02.04.1979
Efri deild: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3740 í B-deild Alþingistíðinda. (2922)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Frsm. minni hl. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Eins og kom fram í máli síðasta hv. ræðumanns, 6. þm. Suðurl., varð fjh.- og viðskn. þessarar virðulegu deildar ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n. hefur skilað áliti þar sem mælt er með samþykkt frv. með brtt., en ég og hv. 5. þm. Norðurl. v. höfum skilað minnihlutaáliti sem er á þskj. 502 og útbýtt hefur verið hér í hv. deild.

Það er út af fyrir sig kannske ekki ástæða til þess við þessa umr. í hv. Ed. að vera með miklar orðalengingar í sambandi við það frv., sem hér er til meðferðar, fram yfir það sem tekið er fram í nál. okkar í minni hl. fjh.- og viðskn. Það liggur alveg ljóst fyrir, að eftir mikið strit og streð hefur hin mislita hjörð, sem skipar stuðningsmannalið núv. hæstv. ríkisstj., loksins komið sér saman um afgreiðslu þessa frv., en ekki til þess að ná neinum varanlegum umbótum í efnahagsmálum þjóðarinnar, til þess eru flest ákvæði frv., þrátt fyrir þær brtt. sem meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur, allt of losaraleg og sundurlaus, enda viðurkennt af aðstandendum þess að búið sé að afvatna svo ákvæði frv. að því er snertir VIII. kafla þess — um verðbætur og launagreiðslur — að nokkurn veginn sé útséð um að nokkur minnsti árangur náist í sambandi við baráttuna við verðbólguna. Sú staðreynd blasir hins vegar við, að náðst hefur samkomulag um að halda núv. ríkisstj. saman um nokkurn tíma a. m. k. Það hefur frá upphafi verið aðaltakmark hinna sundurlausu flokka sem að stjórninni standa — það eina sameiningaratriði sem þeir hafa getað sameinast um. Hagsmunir almennings og þjóðarinnar í heild skipta hér engu máli. Það hefur verið uppi sú skoðun hjá mönnum, hvort ekki væri rétt að gefa þessari stjórn, sem nú situr, og þeim flokkum, sem hana styðja, nýtt nafn og kalla „Hræðslubandalagið nýja“, því svo hræddir hafa þessir aðilar verið við að koma fyrir dóm þjóðarinnar út af stjórnaráthöfnum sínum.

Í sambandi við myndun núv. ríkisstj. og raunar ávallt síðan hefur verið mikil áhersla lögð á það af stuðningsmönnum stjórnarinnar, að ríkisstj. legði alveg sérstaka áherslu á að hafa traust samstarf við fulltrúa launþega, og margir af helstu forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar hafa ekki átt orð yfir það hve vinsamleg núv. ríkisstj. væri verkalýðnum. Í þessu sambandi hlýtur sú spurning að vakna hjá manni, hvernig á því geti staðið, að þegar sú staðreynd er fyrir hendi að allir venjulegir kjarasamningar meðlima ASÍ runnu út 1. des. s. l. skuli vera lagt fram og ætlað að afgreiða hér á hinu háa Alþingi frv. um stjórn efnahagsmála o. fl., þar sem ráð er gert fyrir ýmsum efnahagsráðstöfunum, sem eiga að gilda um langan tíma, allt að tveimur árum, án þess að gengið sé frá almennum samningum aðila vinnumarkaðarins. VIII. kafli frv., um verðbætur á laun, sýnir m. a. að þar er ekki um neitt bráðabirgðaákvæði að ræða. Manni hefði því ekki fundist óeðlilegt að stjórnvöld, sem telja sig sérstaklega vinveitt verkalýðssamtökunum, hefðu viljað miða efnahagsráðstafanir sínar við ákveðna gerða kjarasamninga, en ekki það ástand, eins og er nú hjá okkur, að flestir slíkir samningar séu lausir. Þetta er eitt af mörgu sem sýnir hringlandaháttinn í störfum núv. stjórnarflokka.

