26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4208 í B-deild Alþingistíðinda. (3310)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það tekur því varla að koma í ræðustól fyrir tvær mínútur, en ég ætla að gera tilraun til að koma á framfæri því sem ég vildi sagt hafa.

Í fyrsta lagi vil ég fagna þeirri yfirlýsingu menntmrh., að hann telji að Ríkisútvarpið eigi rétt á þeim 836 millj. kr. í tolltekjum sem útvarpið fékk ekki greiddar af tolltekjum s. l. árs. Ég vænti þess, að fjmrh. sé sama sinnis og einnig hagsýslustjóri.

Staðreyndin er sú, að fjárhagsmál Ríkisútvarpsins eru nú komin í þá þröng að fyrirsjáanlegt er að þar verður að skera niður mjög verulegan hluta af dagskrárgerð bæði útvarps og sjónvarps. Framlag til dagskrárgerðar í hljóðvarpi á þessu ári er að krónutölu minna en í fyrra, og geta menn þá reiknað út, miðað við verðbólgu, hver niðurskurðurinn er. Í krónutölu er framlag til dagskrárgerðar í sjónvarpi nokkru meira en í fyrra, en er í raunkrónum mun minna. Það er því fyrirsjáanlegt að útvarpsráð verður mjög fljótlega að taka ákvörðun um að skera niður þá þætti sem þó hafa verið vinsælastir og fólki hefur geðjast best að í þessum tveimur fjölmiðlum.

Ég vil aðeins í sambandi við umr. um Ríkisútvarpið minna á þá skoðun, sem ég hef látið í ljós í þessum ræðustól, að Ríkisútvarpið sé eins konar Öskubuska í augum ríkisvaldsins og hafi verið um áratugaskeið. Ég vil þó að skýrt komi fram, að fyrrv. menntmrh. leit þessa stofnun þeim augum sem ég tel að menntmrh. eigi að gera. Ég vænti þess, að núv. menntmrh. geri það einnig og reyni það sem í hans valdi stendur til þess að bæta fjárhag útvarpsins, en allt bendir til að hann verði slæmur á þessu ári. Ég vil einnig ítreka þá skoðun mína, að þrátt fyrir þann sparnað, sem ríkið verður að hafa í frammi á þessu ári og næstu árum, verði ekki hvikað frá því að halda áfram smíði útvarpshúss, sem er alger grundvöllur undir því að Ríkisútvarpið geti náð að þróast eðlilega.