02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

32. mál, lífríki Breiðafjarðar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það hefur komið hér fram, að það mál, sem er til umr., snertir tvö kjördæmi. Mér þótti því rétt að láta heyrast hér í þm. Vestfjarða áður en frestað verður þessum umr. Það er ekki vegna þess, að ég þurfi að gera aths. við þessa till. eða grg. þá, sem fylgir till., eða ræðu þá, sem hv. flm. flutti fyrir þessari till. Ég er fullkomlega samþykkur till. og þeim sjónarmiðum sem fram komu í ræðu og í grg. hv. flm. Ég hygg að það sé hafið yfir allan vafa, að hér sé um mikið og merkilegt mál að ræða sem verðskuldi að fá greiðan framgang hér á hv. Alþingi.

Hv. frsm. minntist á fundinn í Búðardal, sem fjallaði um þessi mál, og sagði, að enginn af þm. Vestfjarða og Vesturlands hefði verið þar nema hann sjálfur og það hefði sjálfsagt verið fyrir tilviljun. Ég vil láta þess getið, að ég hafði samband við þá, sem stóðu fyrir þessum fundi, og skýrði þeim frá því, að ég gæti af sérstökum ástæðum ekki mætt á fundinum, og það var hvað mig varðaði engin tilviljun, því að sannarlega hef ég mikinn áhuga á þessu máli.

Eitt atriði, sem hv. 5. þm. Vesturl. kom sérstaklega inn á, er þörungavinnslan á Reykhólum. Ég vil að það komi hér fram, að þegar það fyrirtæki var í undirbúningi var sérstök áhersla lögð á það sem við kom rannsóknum á því, að þörungavinnslan raskaði ekki því lífríki sem er á Breiðafirði. Það var líka gert ráð fyrir því við stofnun fyrirtækisins, að haldið yrði áfram stöðugum rannsóknum til þess að fylgjast með hver áhrif þörungavinnslunnar væru í þessu sambandi.

Þess má líka geta, að fyrir tveim eða þrem árum flutti ég þáltill. um að efla rannsóknir á sjávargróðrinum við Ísland. Það er stórt og víðtækt mál og að sjálfsögðu miklu víðtækara en varðandi þörungavinnsluna og lífríkið á Breiðafirði.

Till. þessi var samþykkt og síðan hefur verið lögð aukin áhersla á þessar rannsóknir og þær koma auðvitað til góða líka í Breiðafirði.

Þetta mál varðar; eins og sagt hefur verið, sérstaklega tvö kjördæmi, og það varðar ekki síður það kjördæmi, sem ég er þm. fyrir, heldur það kjördæmi, sem hv. flm. er fyrir, þegar tillit er tekið til þess, að sú byggð, sem er í Breiðafjarðareyjum, er svo til eingöngu í Vestfjarðakjördæmi. En það er, eins og hv. flm. tekur fram í grg. sinni, hald manna, að búsetan sé besta verndin. Þess vegna er mjög nátengt þessu máli og að mínu áliti raunar einn þáttur þess að gera ráðstafanir til að tryggja sem best þá búsetu sem enn er í Breiðafjarðareyjum, en er ákaflega völt eins og kunnugt er. Það þarf að tryggja þessa búsetu og það þarf að gera ýmsar ráðstafanir til þess að efla hana. Ég sé í anda þá þróun þessara mála, að aftur komi í byggð margar þær eyjar Breiðafjarðar sem nú eru í eyði. Það þarf að gera ýmsar ráðstafanir til að efla byggðina við Breiðafjörð. Ég skal ekki fara hér út í að rekja það, með hverjum hætti það er best. En það er eitt mál sem hv. flm. drepur á í því sambandi, og það er að bæta samgöngurnar við þær byggðir sem nú eru, og ég tek heils hugar undir það sjónarmið. Það er eitt af því mikilvægasta, en það er fjölmargt annað mikilvægt.

Ég vil svo að lokum leggja áherslu á það, hve eindregið ég styð það mál sem hér er til umr.