02.04.1979
Neðri deild: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3761 í B-deild Alþingistíðinda. (2939)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef greitt hér atkv. með því að slíkur sjóður sem þessi verði settur á stofn, og mér finnst það eðlilegt og vænti þess að hann geti orðið til góðs. Ég tel að það sé eðlileg meginregla að fjármagn til slíkra sjóða sé veitt á fjárl., og ég harma það að ekki skuli hafa komið upp við fjárlagaafgreiðslu till. um að veita aukið fjármagn í þeim tilgangi sem sjóðnum er ætlað að gegna. Ég tel, með tilliti til þess að nú fer í hönd endurskoðun á hinum mörkuðu tekjustofnum af margvíslegu tagi, að eðlilegt sé að sú fjármögnun, sem þarna er talað um, falli inn í þá almennu endurskoðun og verði rædd í því heildarsamhengi. Ég er þess vegna ekki tilbúinn til að greiða atkv. með þessari fjáröflun nú og sit hjá við þessa atkvgr.