26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3591 í B-deild Alþingistíðinda. (2808)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Á fimmtudaginn var óskaði ég eftir því að fá að taka til máls utan dagskrár í Sþ. um netaveiðileyfi til loðnubátanna sem sleppt hefur verið í hrygningarþorskinn. Hæstv. sjútvrh. baðst undan því að svara mér á fimmtudaginn, en hann hefur haft í ýmsu að snúast yfir helgina og var tilbúinn að fara í sjónvarpið og segja frá reglugerð sem hann er að setja um fiskveiðar.

Það er rétt að byrja á því að rifja upp að við lifum á fiskveiðum og okkur ber að vernda fiskstofnana. Ég er ekki á þessu stigi að draga í efa að fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunar greini rétt frá ástandi fiskstofnana og að við verðum að byggja upp þorskstofninn. Hins vegar er álitamál og um það stendur deilan, hvað við treystum okkur til þess að láta það taka skamman tíma. Ég ætla ekki að deila á það mark sem hæstv. sjútvrh. setur um heildaraflamagnið, svo framarlega sem hann sér möguleika á því að fleyta þjóðarbúinu áfram með 280–290 þús. tonna þorskafla, en ég ætla að gera aðferðirnar að umtalsefni.

Á miðvikudaginn var sagði dagblaðið Tíminn frá því, að 30 af 58 bátum, sem stundað hafa loðnuveiðar fram að þessu, hefðu nú verið útbúnir með leyfi til netaveiða á þorski. Hér finn ég ekki samræmið. Hvers vegna er verið að sleppa loðnubátunum, sem hafa þó hæsta aflahlut íslenskra fiskiskipa, beint í hrygningarþorskinn fyrir Suður- og Suðvesturlandi, úr því að ráðh. hefur komist að því að 280–290 þús. tonn séu mátulegur þorskafli? Þetta er spurningin sem mig langar að vita svar við.

Raunar mætti spyrja ráðh., sem auðvitað er kunnugur vinnubrögðum á netabátum: Hvað telur hann að hver loðnubátur muni hafa að meðaltali mörg net í sjó? Hvað telur hæstv. sjútvrh. líklegt að báturinn verði lengi að sinna um net sín í eðlilegu veðurfari og við eðlilegar kringumstæður? Telur hæstv. sjútvrh. nokkra hættu í því að netabátar úr Reykjaneskjördæmi komi með tveggja nátta fisk að landi? Hvernig ætlar hæstv. sjútvrh. að verka þennan þorskafla?

Svo langar mig til þess að vita, ef unnt væri, hver væri verðmætisaukning þess þorsks sem ekki er veiddur 51/2 árs á Halanum af togurum á Norðurlandi, Vestfjörðum eða Austfjörðum, en gerður 6 ára og þá veiddur í net af loðnubátum við Reykjanes, áður en hann hrygnir, og ýldaður í aflahrotum einhvers staðar í Reykjaneskjördæmi og verkaður svo í salt eða í lægri gæðaflokka í skreið og „fer upp á hjalla“, svo ég noti orðalag hv. þm. Ágústs Einarssonar í þáltill., miðað við þann þorsk sem veiddur er 51/2 árs á Halanum og ísaður í kassa og verkaður að norðlenskum, vestfirskum eða austfirskum hætti í neytendapakkningar. Hvor þorskurinn telur hæstv. sjútvrh. að láti líf sitt föðurlandinu til meiri nytja?

Það berst afli á land hér sunnanlands. Það er sem sagt landburður af þorski. Fyrir nokkrum vikum stóðu menn í þessum ræðustól með andarteppu út af því að skuttogarinn Dagný frá Siglufirði hafði neyðst til þess að fara til útlanda vegna skrúfuviðgerðar og seldi þá afla í leiðinni. Hvers vegna er Sandgerðistogarinn Ólafur Jónsson að sigla núna? Svona mætti lengi spyrja. Þessu mætti öllu saman velta fyrir sér. Hæstv. sjútvrh. er áreiðanlega fús til þess að gera grein fyrir þessum málum og ég fer áreiðanlega ekki í geitarhús að leita ullar.

Samkv. upplýsingum Landhelgisgæslunnar, sem birtust í Þjóðviljanum í morgun, hafði gæslan talið 105 netabáta að veiðum fyrir Suður- og Suðvesturlandi í gær. Þjóðviljinn gerði því skóna að væru netin tengd enda við enda mundu þau ná frá Reykjanesi í Hornafjörð. Þess vegna þarf ég þessa fræðslu, þar sem ég veit allt of lítið um útgerð frá Reykjanesi til Hornafjarðar og ég er, eins og menn vita, bóndi að norðan.

Hæstv. ráðh. hefur sagt frá reglugerð sem hann ætli sér að setja. Ég treysti því að hann sé ekki enn þá búinn að staðfesta hana. Þessi reglugerð er í stuttu máli á þá leið, að maður gæti haldið að bátaútgerðarmaður úr Keflavík hefði samið hana. Hún gerir ráð fyrir takmörkun á þorskafla. Það sjónarmið er skiljanlegt, en takmörkunin kemur næstum öll niður á einni grein fiskveiða. Skerðingin kemur sem sagt öll á togarana. Að vísu eru þessar reglur ekki eins vitlausar og þær till. sem Morgunblaðið sagði að hæstv. sjútvrh. hefði viðrað upphaflega, en þær eru nógu slæmar samt.

Ef nú t. d. loðnumenn veiða 30 þús. tonn aukalega af þorski í mokinu fyrir sunnan og skerðingin frá í fyrra er 30 þús. tonn, kemur strax 60 þús. tonna skerðing á afla togaranna miðað við árið í fyrra. Og hvað á að gera við togarana 1. október, ef þorskaflinn verður þá kominn í 280–290 þús. tonn? Þetta eru sem sagt spurningarnar sem við bændur erum að velta fyrir okkur.

Ég vil endurtaka það sem ég hef áður sagt, að ég styð friðunaraðgerðir, réttlátar og skynsamlegar friðunaraðgerðir. Ég er tilbúinn að standa að því að banna smáfiskadráp, tilbúinn að mæla með því að stoppað sé við í aflatoppum, tilbúinn að banna dráp á hrygningarfiski. Ég er m. a. s. tilbúinn að binda flotann svo vikum eða jafnvel mánuðum skipti. En vel að merkja, þessar aðgerðir verða að vera réttmætar og skynsamlegar og þær verða að koma sem jafnast niður á öllum sjómönnum. Ég lýsi megnustu óánægju með ráðherratilskipanir um að skerða tekjur togarasjómanna um 20–25% á meðan aðrir sjómenn halda öllu sínu, eða hér um bil öllu sínu, á sama tíma. Við erum að þrátta út af 3% hjá BHM, 3% hjá BSRB eða jafnvel 1/2% hjá ASÍ. Mér finnst það vera alvarlegt að hrekja okkar góðu togaramenn í land í betur launuð störf. Það eru nógir hér í bænum til þess að bera rukkaratöskur undir hendinni. Hitt er sýnu verra, ef togaraútgerðin er sett á hausinn. Því fylgir nefnilega bullandi atvinnuleysi um mikinn hluta landsins. Fiskiðnaðurinn kemur til með að lamast, en á honum byggja fjöldamörg byggðarlög tilveru sína. Það er gott fyrir kontórista á Faxaflóasvæðinu að hugsa út í það.