01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

6. mál, stjórnarskipunarlög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls um þetta frv. Bæði er nú það, að mér þótti eðlilegt að okkar ungu, nýju og fersku þm. neyttu óþreyttra krafta sinna með því að ræða það sér á parti, eins og forseti landsins sagði hér í minnisverðu ávarpi þegar við vorum að koma til þings, og annað hitt, að mér, sýnast margir kostir fylgja þessu frv. og það er búið að tíunda þá rækilega hér úr þessum ræðustól.

En þegar líður nú á þessa umr. og ég er búinn að fylgjast með henni um tíma, þá sé ég fram á að það vantar enn nokkur atriði í þessa umr. sem varða málið miklu, og það eru einmitt þeir gallar, sem málið hefur, og það er ástæðulaust að liggja á þeim þegar menn eru að gera sér grein fyrir því, hvort eðlilegt er eða réttmætt að gera breytinguna eða ekki.

Það er mjög í tísku að tala um gallana á deildaskiptingu Alþingis, og það hefur verið rækilega tíundað hér á undanförnum dögum, hvað hún sé hroðaleg og hvað hún sé óheppileg, og margt ljótt um hana að segja. Ég verð að segja samt sem áður, þrátt fyrir það að ég viðurkenni þessi rök, að ég hef margoft horft upp á það, að frv. hafa batnað í seinni deild. Ég er tilbúinn að fara yfir þingsögu síðari ára með flm. í góðu tómi einhvern tíma og benda honum á býsna mörg frv. sem bötnuðu til geysilegra muna í seinni deild. Það er bent á að nefndastörf séu seinvirk og lítið sé unnið í nefndum, og það er alveg rétt að vissu leyti, að þetta tekur allt sinn tíma og sumar n. mættu vinna betur. Þó eru það einkum þeir, sem hér eru nýkomnir til starfa, sem hneykslast mest á þessu lélega nefndastarfi, og sannast þá enn hið fornkveðna, að þeir segja mest frá Ólafi kóngi sem aldrei heyrðu hann eða sáu.

Ég er ekki að bera á móti því, að nefndir vinni hægt. Ég held hins vegar að þær mundu ekki vinna að sama skapi hraðar sem fleiri væru í þeim. Ég held að t.d. 7 manna nefnd sé að ýmsu leyti skynsamleg stærð nefndar, það sé nokkuð mátulegur hópur, 5–7 menn, til þess að koma að skynsamlegri niðurstöðu. Ef þeir væru 14 eða kannske 20, þá væri miklu meiri hætta á því, að þeir gerðu nefndastörfin að málfundi og þar með færi mikill tími í þvaður og illa yrði farið með tímann.

Menn eru mjög að hneykslast á því, að mál sofni í n., og satt er það, að töluverður hluti af málum, sem fyrir þingið koma sofnar. En það er ekki endilega vegna þess að n. vinni illa. Það þarf ekki að vera. Það getur verið vegna þess að einhverju leyti, en það getur líka verið vegna þess, að n. séu starfi sínu vaxnar og velji þann kostinn að láta þessi mál bara deyja í svefni. Við erum nú komnir með ein 60 mál hérna á borðin okkar, og ég væri til með að fara með flm. í góðu tómi í gegnum þennan bunka og benda honum á að þó nokkur hluti þessara mála er gallaður og þannig úr garði gerður, að hann á ekki beint erindi að renna greitt í gegnum þingið. Ég get nefnt dæmi um það, a.m.k. eitt, að það eru tvö mál um sama efni. Og það er meira að segja búið að boða að Ólafur Ragnar Grímsson ætli að flytja till. um olíumengun á Suðurnesjum, mál sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson er nýbúinn að flytja. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson flutti mál um 18 ára kosningaaldur. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gerði það líka. Og þetta þarf náttúrlega samræmingar við í nefnd. Síðan er sumt af málunum í bunkanum um stjórnlagabreytingar allra handa breytingar sem ekki á við að gera nema rétt fyrir kosningar og þar fyrir alls ekki tímabært að renna þeim í gegn núna, jafnvel þó að þetta geti verið rétt og skynsamlegt. Þar á ofan held ég það kunni að finnast í þessum bunka mál sem eru rangt hugsuð.

Við vorum norður á Blönduósi, ég og hv. 1. flm. nú um daginn og þar flutti hv. 1. flm. málsins, Finnur Torfi Stefánsson, 2. landsk. þm., ræðu sem ég man a.m.k. eitt úr. Hann hafði það eftir einhverjum krata, að pólitík væri að vilja. Það er gott svo langt sem það nær. En ég vil nú meina að það sé ekki nóg að langa. Það er t.d. alls ekki nóg að vilja fá skerm. Það er t.d. alls ekki nóg að vilja fá pressu. Það er alls ekki nóg að langa til að vera þm. Meginatriðið er náttúrlega það og það sem við verðum allir að gæta okkar á, bæði ég og aðrir, að reyna að ráða við verkefni okkar, og ég held nú, þegar allt kemur til alls, að töluvert af því, sem komið er á borðin okkar, og töluvert af því, sem á eftir að bætast við, sé þannig úr garði gert að best sé að þögnin geymi það. Það er þægilegra fyrir flm. að málin séu hreinlega borin út og látin deyja í svefni í nefnd heldur en þau séu drepin hér opinberlega með aftökum og látum við lokaafgreiðslu á þinginu.

