28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3684 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

184. mál, tollskrá

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég tek nú næstur til máls á eftir einum af stuðningsmönnum ríkisstj. og út af þessu máli sem hann gerði að umræðuefni. Ég vildi gera örlitla grein fyrir því.

Ég vil þá fyrst segja það, að það voru allir ráðh. með fullri meðvitund þegar um þetta mál var rætt og þegar það var afgreitt í ríkisstj. Það var enginn einn ráðh. sem hafði frumkvæði í þessu efni frekar en annar. Ég tók það skýrt fram, þegar þessi mál voru rædd, vegna þess að menn hafa gert sér pólitískan mat úr þessum málum, að ég vildi ekki hafa neitt frumkvæði í þessu efni, og að það hafi verið eitthvert frumkvæði af hálfu Framsfl. og ráðh. Framsfl. í þessum málum er ekki rétt — og rétt skal vera rétt.

Varðandi hitt atriðið sem hv. þm. minntist á, að hér hefði verið um launungarmál að ræða, þá vil ég geta þess, að ég var spurður að því í rn. hvort það væri búið að setja nýja reglugerð um bílamál ráðh. Ég sagði auðvitað eins og var. Og ég var spurður að því, — ég er ekki alveg viss um hvort það voru skilaboð frá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni eða einhverjum öðrum, — hvort þessar reglur væru leyndarmál. Ég svaraði því til strax, að þær væru ekkert leyndarmál, og átti þátt í því að senda þessar reglur til viðkomandi þm., þannig að hér var engin leynd á ferðinni og hefur aldrei verið hugsað sem nein leynd, ekki af neinum hæstv. ráðh., það fullyrði ég. Enda eru þetta opinber mál og sjálfsagt að ræða þau og ekkert við því að amast, ekkert við því að segja og á að ræða þau fyrir opnum tjöldum.

Varðandi þessar reglur, þá eru þær nokkur breyting á því sem áður hefur verið. Ég held að þær reglur, sem gilt hafa til þessa, hafi verið settar einhvern tíma á áratugnum 1960–1970. Framsfl. var ekki í ríkisstj. á þeim áratug, það er ljóst, þannig að Framsfl. hefur enga sérstöðu í þessum málum umfram aðra flokka, enga sérstöðu og alveg ástæðulaust að vera að drótta því að Framsfl. Það er ekkert tilefni til þess og hefur held ég aldrei verið.

Varðandi þessar reglur, sem hv. þm. gerði hér grein fyrir áðan, þá er gert ráð fyrir að um bifreiðamál ráðh. gildi tvenns konar reglur. Annars vegar sú regla, að ríkið leggi þeim til bifreið. Það er enginn ágreiningur um það og hefur held ég aldrei verið, og hv. þm. gerði ekki í sínu máli að ágreiningsefni að það væri eðlilegt að ráðherraembætti fylgdi bifreið. Ég hygg að allir hv. alþm. séu sammála um að það sé eðlilegt og sjálfsagt, enda hefur svo verið um áratugi. Það, sem um er að ræða samkv. þessum nýjum reglum, er að ríkissjóður leggi ráðh. til bifreið, kaupi bifreið, reki hana og leggi þeim hana til. Út af þessu urðu á sínum tíma verulegar deilur vegna þess að sagt var að þessar bifreiðar væru notaðar í einkaþágu. Það urðu umr. um það hér á Alþ. á sínum tíma, og ég hygg að það hafi leitt til þess að settar voru nýjar reglur um það, að ráðh. legðu embætti sínu til bifreið sjálfir með þeim hætti að felld væru niður aðflutningsgjöld af bifreiðunum.

Nú er annar kosturinn þessi, að ríkið kaupi og reki ráðherrabíla. Hinn kosturinn er svo sá samkv. þessum nýju reglum, að ríkið semji við ráðh. um afnot af einkabifreiðum þeirra, ríkið greiði allan rekstrarkostnað bifreiðanna samkv. reikningum, en auk þess greiði það fyrningarfé, 10% á ári, sem reiknast af endurkaupsverði viðkomandi bifreiðar. Ráðh., sem kaupir bifreið, á kost á láni úr ríkissjóði allt að 3 millj. kr. með eðlilegum viðskiptakjörum.

Varðandi þessa kosti tvo er fróðlegt að reyna að gera sér grein fyrir því, hvort er dýrara fyrir ríkið, hvort kostar meira fé fyrir almenning í landinu, að ríkið kaupi og reki bifreiðar eða ráðh. leggi til bifreiðar með þeim hætti sem hér er lagt til. Og það er auðveldur reikningur að reikna út, að það er ódýrara fyrir ríkið og ráðh. eiga sínar bifreiðar með þessum hætti og leggja þær til. Það er ódýrara. Ég geri ráð fyrir því, að bifreið, sem hér um ræðir, gæti kostað um 6 millj. kr. í kaupverði eins og nú háttar, hæfileg bifreið til þessara nota. Eðlilegir vextir af því fé eru — við skulum segja: 20%, 1200 þús. kr., og afskriftir, eftir því sem fróður maður hefur sagt mér, væru eðlilegar um 1millj., þannig að hér væri um að ræða útgjöld upp á 2.2 millj. kr. Það er gert ráð fyrir afskriftum sem mundu svara til 600 þús. kr. samkv. þessum reglum. Ráðh. mundu þá, ef þeir velja þann kostinn að eiga bifreiðina sjálfir, — nú skal ég ekkert segja um hvað ráðh. gera í því efni, þeir geta valið hér um, — ef þeir velja þann kostinn, þá sýnist mér fljótt á litið að þeir muni sjálfir greiða sem svarar 1 600 þús. kr. á ári í afskriftir og vexti af bifreið sem kostar 6 millj. Þar að auki greiða þeir að sjálfsögðu samkv. þessum nýju reglum líklega um 4 millj. kr. í aðflutningsgjöld sjálfir til ríkisins. Þegar þetta mál er skoðað, eins og öll önnur mál, þá er auðvitað hægt að líta á málin frá heildarsjónarmiði, og ég hygg að það mundi muna þó nokkru fyrir ríkið ef 9 ráðh. legðu til sína bíla samkv. þessum reglum, samanborið við það að ríkið keypti sams konar bifreiðar og þær væru reknar alfarið af ríkissjóði.

Varðandi heimildir í þessu efni, þá er þess að geta, að sérstakur liður er á fjárl. varðandi bifreiðakostnað stjórnarráðsins og ráðh., þannig að heimildir í þessu efni eru vafalausar — alveg hiklaust vafalausar, bæði í sambandi við lán af þessu tagi og einnig í sambandi við kaup bifreiða sem ríkið kaupir án þess að það sé sérstaklega gerð grein fyrir því í fjárlagafrv. Ef ríkið keypti t. d. 9 bifreiðar, þá er vafalaust að það eru fullar heimildir til þess í fjárl. Þetta atriði hef ég rannsakað og vil að gefnu tilefni taka það fram.

Nú vil ég ekki á neinn háu vera að skjóta mér undan ábyrgð í sambandi við þetta mál. En ég vil endurtaka það, að enginn einn ráðh. hafði frumkvæði eða gekk fram umfram aðra í þessum efnum. Ríkisstj. samþykkti þessar reglur. Þær eru svona. Þær eiga ekki að vera neitt leyndarmál, heldur eiga þær að ræðast, og það er ekkert við það að athuga þó að menn hafi skoðanir á þessu máli. Menn eru kannske ekki sammála um það, ég hef ekkert við það að athuga. En það hefur aldrei verið hugmyndin að hér væri um neins konar pukur að ræða af neinu tagi.