30.04.1979
Efri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4279 í B-deild Alþingistíðinda. (3386)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það er kannske erfitt að stilla sig um að fara út í umr. um þessi mál almennt þegar svo upplagt tækifæri gefst til þess sem er í raun með þessu frv. Ég tek það fram varðandi þetta frv. að ég hef ævinlega lýst þeirri skoðun minni, að af tvennu illu væri skárra að ríkið hefði sölu þessa á höndum en einstaklingar, þó að ég hafi sérstöðu í þessu máli að öðru leyti og sé á þeirri skoðun að því harðar sem við gengjum til verks í þessu máli, því betra. En þar er komið að svo viðkvæmu deiluefni að ekki er rétt að fara út í það hér út af þessu einstaka máli.

Það er hins vegar mjög einkennandi fyrir þetta mál, og kannske að sumu leyti að kenna því hvernig málið hefur verið sett fram, hvernig fjármálaþátturinn og fjármálahliðin hefur verið útblásin. Að vísu er það rétt að í grg. er vikið að hugsanlegu tekjutapi ríkissjóðs í sambandi við þetta. Ég tel þann rökstuðning því miður ekki eiga að vera inni í þessu frv., þó vissulega sé hann staðreynd, því að einmitt þessi rökstuðningur og það, sem þar kemur fram, er sá rökstuðningur sem fjölmiðlarnir hafa gripið til og telja eina tilgang þessa frv. Ég hefði heldur viljað að þessi hlið mála, þó hún sé vissulega rétt, hefði hreinlega hvergi sést í rökstuðningi þessa frv., og marka það af því, hvernig á þessu máli hefur verið tekið af fjölmiðlunum, þar sem í raun og veru er vikið að því á vægast sagt smekklausan máta að eina ástæða þess sé græðgi hæstv. fjmrh. í tekjustofna af áfengisneyslu, tekjustofna sem ríkissjóður annars missi af, en síður en svo það sem kemur fram í fyrri hluta þessara aths. varðandi þá grunnástæðu sem ég tel í raun og veru vera fyrir þessu frv.

Það verður ekki um of vakin athygli á hvernig fjölmiðlar hafa fjallað um frv. Þeim hefur því miður verið gefið visst tækifæri til að nudda sér upp úr þessu máli á ofangreindan hátt vegna röksemda um tekjutap ríkissjóðs og þess sem um það hefur verið sagt. Og af því að það vill svo vel til að við hv. alþm. a. m. k., og reyndar ættu fleiri að vita það, vitum hug hæstv. fjmrh. varðandi áfengismál almennt er þetta þeim mun ömurlegri uppblástur sömu fjölmiðla. En ég viðurkenni sem sagt að þeir hafa vissa ástæðu til slíkrar túlkunar og hafa eingöngu beint máli sínu að því, að þarna væri um að ræða aðferð til að auka tekjur ríkissjóðs eða koma í veg fyrir minnkandi tekjur ríkissjóðs af þjóðarböli okkar.

Afstaða mín varðandi þetta mál að öðru leyti kom fram þegar í upphafi þegar mér var ljóst að þessi efni voru að koma á markaðinn. Ég bar fram fsp. til hæstv. viðskrh., sem reyndar var þá einnig dómsmrh., þegar ég varð þessa var, um möguleika á því að stöðva þennan innflutning og koma í veg fyrir að hann ætti sér stað. Í svari hæstv. ráðh. við fsp. minni, sem ég fann ekki þegar ég var að fara á þennan fund, man ég að fram kom að hann taldi nokkur tormerki á meiri háttar lagabreytingu. Ég benti á að í þessu væri fólgin mikil almenn hætta og bann við innflutningi þessara efna eða takmörkun á innflutningi þeirra með ákveðnum leyfisveitingum væri því mál sem ætti verulega vel að athuga. Afstaða mín til þessa máls fer því ekkert á milli mála eða reyndar til áfengismála almennt, og ég hygg að í því máli séum við hæstv. fjmrh. á sama báti — og veit það reyndar.