Hitt er svo annað mál, eins og hv. 2. landsk. þm. nefndi í ræðu sinni á mánudaginn var, að þessi mál hafa gert ofurlítið gagn ef þau mega verða til þess, að verða svörun við því sem hann kallaði auglýsingaþörfina og er býsna gott orð og skynsamlegt, eins og ég reyndar vissi að vel gæti komið frá þessum hv. þm.

En ef við færum nú að hafa opnar nefndir, eins og áhugasamir siðbótarmenn sem eru að neyta óþreyttra krafta sinna leggja til, þá er ég dauðhræddur. Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í því, en ég er bara dauðhræddur um að þá kynni auglýsingaþörfin að fara að ríða húsum og opnar nefndir myndu alls ekki verða svo skilvirkar sem sumir þessir menn vilja vera láta, vegna þess að ef við þyrftum kannske 17 eða 20 allir saman að vera að auglýsa snilli okkar í n. fyrir fjölmiðlum, fyrir fólki utan úr bæ, þá er ég ekki viss um að þetta yrði eins skilvirkt og menn vilja vera láta, hvað þá þegar menn eru farnir að þvaðra um það, sem gerist á þingflokksfundum. Þá er náttúrlega illa komið. Ég hlustaði á hv. þm., form. Alþfl., Benedikt Gröndal, tala um það á beinni línu, að nú væru menn farnir að segja miklu frjálslegar frá því, — sem gerðist á þingflokksfundum, ég held að hann hafi orðað það svo að nú létu menn ekki lengur bjóða sér það að þegja yfir því sem gerðist á þingflokksfundum. Ég held að þetta sé mesti misskilningur. Það þarf ekki að vera neitt ljótt sem gerist á þingflokksfundum, en menn úti í bæ á ekkert að varða um það sem gerist þar. Þingflokksfundir eru til þess að menn geti samræmt sjónarmið sín og tekið úr sér hrollinn. Þeir eiga að geta gert upp sín mál, og það er bara léttir fyrir þingið að þeir þurfa ekki að vera að gera það hér í ræðustól.

Hugsið ykkur nú t.d. hv. þm., ef hv. þm. Sjálfstfl. þyrftu að gera öll sín mál upp hér í ræðustól. Ég bið guð að forða okkur frá því. Ég held að hv. þm. Alþfl. hefðu líka gott af því að samræma sjónarmið sín og aðlaga sjónarmiðum ríkisstj. líka áður en farið er hér í ræðustól.

Þetta var um auglýsingaþörfina eða auglýsingahvötina og opið nefndastarf. Ég held að mergurinn málsins sé nefnilega sá, að það verk, sem við eigum að vinna hér á þessum stað, eigi ekki að vera showbusiness. Öll stjórnmálastörf eiga að vera því marki brennd, að þau séu ekki showbusiness, heldur eiga þau að vera vönduð vinna. (Gripið fram í). Já, það er nú von að maðurinn spyrji, en ég veit a.m.k. að hann veit hvað er vönduð vinna.

Hitt er svo nokkuð mikil röksemd sem áhugamenn um hið breytta nefndastarf ber á borð, þ.e. um sérhæfingu þm., og hún er að vissu leyti ákaflega mikilvæg og ákaflega góð. En hún má ekki heldur ganga of langt. Ef sérhæfing gengur of langt, þá er hún með því hættulegasta sem fyrir getur komið. Ég held að fagidíótar séu það voðalegasta sem til er í þjóðfélaginu, þ.e.a.s. menn sem vita ákaflega mikið um ákaflega þröngt og takmarkað svið, því þegar þeir eru búnir að öðlast stórasannleik á sínu sérstaka áhugasviði, þá getur vel svo farið, að þeir verði starblindir á aðra þætti, sem líka þarf að hafa í huga og ómögulegt er að komast hjá að hafa einhverja innsýn í, og þá getur líka farið svo, að sérhæfðir gáfumenn verði bara meinlokustrákar og dellumakarar og jafnvel auglýsingaskrumarar. Þeir hafa ekkert að gera hér. Og það gæti meira að segja svo farið, ef ekki væri nema ein nefnd sem fjallaði um hvert mál í þinginu áður en það kæmi til endanlegrar afgreiðslu, að í þessa n. veldust að meiri hl. menn — ég veit að það er engin hætta á þessu enn þá og verður vonandi ekki í bráð, en einhvern tíma í framtíðinni gæti svo farið, að dellumakarar og meinlokustrákar veldust að meiri hl. í þessa nefnd. Það væri síður að þetta gæti skeð ef nefndirnar væru tvær. Ég lít svo á, að starf seinni n. sé fyrst og fremst endurskoðun þess sem fyrri n. gerði. Endurskoðandinn á að vinna á eftir reikningshaldaranum og a.m.k. líta á hlutina án þess að bókhaldarinn sé með honum og velta hlutunum fyrir sér sér á parti.

Þess vegna held ég, að menn þurfi þrátt fyrir allt og þó að deildaskipting þingsins hafi marga galla að velta fyrir sér líka kostum deildaskiptingarinnar, og þess vegna stóðst ég ekki mátið að segja þessi fáu orð. Ég geri að vísu ekki ráð fyrir að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, a.m.k. vona ég að svo verði ekki, jafnvel þó að margt sé gott í því, vegna þess að það er e.t.v. fullsnemma framkomið á kjörtímabili. En ég vildi láta þetta innlegg koma fram í þessum umr.