07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

21. mál, aðbúnaður og hollustuhættir á vinnustöðum

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Í svari hæstv. ráðh., sem hér er til umr., er við 2. lið fsp. neðst að finna niðurskurð sem ekki er ýkjamikill, en ég vek ekki athygli á því þess vegna, heldur af öðrum ástæðum. Hér er gert ráð fyrir að framlag til Orkusjóðs vegna lánveitinga verði lækkað um 20 millj. kr. Hér er átt við að upphæð, sem nemur 550 millj. og er til jarðhitaleitar og hitaveituframkvæmda, verði lækkuð um 20 millj. Ég vil að það komi hér fram, að þannig er ástatt með greiðslustöðu Orkusjóðs að það hljómar næstum sem fjarstæða og raunar sem alger fjarstæða að vera með einhverja tilburði um niðurskurð vegna þessa sjóðs. Þannig er ástatt, að það vantar um helming af 550 millj. til þess að hægt sé að ráðstafa þessari upphæð. Staða sjóðsins er slík vegna þess að byrðar hafa aukist á Orkusjóði vegna tveggja gengislækkana og svo líka vegna þess að það hafa verið settar á Orkusjóð sérstakar byrðar án þess að fjárframlag kæmi á móti. Mér er ekki kunnugt um að upplýsinga hafi verið leitað hjá stjórn Orkusjóðs, sem ég er formaður fyrir, um þessi efni áður en þessi niðurskurður var ákveðinn. Mér þykir ákaflega ólíklegt að leitað hafi verið upplýsinga eða ráða hjá iðnrn. vegna þess að því er að sjálfsögðu kunnugt um þessi efni.

Ég vil því leyfa mér í fyrsta lagi að mótmæla þessum aðgerðum sem algerðri fjarstæðu. En ég vil nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. fjmrh. að því, hver sé ástæðan fyrir þessum niðurskurði. Ég vænti þess að hann gefi svar við þessu. Ef hann gefur ekki svar við því, þá þykir mér líklegt að það sé slíkt handahóf á þessum aðgerðum að ekki sé athugað niður í kjölinn hvernig staðan er í hverjum einstökum málaflokki sem hér er verið að skera niður. Þá líst mér sannarlega ekki á þessa framkvæmd.