09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4502 í B-deild Alþingistíðinda. (3609)

280. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Upplýsingar þær, sem ég gaf áðan um kostnaðarhlið þessa máls, eru fengnar úr útreikningum sjóðsstjórnar sem undirbjó frv., og hef ég ekki haft ástæðu til að vefengja þær. Ég geri ráð fyrir að þeir útreikningar séu framkvæmdir að bestu manna yfirsýn og samkvæmt þeim gögnum sem fyrir lágu hjá framkvæmdastjóra sjóðsins. Ég tek hins vegar undir með þeim þm. sem hér hafa talað, að eðlilegt er að yfirfara þessar áætlanir og reikninga og tryggja að menn viti hvað þeir eru að samþykkja. Ég lét það því verða mitt fyrsta verk; þegar frv. var sent mér að senda það til umsagnar Þjóðhagsstofnunar. Það var gert fyrir páska með beiðni um að reiknaðar yrðu út fjárhagslegar afleiðingar af samþykkt þessa frv. fyrir afkomu sjóðsins. Ég dró nokkuð að leggja frv. fram og beið þess að fá gögnin í hendur, en þegar það dróst ákvað ég að leggja frv. fram í þeirri vissu og von að hv. menntmn. fengi útreikninga þessa í hendur er hún kæmi saman til að fjalla um frv. g geri ráð fyrir að hv. menntmn. kalli eftir þessum útreikningum. Þeir hljóta að liggja fyrir núna.