03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3781 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

178. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Í lok ræðu sinnar sagði hæstv. menntmrh. að til stæði að skipa sérstakan hóp, að mér skildist helst innan menntmrn., til þess að undirbúa fjárveitingar til menningarmála. Ég vil leyfa mér að gefa hæstv. menntmrh. eitt ráð, og ég sé ekki að það komi neitt því máli við hvort maður telur þessa hæstv. ríkisstj. líklega til góðra verka eða ekki, ég held að henni veiti ekkert af góðum ráðum. Það ráð er þetta:

Í Alþ. starfa tvær menntmn. Það er skoðun mín að þær n. ættu að vera virkari við undirbúning fjárl. en þær eru. Ég held að það væri hægt að virkja menntmn. í þessu tilliti án þess að setja á laggirnar nýja n. sem mundi vafalaust kosta ærið fé. Það mundi líka tengja betur menntmrn. og Alþ., kynna þm. betur það sem fram fer innan veggja menntmrn., svo að ég nefni einungis nokkra kosti sem ég tel að þessari hugmynd fylgi.

Í stuttu máli: Það, sem fyrir mér vakir, er að það sé rétt á þessu sviði sem öðrum að gera sjálft Alþ., fjárveitingavaldið í landinu, virkara við undirbúning fjárl. en nú er.