09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4497 í B-deild Alþingistíðinda. (3606)

280. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á árinu 1967 var fyrst tekið í lög að stefnt skyldi að því að fyrirgreiðsla opinberra aðila í þágu námsmanna skyldi nema svonefndri umframfjárþörf þeirra þegar tekið hefði verið tillit til tekjumöguleika og annarra aðstæðna. Síðan eru liðin 12 ár. Lögin, sem þá voru sett, hafa tekið nokkrum breytingum, einkanlega með lögum nr. 57/1976, og hlutfall fyrirgreiðstu opinberra aðila af um framfjárþörf hefur, þegar á allt tímabilið er litið, vaxið verulega. Þó verður að játa að á seinni árum hefur verið um litla hreyfingu upp á við að ræða, þannig að undanfarin ár hafa lán numið u. þ. b. 85% af reiknaðri fjárþörf námsmanna, og hefur ekki orðið nein breyting þar á um nokkurra ára skeið. Eðlilegt virðist, úr því að svo tangur tími er liðinn síðan löggjafinn tók þá ákvörðun að stefna að því að fyrirgreiðslan næmi fullri umframfjárþörf, að því marki verði nú náð, og að því miðar það frv. sem hér liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að því marki verði náð í þremur áföngum: á næsta ári hækki viðmiðunarhlutfallið úr 85 í 90% og verði búið að ná 100% umfram fjárþörf á árinu 1982.

Frv. er undirbúið af stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna. Stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna er skipuð þremur fulltrúum námsmanna, tveimur fulltrúum menntmrn. og einum fulltrúa fjmrn. Stjórnin fékk með bréfi frá menntmrn. í nóvembermánuði s. l. tilmæli um að taka þetta mál til athugunar og gera till. um aðrar þær breytingar sem nauðsynlegar væru taldar á lögunum, og rn. fékk síðan till. stjórnar Lánasjóðsins í frv.-formi 30. mars s. l. Það frv., sem hér er lagt fram, er í fullu samræmi við tillögur sjóðsstjórnar. Rétt er að láta þess getið, að þótt í sjóðsstjórn séu fulltrúar nokkuð ólíkra hagsmunaaðila, þar sem eru annars vegar fulltrúar ríkisvalds og hins vegar námsmanna, voru till. í heild samþykktar með 5 shlj. atkv.

Frv. þetta felur þó í sér allveigamikla breytingu aðra en þá sem ég nú hef nefnt. Er það kannske skýringin á hversu vel tókst til um samstöðu innan sjóðsstjórnar. Í frv. er gert ráð fyrir að endurgreiðslu námslána verði breytt allverulega, bæði í átt til aukins réttlætis og jafnaðar, ef svo má segja, og í öðru lagi í þá átt að tekjur sjóðsins og endurgreiðslur til hans örvist að mun, án þess þó að hægt sé að segja að neinum sé íþyngt um efni fram. Auðvitað eru þessi tvö atriði nátengd, þar sem annars vegar er um að ræða nokkuð aukin útgjöld fyrir sjóðinn og svo hins vegar verulega auknar endurgreiðslur til sjóðsins, bæði heildarendurgreiðslur þegar á lengri tíma er litið og örari endurgreiðslur á næstu árum. Það skal skýrt tekið fram, og kemur reyndar fram í þeirri grg. sem sjóðsstjórn sendi menntmrn., að þegar um þessi mál var fjallað var litið svo á að þessi tvö atriði væru órjúfanlega tengd og sjóðsstjórnarmenn gætu ekki fellt sig við að annað hvort atriðið út af fyrir sig væri samþykkt, þótt þeir gætu hins vegar fallist á hvort tveggja sem niðurstöðu samtímis.

Í grg. er gerð skýrari grein fyrir hvaða fjárhagslegar afleiðingar samþykkt frv. hefur í för með sér. Þar er um að ræða 145 millj. kr. hækkun á hverju ári miðað við fjárlög ársins 1979, þannig að fyrsti áfanginn kostar 145 millj. og seinasti áfanginn að sjálfsögðu þrisvar sinnum þá tölu.

Í grg. er einnig gerð grein fyrir að árlegar endurgreiðslur til sjóðsins mundu með núverandi fyrirkomulagi nema um 50–60% af raungildi árlegra lána í upphafi þegar kerfið er að fullu komið til framkvæmda. Á því kerfi er gerð nokkur breyting með því skipulagi sem frv. gerir ráð fyrir, og má gera ráð fyrir að hlutfall lána, sem innheimtist að lokum, hækki um 5–15%, gæti jafnvel farið upp í 70–75%. Í núverandi kerfi vaxa endurgreiðslur mjög hægt fyrst í stað og mun hægar en efni standa til vegna þess að hátekjumenn og þeir, sem eiga stutt nám að baki, verða lengur að greiða lán sín en þyrfti að vera. Í þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir að fyrstu 10 árin eftir að nýja kerfið kemst á vaxi heildarendurgreiðslur til lánasjóðsins miklu örar. Eru það fyrst og fremst hátekjumenn sem taka á sig þá byrði.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um efni frv. Eins og kemur fram í grg. eru gerðar brtt. um nokkur fleiri atriði, en það eru allt minni háttar atriði. Ég tel afar mikilvægt að unnt sé að afgreiða frv. þetta fyrir þinglok í vor, vegna þess að í hönd fer sá tími að undirbúin verða fjárlög og eðlilegt er að úr því verði skorið sem fyrst, hvort löggjafinn getur fallist á þessa breytingu eða ekki. Ég mælist því eindregið til þess við hv. menntmn. Ed., að hún taki þetta mál föstum tökum. Það er tiltölulega mjög einfalt og krefst þess ekki að lengi sé legið yfir því. Spurningin er sem sagt einfaldlega hvort menn telji ekki tímabært að ná því marki, sem við settum okkur fyrir 12 árum, að fullu nú, jafnframt því sem endurgreiðslur til sjóðsins séu hertar verulega þannig að sjóðurinn komi nokkuð sléttur út úr skiptunum. Ríkisvaldið verður að vísu fyrst í stað, næstu tvö árin eða svo, að leggja heldur meira fé af mörkum til þessara þarfa, en mun hins vegar fá talsvert meiri tekjur í sinn hlut þegar lengra líður frá.

Ég vil, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. menntmn. og 2. umr.