10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4623 í B-deild Alþingistíðinda. (3775)

151. mál, framhaldsskólar

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Í fjarveru hv. þm. Ellerts B. Schram mæli ég fyrir áliti minni hl. menntmn. um frv. til l. um framhaldsskóla. Nál. minni hl. er á þskj. 665.

Eins og komið hefur fram varð n. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n., fulltrúar stjórnarflokkanna, leggur til að frv, verði samþ. Fulltrúar Alþfl. skrifa þó undir með fyrirvara, enda mun hafa verið samþ. á þingflokksfundi hjá þeim Alþfl.-mönnum að frv. skyldi ekki ná fram að ganga á þessu þingi. Slíkar samþykktir hjá þingflokki Alþfl. hafa orðið að þola endurskoðun oft á þessu þingi og svo kann að vera einnig nú, en það kemur í ljós.

Minni hl. n. er ekki reiðubúinn til þess að standa að samþykkt frv. og liggja til þess margar ástæður. Í nál. okkar nefnum við þessar helstar:

Það hefur legið fyrir, að kostnaður sveitarfélaga muni aukast mjög verulega vegna þeirrar kostnaðarskiptingar sem frv. gerir ráð fyrir og felst í því að kostnaður af tveimur fyrstu skólaárum framhaldsskólans skiptist milli ríkis og sveitarfélaga eftir sömu meginreglum og kostnaður við grunnskólann.

Eftir að Samband ísl. sveitarfélaga hafði mótmælt þessum fyrirætlunum er sú breyting lögð til af hálfu meiri hl. n., að komið verði til móts við sveitarfélögin með því að viðhaldskostnaður grunnskóla leggist jafnt á ríki og sveitarfélög í stað þess að hann sé að öllu leyti greiddur af sveitarfélögunum eins og nú er. Við í minni hl. erum algerlega andvígir þessari fyrirætlan, enda gengur það þvert á þá stefnu, sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur mótað, og gengur einnig þvert á þá stefnu sem Sjálfstfl. hefur kynnt varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að því er skólamál varðar.

Við nefnum einnig að það liggi ekki fyrir raunhæfar upplýsingar um hvaða útgjaldaauka samþykkt frv. hefur í för með sér. Það fylgir að vísu kostnaðaráætlun með frv. og í nál. meiri hl. er gerð tilraun til að meta áhrif frv. á heildarkostnað framhaldsskóla, en í báðum tilfellum er rennt blint í sjóinn, eins og raunar er viðurkennt í nál. meiri hl.

Miðað við þetta, sem hér hefur verið sagt, og með hliðsjón af ástandi í skólamálum, sérstaklega að því er varðar nemendur, er veruleg hætta á að verið sé að samþykkja löggjöf sem í sjálfu sér kann að vera góðra gjalda verð, en hefur það eitt í för með sér að raska stórlega núverandi kerfi án þess að ríki, sveitarfélög eða fræðsluyfirvöld hafi nokkur tök á að framkvæma hana svo að viðhlítandi sé.

Þá hefur verið ágreiningur uppi um framtíð sérskólanna. Samkv. frv. og brtt. meiri hl. n. er ekki skorið á þann ágreining, en sá þáttur er svo veigamikill að ótækt er að afgreiða frv. án þess að tekin sé ljós og skýr af staða til hans og staða sérskólanna ákveðin í tengslum við stefnumótun í framhaldsskólanáminu. Þá verður framkvæmd laganna mjög undir því komin hvernig reglugerðir verða úr garði gerðar. Heimildir um setningu reglugerða eru svo rúmar og vald rn. svo víðtækt að þar getur brugðið til beggja átta. Það er skoðun minni hl., að þessar heimildir eigi að þrengja og setja nánari lagaákvæði þar að lútandi.

Þá hafa komið fram mjög miklar efasemdir hjá reyndum skólamönnum um ágæti þeirrar stefnu að breyta menntaskólum, eins og þeir eru í núverandi mynd, í framhaldsskóla eða fjölbrautaskóla.

Með hliðsjón af þessu öllu leggjum við í minni hl. til að þetta mál verði afgreitt með rökstuddri dagskrá.

Ég ætla að fara nokkrum fleiri orðum um þetta mál. Ég legg áherslu á það atriði, að með þessu frv. er gengið þvert á þá stefnu að skýr mörk verði í samskiptum ríkis og sveitarfélaga að því er varðar rekstur framhaldsskóla. Sú stefna, sem frv. markar, gengur sem sagt þvert á þá stefnu sem sveitarfélögin hafa markað og talað um í mörg undanfarin ár.

Í öðru lagi legg ég áherslu á það, að gefist er upp við hina raunverulegu stefnumótun sem þó fólst í frv. eins og það upphaflega var lagt fyrir, þar sem gert var ráð fyrir að lög um hina ýmsu sérskóla yrðu numin úr gildi þegar settar hefðu verið reglugerðir af rn. hálfu um þá. Frá þessari stefnumótun er horfið með brtt. meiri hl. n., þar sem kveðið er á um að áður en slíkar reglugerðir séu settar hafi Alþ. gefist kostur á að marka stefnuna með samþykkt þál. um meginefni viðkomandi reglugerða, eins og segir í brtt. nefndarinnar.

