið fram, fari fram í nefndum, og þar er einnig gert ráð fyrir því, að nefndir geri annað og meira en að ræða fram komin frv. eða ályktanir í þinginu, heldur að nefndir hafi beinlínis frumkvæðisskyldu og frumkvæðisrétt til þess að fjalla um mál. Í sjálfu sér skiptir ekki máli og er hagræðingaratriði, hvort í slíkum nefndum sitja 6 eða 12 eða 17 eða 18 þingmenn, eins og hér hefur verið nefnt. Það fer eftir því, hvernig við teljum hagkvæmt að skipa slíkum nefndum. En þegar allt er saman lagt, þá fæ ég ekki séð hvernig með nokkrum hætti er hægt að mæla gegn því, að það mundi vinnast mikil hagræðing hér í þinginu við það, að hin almenna umr. færi aðeins fram í einni deild, þ.e.a.s. sameinuðum þeim tveimur deildum sem nú eru fyrir, en hins vegar mundi meginþungi þingstarfa flytjast í þessar nefndir. Á næstu dögum verður gerð grein fyrir þessu frv. um nýskipan þingnefnda og starfshátta þeirra.

Ég vil aðeins vekja athygli á því, hversu ríkulega hangir saman, annars vegar hugmyndin um afnám deilda og starf þingsins í einni deild og hins vegar um mjög aukið hlutverk nefnda sem þá störfuðu fyrir opnum tjöldum þannig að allir borgarar gætu með fylgst. Auk þess sýnist mér nokkuð ljóst, sem nýgræðingi í þessari stofnun, að önnur regla til nýsköpunar yrði upp tekin, og hún er einfaldlega sú, að með einhverjum hætti sé ræðutími manna skammtaður. Þetta er hægt að gera án þess að verið sé að ganga á málfrelsi eða skoðanafrelsi manna. Þetta er hagræðingarregla, og ég held að sé henni beitt af hófsemi og skynsemi hlyti hún að leiða til þess, að öll störf þessarar samkomu yrðu skynsamlegri en verið hefur.

Kjarni málsins er einfaldlega sá, að vekja athygli á því, að hugmyndin um afnám deildaskiptingar og um starfsemi Alþingis í einni deild hangir nákvæmlega saman við annað frv. sem kveður á um útfærslu nefndastarfa, eftirlitsskyldu nefnda og það, að nefndir sjálfar hefðu frumkvæði að því að taka mál fyrir og að slík störf færu fram í sama heyranda hljóði og hefur gerst í þingdeildum.