09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4513 í B-deild Alþingistíðinda. (3622)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að láta í ljós sérstaká ánægju mína yfir þeim ágæta framgangi sem löggjöfin um þroskahefta fær sýnilega í hv. Ed.

Mér kæmi reyndar ekki á óvart þó það þyrfti í ljósi fenginnar reynslu fljótlega að endurskoða einstök ákvæði í þessu frv., t. d. varðandi framkvæmdasjóðinn, en það er önnur saga.

Þetta mál hefur á undanförnum árum verið töluvert heitt mál, eftir að menn gerðu sér grein fyrir þeim möguleikum sem fyrir hendi eru á þessum sviðum ef fjármagn og kunnátta er fyrir hendi. Ég þekkti að sjálfsögðu nokkuð vel þann þáttinn sem sneri að menntmrn. á meðan ég starfaði þar. Og ég er ákaflega þakklátur fyrir samstarfið við áhugafólkið um málefni þroskaheftra. Þar voru vissulega þrýstihópar á ferð, en það var alltaf af góðum toga og stórkostlega þakkarvert frumkvæði þeirra og dugnaður. Þannig hefur það líka verið á hinu sviðinu, sem stjfrv. sjálft fjallar um í raun og veru, þ. e. a. s. á öryrkjasviðinu, þó minna kæmi inn í það rn.

Mér finnst vera þrjú meginatriði sem þessi löggjöf felur í sér: Það er sett samræmd löggjöf um málefni þroskaheftra og félmrn. falin forsjá þeirra mála, framkvæmd þeirrar löggjafar. — Ég hef alltaf verið á því og ég hef einfaldlega sagt að þroskaheftur maður er ekki alltaf á spítala og hann er ekki heldur alltaf í skóla, en hann þarf félagslegan stuðning og tilsjón alla ævina og þess vegna er eðlilegt að framkvæmd þess heyri undir félmrn. Annað atriði, sem ég tel mjög þýðingarmikið, er aukin bein aðild samtaka, bæði stuðningssamtaka þroskaheftra og öryrkja, þ. e. a. s. Landssamtakanna Þroskahjálpar og svo Öryrkjabandalagsins, að stjórnun þessara mála. Og svo síðast en ekki síst, að hvað sem líður því atriði, sem hv. 3. þm. Austurl. minntist á um hvernig þetta tengist fjárlagaafgreiðslu, er tvímælalaust um stórkostlega aukið fjármagn að ræða til þess að byggja upp þessa starfsemi. Þessi atriði þrjú — auðvitað eru þau fleiri finnast mér ákaflega mikilsverð.

Ég skal ekki fjölyrða um málið frekar, herra forseti. Ég vil undirstrika að þetta er vissulega góður áfangi í sameiginlegu starfi áhugafélaga og stjórnvalda að þessum málum. Auðvitað er það ekkert lokatakmark sem við höfum náð hér, enda verður því aldrei náð eðli málsins samkvæmt.