24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4133 í B-deild Alþingistíðinda. (3233)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég kom í ræðustólinn áðan til að koma nokkrum orðum á framfæri. Þau ummæli mín urðu til þess, að hv, þm. Sighvatur Björgvinsson þurfti einnig að gera aths. með sínum sérkennilega málefnalega hætti, sem hann er þekktari fyrir en nokkur annar alþm. Ég man ekki til þess að þessi hv. þm., Sighvatur Björgvinsson, hafi komið upp í ræðustólinn án þess að gera tilraunir til að snúa út úr orðum manna. Það er merkilegt að menn, sem eru búnir að vera jafnlengi á Alþ. og ég hélt að stunduðu stjórnmálastarf af einhverri alvöru, skuli fjalla um mál með þeim hætti sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerir iðulega í þessum ræðustól. Ég tek ekki þátt í leik af því tagi og neita honum algerlega um þá skemmtan sem hann kynni að hafa af slíku.

Ég kvaddi mér hljóðs hér aftur til þess að andmæla því sem fram kom í ræðu hjá hv, þm. Karli Steinari Guðnasyni, hv. 5. þm. Reykn., þar sem hann staðhæfði að Alþb. hefði verið á móti því að keyptur yrði togari til Suðurnesja. Ég veit ekki hvaða dæmi hann á við, en það er hugsanlegt að hann eigi við að innan ríkisstj. og milli stjórnarflokkanna hefur verið fjallað um hvort tiltekinn innlendan togara ætti að selja innanlands og heimild að veita til þess. Það eru, eins og kunnugt er, fjölmargir staðir í landinu sem þannig er ástatt um að þeir þurfa mjög verulega á framleiðslutæki eins og togara að halda, og það eru til ýmsir staðir sem atvinnulega séð eru jafnvel verr á sig komnir en Suðurnes. Það er því álitamál í hverju tilviki, þegar úr litlu er að spila, hvert viðkomandi togskip á að fara. Þess vegna eru það dylgjur einar og útúrsnúningur þegar því er haldið fram, að við höfum verið andvígir því að þetta tiltekna skip, sem ég geri ráð fyrir að þm. eigi við, færi til Suðurnesja. Við vildum einfaldlega að málið yrði kannað áður til hlítar, hvert væri skynsamlegast og heppilegast að þetta skip færi og hverjir væru hugsanlega best til þess færir að koma því á sjó og gera það út. Niðurstaðan varð svo sú, eins og kunnugt er, að það verður væntanlega fyrirtæki nokkurt á Suðurnesjum sem þennan tiltekna togara fær. Því höfum við Alþb.-menn í ríkisstj. og annars staðar enga andstöðu sýnt. Hins vegar mætti hv. 5. þm. Reykn. kannske kenna einhverjum flokksbræðrum sínum dálitlar lexíur um skipakaupamál og atvinnumál í ýmsum plássum í þessu landi.