26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3568 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

226. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Í tilefni af því frv., sem hér hefur verið flutt, leitaði rn. álits hjá Hafrannsóknastofnun sem ég tel rétt að komi strax fram. Í svari Hafrannsóknastofnunar er bent á að mál þetta hafi verið rætt þar og þá út frá minnisgreinum sem Aðalsteinn Sigurðsson hefur lagt fram og stofnunin telji æskilegt að skarkolaveiðar með botnvörpu verði leyfðar undan Vestfjörðum á milli 4 og 12 sjómílna á svæðinu frá Látrabjargi að Djúpál á tímabilinu sept. til nóv. og jafnvel fram í des. Jafnframt telur stofnunin að riðill í poka botnvörpunnar ætti að vera 170 mm. En að því er frv. varðar, þá er syðra svæðið, sem lagt er til í frv. að opna, óþarflega lítið að dómi stofnunarinnar, en á hinn bóginn hefur Hafrannsóknastofnunin næstum engin gögn um skarkolaveiðar á nyrðra svæðinu sem frv. fjallar um. Hins vegar tekur hún fram að það sé vitað að það er á gönguleið skarkolans frá Norðurlandi á hrygningarstöðvarnar við Vestfirði og því megi vel vera að þar megi fá skarkola framan af vetri.

Að öðru leyti vil ég aðeins vekja athygli á því, að hér er gert ráð fyrir að leyfið sé bundið við skip sem eru 20 m að lengd eða minni, en það hljóti að koma til íhugunar hvort ekki sé mögulegt að hafa einhverja aðra lengdarviðmiðun. Af hálfu starfsmanna rn. hefur verið bent á að íhugunarefni væri að miða við 26 m, eins og víða er gert annars staðar, og þá með tilliti til þess að auka möguleikana á að nýta þennan stofn.

Það eru sem sagt þessi tvö atriði sem hljóta að koma til skoðunar og þá í nefnd væntanlega: annars vegar stærðarmörkin og hins vegar möskvastærðin sem eigi að miða við.