24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4127 í B-deild Alþingistíðinda. (3225)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, þar sem þingsköp mæla svo fyrir að ekki megi tala nema í tvær mínútur.

Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til að andmæla því sjónarmiði sem mér fannst koma fram og kom enda skýrt fram í máli hv. 4. landsk. þm. Gunnlaugs Stefánssonar, þegar hann kvartaði yfir því, að bandarískir þjónustuaðilar á Keflavíkurflugvelli greiddu ekki gjöld til íslenska ríkisins eða íslenskra sveitarfélaga, og nefndi í því sambandi t. d. verslun sem mun gegna nafninu Navy Exchange. Ég vil alveg sérstaklega vara við þessu sjónarmiði, vegna þess að ef sveitarfélög t. d. á Suðurnesjum eiga að fara að verða háð því hvað fjárhag varðar, hvaða tekjur renna til þeirra af herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, er mjög illa komið. Það er skylda okkar að tryggja því fólki, sem býr á Suðurnesjum, atvinnu utan Keflavíkurflugvallar, og það er skylda okkar að búa svo í haginn fyrir sveitarfélög á Suðurnesjum að þau geti bærilega þrifist án nokkurra tekna frá honum á Keflavíkurflugvelli. Ég tel að það sé mjög hættulegur hugsunarháttur — stórhættulegur — að mæna upp á Keflavíkurflugvöll ef eitthvað vantar í kassann hjá bæjarstjórninni í Keflavík.

Hæstv. utanrrh. gat þess, að þessi ákveðna verslun, svo að ég taki hana sem dæmi, mundi vera — eða öllu frekar það fólk sem þar starfar — undir heraga og þannig sé þetta í bandarískum herstöðvum hvar sem er í heiminum. Ég býst við að þetta séu út af fyrir sig réttar upplýsingar. En ættum við nú enn einu sinni, Íslendingar, eftir allt sem á undan er gengið, að fara að óska eftir því sérstaklega að störf þeirra, sem rétta hermönnunum tyggigúmmí og karamellur yfir búðarborðið í þessari verslun, séu gjaldskyld til íslenska ríkisins og við getum alls ekki án slíkra gjalda verið? Ég held ekki. Við eigum að leiða það hjá okkur. Og ég vil aðeins bæta því við, að auðvitað er það eina rétta í þessum efnum að dómi okkar Alþb.-manna að herinn hverfi úr landinu. En ég vil segja að meðan bandaríska herliðið dvelur hér, meðan ekki er meiri hl. fyrir því að senda það brott, ber að leggja höfuðáherslu á að halda þessari stöð sem einangraðri herstöð. Sú stefna að kalla hér inn fjölskyldur með dagheimili og skóla, þjónustustarfsemi af hvaða tagi sem er, er alröng stefna að mínu viti — gersamlega röng. Og ef það er eitthvert lögregluvandamál að hafa hér einhleypa hermenn eða hermenn án fjölskyldna verður það ósköp einfaldlega að vera lögregluvandamál og lögreglan að fást við það, en ekki að leysa úr því með því að flytja inn í stórum stíl konur og börn á vegum þessara manna. Til þess er engin ástæða. Hermenn hafa oft orðið að lifa herbúðalífi, og þeir geta eins gert það hér og annars staðar meðan þeir dveljast hér.