Þegar rætt er um þetta frv. verður ekki hjá því komist að fara enn nokkrum orðum um ráðstafanir fyrrv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Á ég þar við lög um efnahagsráðstafanirnar frá í febr. 1978 og breyt. á þeim lögum með brbl. í maí sama ár. Athuganir hafa verið gerðar á því, hvernig þróun verðlags og kaupgjalds hefði orðið samkv. þeim lögum, og kemur þá í ljós að miðað við að kaupmáttur launa 1. jan. 1978 hefði verið 100 hefði kaupmáttur launa samkv. fyrrgreindum lögum frá í febr. og maí í reynd orðið 98. Í öðru lagi hafa þessi mál þróast þannig hjá núv. ríkisstj. eftir allar tilfæringar hennar, kukl með vísitölu, niðurgreiðslur, félagslegar umbætur og annað slíkt, að ársmeðaltal kaupmáttar launa árið 1978 varð 99 eftir sama mælikvarða. Þá hafa fyrrgreindar athuganir, sem ég hef verið að skýra frá, leitt í ljós að verðbólgan frá upphafi ársins 1978 til loka þess, miðað við að febrúar- og maílögin hefðu verið í gildi, hefði lækkað stórkostlega og það jafnvel svo að hún hefði komist niður í 25–30%. Þetta eru staðreyndirnar sem blasa við í þessum málum. En hver hefur þá kostnaðurinn orðið af stríðinu, sem svokallaðir vinir og forsvarsmenn launþegasamtakanna í landinu, sem nú mynda aðalkjarnann í stuðningsliði núv. stjórnarflokka, stofnuðu til vegna efnahagsaðgerða fyrrv. ríkisstj.? Hvað kostaði þessi stríðsrekstur allan almenning í landinu? Því er fljótsvarað.

Í fyrsta lagi óstjórnlegar skattahækkanir, sem hafa m. a. komið fram í afturverkandi skattaálögum sem nú hefur verið gripið til í fyrsta skipti, stórkostlegri hækkun vörugjalds, stórkostlegri hækkun fasteignagjalda, hækkun skattþrepa í tekjuskatti, lækkun skattvísitölu milli ára og síðast en ekki síst hafa verið lögð gífurleg gjöld á ríkissjóð vegna niðurgreiðslna — gjöld sem nema milljarðatugum og hljóta að eiga eftir að valda stórkostlegum hækkunum á skattbyrðum almennings.

Rétt þykir í þessu sambandi að vekja athygli á því, að efnahagsráðstafanir fyrrv. ríkisstj. gerðu ekki ráð fyrir einnar krónu skerðingu á þegar umsömdum kjarabótum launþega og með brbl. í maí 1978 voru þeir, sem lægst höfðu launin, tryggðir fyrir allri kjaraskerðingu. Nú berast launþegasamtökunum hins vegar nærri daglega bréf eða óskir frá stjórnvöldum um að fallið sé frá umsömdum grunnkaupshækkunum. Ef þær ráðstafanir fyrrv. ríkisstj. í efnahagsmálum, sem ég hef gert hér að umtalsefni, hefðu fengið að vera í friði er enginn vafi á því, að í des. s. l., þegar almennir kjarasamningar launþega innan ASÍ runnu út, hefði verið orðin slík hjöðnun á verðbólgunni, allt kannske ofan í 25% eða neðar, að mjög góður grundvöllur hefði verið fyrir skynsamlegum, almennum, faglegum kjarasamningum, sem að sjálfsögðu hefði mátt búast við að tækju mið af þeim hagfellda árangri sem náðst hefði fyrir þjóðarheildina í baráttunni við verðbólguna, og svo að sjálfsögðu, og á þann þátt málsins verður aldrei lögð of rík áhersla, að fullt jafnvægi hefði verið fyrir hendi í sambandi við ríkisfjármálin og stöðu ríkissjóðs. Er hollt fyrir menn að bera slíkt saman við þær aðstæður sem nú ríkja um þessi mál.

Sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir allar staðhæfingar andstæðinga fyrrv. ríkisstj. blasir nú sú staðreynd við að febrúaraðgerðirnar með breytingunum í maí voru raunhæfar aðgerðir gegn verðbólgu og gegn atvinnuleysi og stórkostlegt átak til almenns launajafnaðar meðal launþega. Staðreyndin er einnig sú, að það var fyrir einstaka skammsýni, óbilgirni og freklega pólitíska misnotkun á launþegasamtökunum að tókst að koma í veg fyrir að þessar lífsnauðsynlegu aðgerðir fyrrv. ríkisstj. næðu árangri.

Nú eiga menn ekki orð yfir það, hve nauðsynlegt sé fyrir launþegana í landinu að athuga að aðalatriðið sé ekki krónufjöldinn í umslaginu, heldur kaupmátturinn. Nú er höfuðáhersla lögð á að allir verði að fórna einhverju, menn verði að leggja að sér og bíða eftir kjarabótum. Hve lengi? Slíkt ákveða núv. stjórnvöld væntanlega með tilskipunum og snoturlega orðuðum yfirlýsingum stjórnvalda um félagslegar umbætur sem nú eru mjög í tísku. Það endurtekur sig alltaf sama sagan, hér eins og annars staðar þar sem kommúnistar og vinstri öfl ráða ferðinni: Fyrst eru með öllum hugsanlegum, löglegum og ekki hvað síst ólöglegum ráðum notuð öll meðul til þess að brjóta niður allar skynsamlegar aðgerðir í efnahagsmálum sem framkvæmdar kunna að vera af andstæðingum þessara aðila í stjórnmálum. Svo þegar vinstri öflin hafa náð völdunum eiga launþegar aðeins að hafa í huga að það séu vinsamleg öfl, sem haldi um stjórnvölinn, og þau þurfi að fá frið og tíma til þess að laga hlutina. Á meðan eiga menn ekki að fara í verkföll eða gera kröfur og helst er ætlast til þess að menn afsali sér kjarabótum sem um hefur verið samið.

