03.04.1979
Sameinað þing: 78. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3791 í B-deild Alþingistíðinda. (2991)

176. mál, atvinnu- og efnahagsleg áhrif takmarkana á fiskveiðum Íslendinga

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það væri í sjálfu sér fyllsta ástæða til þess að ræða nokkuð þá till. til þál., sem hér er á dagskrá, og ég get ekki stillt mig um það í þessu sambandi. Sú till. er að mörgu leyti mjög eðlileg, enda hljóta allar aðgerðir í þessum efnum að taka mið af þjóðarhag í bráð og lengd.

Það var einmitt svo við mörkun fiskveiðistefnunnar fyrir árið 1979, að leitast var við að meta þau atriði sem talin eru upp í þeirri þáltill. sem hér er til umfjöllunar. Leitast var við að meta þau eftir því sem tök voru á. Ég þarf ekki að rifja það upp neitt sérstaklega hér, nema hvað það voru sett fram þrjú dæmi: um 250 þús. tonna afla, 280 þús tonna afla og 290 þús. tonna afla. Niðurstaðan varð í grófum dráttum sú, að það ætti að vera mögulegt, án þess að raska heildarstærðum í þjóðarbúinu, að halda sig við 280–290 þús. tonna afla, en það mundi hins vegar hrikta mjög í ef dregið væri úr aflanum niður í þau 250 þús. tonn eða þar um bil sem fiskifræðingar höfðu bent á. Einmitt með hliðsjón af þessu var stefnan mörkuð fyrir árið 1979.

Ég tel hins vegar að aðalatriðið sé að meta áhrifin til lengri tíma, og ég trúi því, að það vaki fyrir flm. till. þessarar og það verkefni hljóti að vinnast í framhaldi af þeirri stefnumörkun sem þegar hefur átt sér stað fyrir árið 1979. Það mat verður að snúa að langtímaávinningi annars vegar og hins vegar að atvinnuöryggi og atvinnuþróun, þó þannig að arðbærni sé höfð í huga bæði í veiðum og vinnslu. Í því sambandi verða menn náttúrlega að hafa í huga, að takmörkun á fyrri árum á að þýða meira seinna, auk þess sem takmörkun miðast jafnvel við það að komast hjá því að taka þá áhættu að þessir máttarstólpar undir þjóðlífinu bresti, að hrygningarstofnunum sé stefnt í hættu. En þó að slík stefnumörkun til frambúðar liggi fyrir verða einstök skref líka að vera ákveðin og hin atvinnulegu áhrif á hverjum tíma tekin til athugunar. Það tel ég að hafi verið gert við mótun stefnunnar fyrir 1979, eins og ég hef þegar gert grein fyrir á Alþingi.

Í þeirri umr., sem fór fram á Alþ. varðandi þessi mál fyrir skömmu, var einmitt fjallað um mörg þau atriði sem hv. 5. þm. Austurl. gerði að umtalsefni áðan. Ég þarf ekki að tíunda það öllu nánar. Þar komu til umr. þeir annmarkar sem væru á því á þessu stigi að takmarka netaveiðar loðnuveiðiskipa frekar en þegar hefur verið gert og ýmsum virðist nú torvelt undir að lifa. Það er sem sagt spurning um að ákvarðanir af þessu tagi séu teknar með nægilegum fyrirvara, þannig að menn séu undir slíkt búnir. Varðandi netaveiðarnar almennt fór líka fram mjög ítarleg umr. Ég man ekki nákvæmlega hvort það kom fram í þeirri umr., að netatrossur væru ólöglega margar hjá ýmsum bátum, en hafi það ekki verið sagt hefur það a. m. k. legið í loftinu. Ég sagði þá í sambandi við þorskanetaveiðarnar, að það yrði gripið til strangari aðgerða af hálfu rn. að því er eftirlitið varðar. Þær aðgerðir hafa einmitt verið að gerast þessa dagana. Ég vænti þess, að þm. sé ljóst að það þarf nokkurrar athugunar við að taka ákvarðanir um þessi efni og það þarf að fylgja fram ákvörðunum eftir því sem mögulegt er hverju sinni. En það hafa þegar verið kallaðir fyrir ákveðnir skipstjórar og gefnar frekari aðvaranir, og það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess að herða eftirlitið með netaveiðum á næstu vikum.

Ég hef líka látið það koma fram, að ég tel fyllilega koma til greina, en það færi eftir því hverju fram vindur, að stöðva netaveiðar þorsks á einhverjum tilteknum tíma í vor og þá með tilliti til þess, hvernig tekst að stefna að því marki sem hér um ræðir. Þetta hefur þegar verið ákveðið og er verið að framkvæma varðandi netaveiðarnar. Verður reynt að fylgja því eftir af fremsta megni.

Sjútvrn. hefur að sjálfsögðu bæði fylgst með aflabrögðum og eins því, að það hefur verið mikil vinnsla í gangi á ýmsum landshornum. Haldið verður áfram að fylgjast með aflabrögðum, en í sambandi við aflabrögðin er rétt að benda á að samkv. áliti fiskifræðinga er vertíðartoppurinn í rauninni fyrr á ferðinni nú en áður, þannig að það kynni að draga mjög fljótlega úr þessum afla. Það er sjálfsagt að meta þá veiði, sem nú hefur verið, í ljósi þess. Það er vissulega rétt, að verið hefur landburður af fiski á Snæfellsnesi og þar hefur gætt saltskorts. Það er einmitt fylgst mjög náið með því af hálfu rn. núna, hvaða afleiðingar þetta kunni að hafa og til hvaða ráða sé mögulegt að grípa. Við munum halda því áfram og grípa inn í þetta mál eftir því sem möguleikar eru á. Hins vegar virðist ljóst af þeim lagaheimildum, sem fyrir hendi eru, að sjútvrn. getur ekki stöðvað veiðar vegna þess að þar sé landburður af fiski. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég tók fram í umr. á þingi fyrir skömmu að hlyti að koma til íhugunar, hvernig mætti draga úr aflatoppum þegar stefndi að því að menn gætu ekki nýtt hráefnið eins vel og best yrði á kosið. En til þess að það sé mögulegt þarf að bestu manna yfirsýn auknar lagaheimildir.

Ég get sem sagt fullvissað hv. 5. þm. Austurl. um það, að fylgst er mjög náið með þessu af hálfu sjútvrn. og við erum reiðubúnir til þess að grípa til aðgerða. Það er auðvitað sérstakt áhyggjuefni, að það hráefni, sem á land berst, hefur ekki í öllum tilvikum verið nægilega gott og ekki tekist nægilega vel að vinna úr því verðmætar afurðir. Ég vænti þess, að þetta svari með bærilegum hætti þeirri fsp. sem hv. þm. bar fram. Ég endurtek þau meginmarkmið, sem ég hef látið í ljós áður varðandi þetta efni, og það, að rn. mun fylgjast mjög vel með þessu og auka eftirlitið með netaveiðunum, og það er einmitt að gerast þessa dagana.