Fulltrúaráðsfundur Sambands ísl. sveitarfélaga, sem haldinn var á Húsavík dagana 28. og 29. mars s. l., gerði sérstaka ályktun um þetta mál, enda snerist fundurinn eingöngu um þetta frv. Mætti ráða af áliti meiri hl. menntmn., að raunverulega væri með brtt. meiri hl. verið að ganga svo til móts við óskir Sambands ísl. sveitarfélaga að frv. væri sambandsstjórninni þóknanlegt í öllum atriðum. En því fer víðs fjarri að svo sé og vil ég vegna þeirra orða, sem bæði féllu í gær hjá hv. frsm. meiri hl., svo og þess, sem segir í áliti meiri hl., fara nokkrum orðum um álit fulltrúaráðsfundarins á þessu máli.

Þar segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Með frv. því til l. um framhaldsskóla, sem nú liggur fyrir Alþ., er stefnt að því, að sveitarfélög eigi kostnaðaraðild að tveimur fyrstu bekkjum framhaldsskóla, bæði að því er varðar stofnkostnað og rekstrarkostnað, með sama hætti og grunnskóla. Í umr. og till. á undanförnum árum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hefur sú stefna verið ofarlega á baugi að framhaldsnám að loknum grunnskóla ætti að vera á vegum ríkisins og kostað af því. Fulltrúaráðið er ekki reiðubúið til að fallast á, að sveitarfélögin verði gerð að rekstraraðila þessa skólastigs ásamt ríkinu með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir, og telur það ekki horfa til gleggri verkaskila milli þessara aðila.“ — Þá segir einnig að því er varðar hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði framhaldsskóla: „Er þess að geta, að ákvæði frv. eru um margt óljós, t. d. að því er varðar sérskóla ríkisins, og telur fulltrúaráð nauðsyn að lögákveða hvaða skólar skuli haldast áfram sem ríkisskólar.“

Þá segir að með frv. sé lagður aukinn fjárfestingarkostnaður á sveitarfélögin sem mundi koma mjög misþungt á hin ýmsu þeirra eftir því hvernig húsnæðismál framhaldsskóla eru þar á vegi stödd. Áherslu verði því að leggja á að ríkið kosti allar byggingar framhaldsskóla.

Þá segir hér einnig, að áætlað sé samkv. könnun, sem Samband ísl. sveitarfélaga hafi látið gera, að útgjöld sveitarfélaga í heild vegna rekstraraðildar að framhaldsskólum samkv. frv. mundu aukast a. m. k. um 500 millj. kr. á ári miðað við meðalverðlag áætlað á árinu 1979. Auk þess eru mörg atriði samkv. frv. háð reglugerðarákvörðunum, svo sem um skipulag kennslu og nemendafjölda í kennsluhópum. Fulltrúaráðið telur að slík ákvæði eigi að ákvarða í lögunum sjálfum ef af samþykkt þeirra verði.

Ákvæði frv. um námsvistargjöld þarf að dómi fulltrúaráðsins að athuga nánar. Hætt er við að innheimta þeirra, eins og gert er ráð fyrir í frv., muni valda margvíslegum erfiðleikum og verða flókin í framkvæmd. Þar er að vísu gerð breyting af hálfu meiri hl., aðallega að því er varðar innheimtuna, þar sem námsvistargjöldin skulu greidd úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga af framlagi sjóðsins til viðkomandi sveitarfélags.

Þá eru stjórnunarákvæði frv. gerð að umtalsefni og sagt að þau séu þannig, að mjög séu takmarkaðir möguleikar einstakra sveitarstjórna til að hafa áhrif á útgjöld framhaldsskólans. Sérstaklega á þetta við um sveitarstjórnir í dreifbýli. Fulltrúaráðið telur að stjórnunarákvæði í 21. gr. séu allt of viðamikil og þung í vöfum og muni tæpast í framkvæmd leiða til eins virkra áhrifa framhaldsskólaráðs á framkvæmd og mótun skólastarfsins og að er stefnt. Fulltrúaráðið telur einnig, að hér sé um svo veigamikið mál að ræða að rétt sé að það verði athugað frekar, og leggur áherslu á að samráð verði haft við nefnd þá sem nú vinnur að tillögugerð um verkaskiptingu milli ríkisins og sveitarfélaganna.