Þetta er hin raunhæfa stefna vinstri aflanna í þjóðfélaginu. Þegar sauðargærunni hefur verið svipt af þeim koma sannindin í ljós. Þetta hefur gerst í öllum vinstri stjórnum á Íslandi. Og því til sönnunar liggja fyrir t. a. m. þær upplýsingar forseta ASÍ, að síðasta vinstri stjórn, sem sat á árunum 1971–1974, reyndi 12 sinnum — ég segi og skrifa: 12 sinnum að grípa inn í gerða kjarasamninga til breytinga á þeim. Þetta eru orð núv. forseta ASÍ um þá stjórn. Og öllum er kunnugt um hve frjálslega núv. stjórnvöld hafa haldið á þessum málum í sambandi við vísitöluskerðingar og með öllu sínu sullumalli í kjaramálum.

Eins og fram kemur í nál. okkar, sem skipum minni hl. hv. fjh.- og viðskn., höfum við sjálfstæðismenn tekið þá afstöðu að flytja ekki brtt. við þetta frv. Sjálfstfl. hefur fyrir nokkru birt öllum landslýð stefnuskrá sína í efnahagsmálum — stefnuskrá sem byggð er á endurreisn í anda frjálshyggju. Í þeirri stefnuskrá er megináhersla lögð á að Sjálfstfl. vill auka frelsi einstaklingsins til þess að ráðstafa eigin aflafé og hvetja hann til dáða. Sjálfstfl. vill hvetja til aukinnar verðmætasköpunar með því að draga sem mest úr boðum og bönnum og hinni umfangsmiklu miðstýringu hins opinbera sem hér hefur ráðið allt of miklu á undanförnum áratugum.

Í sambandi við skattamál langar mig, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp úr ályktun stefnuskrár Sjálfstfl.: „Það er stefna flokksins, að felld verði niður sú aukna og nýja skattheimta sem núv. stjórnarflokkar hafa lögfest. Tekjuskattur einstaklinga verði lækkaður þegar í stað með hækkun skattvísitölu, þannig að almennar launatekjur verði tekjuskattsfrjálsar. Opinber gjöld af viðbótartekjum fari ekki yfir 50%, skattar á eignir verði lækkaðir, vörugjald, nýbyggingagjald og sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði verði afnumin og handahófskennd skerðing afskrifta felld niður. Til að vega upp á móti tekjutapi ríkissjóðs vegna lækkunar skatta verði dregið úr niðurgreiðslum, rekstrarkostnaði og framkvæmdum ríkisins.“

Í sambandi við kjaramál er stefna Sjálfstfl. einnig mjög skýr. Sjálfstfl. vill að kjarasamningar verði gerðir á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins á faglegum grundvelli. Slíkir samningar eigi sér sem mest stað samtímis, taki mið af þjóðhagsvísitölu og samrýmist þeim markmiðum að verðbólgan minnki og afkoma atvinnuveganna og þar með atvinnuöryggi sé tryggt. Sjálfstfl. vill að leitað verði samkomulags við aðila vinnumarkaðarins um nýtt verðbótakerfi og kjaravísitölu.

Stefna Sjálfstfl. byggist fyrst og fremst á frelsi einstaklingsins til þess að ráða sjálfur málefnum sínum eftir því sem hann hefur þroska og getu til. Við sjálfstæðismenn viljum sem mest draga úr valdi miðstýringar og opinberra afskipta. Markmið þess frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, gengur svo gersamlega gegn höfuðmarkmiðum Sjálfstfl. að um afgreiðslu þess getur ekki orðið um neina samvinnu að ræða við okkur. Öll stefna, ef um stefnu er að ræða í þessum sundurlausa lagabálki, er mótuð af því að hindra eðlilegt frjálst framtak einstaklinga og fyrirtækja. Frv. byggir allt á stóraukinni miðstýringu valds, reglugerðum og tilskipunarvaldi hinna og þessara rn. Ákvæði frv., sem helst er bitastætt á, eins og t. d. um verðtryggingu fjárskuldbindinga, hefðu betur verið framkvæmd með sérstakri lagasetningu þar að lútandi. Viðvíkjandi verðbótum á laun hefðum við talið miklu betra að náðst hefði samkomutag við aðila vinnumarkaðarins um nýtt verðbótakerfi og kjaravísitölu, því að á annan hátt verða þessi mál ekki leyst farsællega fyrir viðkomandi aðila og þjóðfélagið í heild.