09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4512 í B-deild Alþingistíðinda. (3621)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það hlýtur að vera okkur, sem höfum starfað að þessum málum nokkuð í Landssamtökunum Þroskahjálp, mikið fagnaðarefni og þakkarefni um leið, hvað félmn. þessarar hv. d. hefur tekið fljótt við sér og unnið verulegt verk á mjög stuttum tíma. Það sýnir okkur auðvitað hvað hægt er að gera ef áhugi er fyrir hendi og menn vilja í raun og veru koma málum fram. Það sannast sannarlega á þessari afgreiðslu.

N. var nokkur vandi á höndum, þar sem var viss samræming á tveimur frv. sem þar lágu fyrir og snertu þessi mál hvort tveggja. Ég tel að n. hafi komist að mjög farsælli samræmingu á frv. tveim, fellt Framkvæmdasjóð öryrkja inn í frv. til l. um aðstoð við þroskahefta á þann hátt sem ég tel æskilegastan eins og nú standa sakir.

Ég tek undir það með hv. 4. þm. Reykn., að sannarlega væri það ánægjulegt ef jafnrétti þeirra, sem á einhvern hátt eiga við erfiðari lífskjör að búa af ástæðum sem hann var að rekja áðan, væri þegar það tryggt að við þyrftum í raun og veru engin sérlög. Hygg ég að það sé framtíðarstefna allra þeirra sem að þessum málum vinna. Það er ekki síður stefna Landssamtakanna Þroskahjálpar að við sleppum við sérlög sem allra fyrst varðandi þroskahefta, þannig að jafnréttið komist á í reynd. En við gerum okkur hins vegar ljóst að við erum það langt á eftir, eigum það langt í land að við þurfum alveg sérstakt aukaátak með sérstakri löggjöf til þess að við komumst jafnfætis þeim nágrönnum okkar sem lengst eru komnir og eru þó rétt aðeins að losna við sérlöggjöf og sumir ekki einu sinni það.

Hér höfum við búið við úrelta löggjöf, — löggjöf sem að sumu leyti hefur verið okkur til vansæmdar, og auðvitað hefur sú löggjöf sett að vissu leyti mark sitt á það sem gert hefur verið, fyrir utan að við höfum ekki verið um of örlátir á fjármagn til þessara sömu verkefna sem svo mjög hafa kallað að. Þess vegna legg ég áherslu á að einmitt þetta frv., sem siglir nú hraðbyri gegnum þingið sem betur fer, er visst aukaátak. Við vonum að sem styst þurfi að vara það ástand sem það gerir ráð fyrir og við getum afnumið þessi lög sem allra fyrst vegna þess að við séum komin það langt í jafnrétti fyrir þroskaheft fólk. Ég tek sannarlega undir það.

Þær breytingar, sem hafa komið frá félmn., held ég að séu mjög til bóta. Auðvitað hefur engum dottið í hug að á meðan greiningarstöð ríkisins er ekki komin á verði starfandi stofnanir í þessum efnum ekki að fjalla um verkefni hennar. Það hljóta þær að gera áfram eins og hefur verið. Þó að e. t. v. þyki einhverjum sem þarna hefði þurft að taka út úr tiltekna stofnun, sem hefur mest sinnt þessu verkefni, er ég ákaflega sáttur við að hafa þetta þarna í fleirtölu og taka viðkomandi stofnun ekki sérstaklega út úr sem slíka, án þess að ég ætli að fara nánar út í það.

Varðandi vistheimill, sem bætt var þarna inn, kom fram í máli frsm. að þarna væri um atriði að ræða sem þeir hefðu talið nauðsynlegt að setja inn, m. a. vegna reglugerðarsetningar. Ber alveg sérstaklega að fagna þeim skilningi sem þar liggur á bak við, því að sannarlega veitir ekki af að setja ákveðna reglugerð.

Varðandi framkvæmdasjóðinn vildi ég aðeins segja, að vissulega er það mikilsverður áfangi þegar tryggt er fjármagn til þeirra verkefna sem hér er verið að vinna að. Þegar sagt er hins vegar að ríkissjóður skuli árlega leggja sjóðnum til a. m. k. 1000 millj. kr. og sú fjárhæð skuli hækka í hlutfalli við verðlagsvísitölu árið 1979 að grunni skulum við gæta vel að því, hvað kann að verða gert við undirbúning fjárlaga næsta ár varðandi hina einstöku liði sem gætu hugsanlega fallið hér undir. Við skulum sem sagt vera vel á verði um að ekki verði allt of mikill hluti af þeim verkefnum, sem nú eru t. d. á fjárlögum eða hugsanlega gætu orðið á fjárlögum næsta ár, færður undir framkvæmdasjóð. (Gripið fram í.) T. d. það og margt fleira. Ég er síður en svo að vanmeta þetta, en ég vil að okkur þm. sé almennt ljóst, að sú hætta vofir yfir okkur að í meðförum þeirrar ágætu stofnunar, sem er fjárlaga- og hagsýslustofnun, muni verða reynt að kippa út úr vissum verkefnum, sem nú þegar eru á fjárlögum, og fella þau undir framkvæmdasjóð. Þar verðum við að vera vel á verði þannig að tryggt sé að sá tilgangur, sem með þessu ákvæði er, nái fram og við séum með í höndunum á næsta ári verulega aukningu fjár til þeirra verkefna sem Framkvæmdasjóður öryrkja á samkv. þessu frv. að taka að sér. Við skulum gæta vel að því. Aðvörun þessi er ekki bara frá mér persónulega. Við, sem vinnum að þessum málum, óttumst þetta að fenginni miður góðri reynslu í sambandi við meðferð á tölum í rn.