En til er í þessu landi aðili sem mér þótti skylt, þó með stuttum fyrirvara væri, að fá álit hjá á þessu máli almennt, en það er Áfengisvarnarráð. Sá aðili benti þegar í upphafi á þessa hættu og gerði það rækilega þó að daufheyrst væri við. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp frá þessu ráði, sem við kjósum og eigum að taka tillit til og fjallar um þetta mál á eins hlutlægan hátt og mögulegt er, nokkur minnisatriði um sölu öl- og víngerðarefna á Íslandi. Þau eru þessi:

„1. Um leið og innflutningur og sala öl- og víngerðarefna hófst hérlendis vakti Áfengisvarnaráð athygli stjórnvalda á því, að hér væri vægast sagt um vafasama starfsemi að ræða. Á það var m. a. bent, að efni þessi væru beinlínis ætluð til áfengisgerðar, en ekki til framleiðslu óáfengra drykkja. Útlendingar, sem sjá þessi efni í verslunum hér, láta sér t. a. m. ekki til hugar koma annað. Þá benti Áfengisvarnaráð á að þarna væru brugghús og þeir auðhringar, sem þeim tengjast, svo og íslenskir umbjóðendur þeirra að búa til röksemd fyrir því að hér skyldi heimila sölu áfengis öls. Það álit Áfengisvarnaráðs reyndist rétt, eins og misjafnlega viskulegar umræður um áfengt öl síðustu missirin hafa leitt í ljós.

2. Samkv. upplýsingum áfengisvarnanefnda víðs vegar um land hefur heimabruggun aukist jafnt og þétt síðan efni þessi komu á markað. Fyrir þann tíma var fátítt að nefndir teldu heimabruggun auk,a vandamál þau sem áfengisneysla veldur.

3. Efni þessi kalla Norðurlandamenn portvín eða hraðvín og hafa Svíar og Finnar bannað sölu þeirra. Norðmenn stefna að því sama og jafnvel Danir amast við þeim.

4. Bruggun úr þessum efnum mun það auðveld að unglingar og jafnvel börn geti með hægu móti orðið sér úti um áfengi ef þau komast yfir þennan varning.

5. Heilbrigðismálastofnun Sameinuðu þjóðanna lítur svo á að aukin áfengisneysla leiði til víðtækara tjóns. Er það álit reist á grundvelli vísindarannsókna. Hvetur heilbrigðismálastofnunin aðildarþjóðirnar til að stuðla að minnkandi neyslu, m. a. með því að fækka dreifingarstöðum áfengis og tilvikum sem gefa tilefni til áfengisneyslu. Augljóst er að sala hraðvíngerðarefna í almennum verslunum gengur þvert á stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

6. Flestir munu sammála um að unglingadrykkja sé af hinu illa. Sala ölgerðarefna stuðlar tvímælalaust að aukinni drykkju unglinga og barna.

7. Sú stefna hefur verið ríkjandi í áfengismálum hérlendis að leitast við að koma í veg fyrir einkagróða í sambandi við áfengisdreifingu. Þess vegna var Áfengisverslun ríkisins stofnuð 1922. Þessi áfengismálastefna ríkir alls staðar á Norðurlöndum nema í Danmörku. Frjáls sala efna til áfengisgerðar stuðlar að því að einkahagsmunir hafi skaðvænleg áhrif á áfengisneysluvenjur þjóðarinnar, enda er það flestum ljóst að óeðlilegt er að einstakir menn hafi fjárhagslegan ábata af því að stuðla að ógæfu annarra, en áfengisneysla, þótt í smáu sé, verður tíðum upphaf hörmunga, svo kunnugt er það að vart þarf að rökstyðja.

8. Sænsk stjórnvöld líta svo á að sala öl- og víngerðarefna sé í raun og veru hvatning til lögbrota og aðstoð við þau, þ. e. ólöglega framleiðslu áfengis. Eru sölumenn slíkra efna dæmdir samkv. því.

9. Ljóst er að með því að láta einstaklingum haldast uppi að stuðla að ólöglegri áfengisgerð leynt og ljóst svo og ólöglegri meðferð áfengis (unglingar innan lögaldurs kaupi áfengi) er andi íslenskra áfengislaga að engu hafður. Sú „röksemd“ innflytjenda öl- og víngerðarefnis, að það sé ætlað til framleiðslu óáfengra drykkja, er að engu hafandi, enda eru þessi efni framleidd til áfengisgerðar, eins og ljóst má vera af erlendum textum sem þeim fylgja.“

Ég taldi rétt við 1. umr. um þetta mál að koma áliti þeirra ágætu manna, sem Áfengisvarnaráð skipa, á framfæri án þess að fara nánar út í efni þess almennt.

Ég tek enn undir það sem ég hef heyrt víða utan að mér um frv., að ég harma að svo mikil áhersla hefur verið lögð á fjármálalega þáttinn, spurninguna um tekjutap ríkissjóðs í þessu efni, og harma að það skuli einnig vera lögð eins mikil áhersla á það í grg. og raun ber vitni. Ég trúi því tæpast að hæstv. fjmrh., af skoðunum hans í þessu efni að dæma, hafi verið ljúft að mæla með slíkum rökleysum.