Hér hef ég talið upp alla þá þætti sem greinir í ályktun fulltrúaráðsfundarins, nema tvo — og hverjir skyldu þeir vera? Jú, þeir eru þessir:

„Verði sú niðurstaða löggjafans við samþykkt þessa frv., að aukin verði kostnaðarleg þátttaka í rekstri framhaldsskóla, verður að gera þá kröfu, að annað tveggja verði gert, að létta af þeim útgjaldaliðum eða veita þeim nýja tekjustofna til að mæta þeim kostnaði.“

Og hvert er ráð meiri hl. n. við þessum tilmælum fulltrúaráðsfundarins? Þau eru ósköp einföld. Þau eru þau, sem greinir í frv. til l. um breyt. á lögum um grunnskóla, þ. e. 293. máli þingsins, að ríkið skuli aftur taka þátt í viðhaldskostnaði grunnskólans. Þessu var breytt með lögum frá Alþ. árið 1975, og þar var beinlínis verið að ganga til móts við stefnu sveitarfélaganna um að skýrari mörk skyldu vera milli ríkisins og sveitarfélaganna á þessu sviði sem mörgum öðrum. Nú er sem sagt ráðið að stíga þetta skref aftur til baka, halda áfram því samkrulli sem fyrir var. Með þessu telur meiri hl. menntmn. að nægilega sé stungið upp í sveitarfélögin, þau muni láta þetta gott heita. En ég fullyrði að því fer víðs fjarri að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, fulltrúaráðið eða sveitarstjórnarmenn yfirleitt sætti sig við þessa aðferð. Það var sem sagt farið fram á að annaðhvort fengju sveitarfélögin tekjustofna til þess að standa undir hinum aukna kostnaði eða létt yrði af þeim einhverjum kostnaðarliðum, en ekki þessum.

Annað atriði, sem eftir stendur úr ályktun fulltrúaráðsins, er svo þetta: „Þrátt fyrir þá ágalla, sem hér hefur verið bent á, leggur fulltrúaráðið áherslu á að það er sammála mörgum atriðum frv. og telur brýnt að lög um samræmdan framhaldsskóla verði sett.“

Það er vissulega ljóst í hugum sveitarstjórnarmanna yfirleitt, að það er brýnt verkefni að setja lög um framhaldsskóla. Framhaldsskólinn, eins og hann nú er, hefur haldið áfram að þróast nánast fyrir tilviljun og sveitarfélögin hafa ekki átt annars kost en að taka þátt í þeim leik. Sífellt hefur verið lagt meira og meira á sveitarfélögin í þessum efnum. Og auðvitað vilja sveitarstjórnarmenn að lög um framhaldsskóla nái fram að ganga, en þeir eru ekki tilbúnir að taka við hverju sem er.

Ég benti í þessu sambandi á álit svokallaðrar verkaskiptingarnefndar sem vann á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga fyrir nokkrum árum og skilaði áliti. Þar var skýrt kveðið á um að það væri ósk sveitarfélaganna að algerlega yrði skorið á milli og framhaldsskólinn yrði á vegum ríkisins. Það sama var uppi á teningnum hjá þeirri verkaskiptingarnefnd sem hefur starfað undanfarin ár og er reyndar enn að starfi — gaf út álit um fyrsta hluta verkefnis síns á s. l. ári sem varðaði verkaskiptinguna á milli ríkis og sveitarfélaga. Þar var einnig kveðið á um þetta atriði.

Að því er varðar stefnu frv. um sérskólana hefur, eins og ég áðan sagði, verið horfið frá þeim fyrirætlunum sem í frv. voru, í 37. gr. þess, þar sem kveðið var á um að hin ýmsu lög um sérskóla skyldu numin úr gildi þegar reglugerðir hefðu verið settar. Yfir n. rigndi mótmælum frá fjölda aðila varðandi þessar fyrirætlanir, og þá er leiðin sú að slá öllu á frest og flytja brtt. þess efnis að Alþ. skuli með þál. samþykkja þær reglugerðir sem samdar verða um þessi efni í menntmrn. Út af fyrir sig er ástæða til að fagna brtt., vegna þess að þá gefst vissulega ráðrúm til að athuga þessi mál miklu betur, en það sýnist ekki mikil skynsemi í því að vera að samþykkja heilan lagabálk um framhaldsskóla ef svo veigamiklum þætti sem þessum er slegið á frest.

Ýmislegt fleira mætti ræða varðandi þetta mikilsverða mál, en ég ætla ekki að gera það að sinni. Ég læt þó í ljós efasemdir um að hér sé farið inn á rétta braut, svo að ég sleppi því sem varðar kostnaðarskiptinguna og samskipti ríkis og sveitarfélaganna, heldur nefni þá menntapólitík sem í frv. er. Okkur í n. þótti athyglisvert að hlýða á mál rektors Menntaskólans í Reykjavík, sem kom á fund n. Ég minnist þess, að hann hafði orð á því að honum þótti verst hvernig allt væri flatt út, að því er honum sýndist, með þeirri stefnu sem mörkuð væri í frv. Hann taldi, að flest, sem þarna væri sagt, væri sótt til Svíþjóðar; og benti á að í því landi væru aðstandendur barna farnir að stofna nýja og sérstaka menntaskóla sem aðstandendurnir kostuðu sjálfir þar sem háskólar annarra landa væru hættir að taka við nemendum úr framhaldsskólum í Svíþjóð. Ég minnist þess einnig, að rektor sagði, þegar hann var að ræða um tungumálakennsluna eins og hún er tíðkuð núna, eitthvað á þá leið, að ef tilgangur menntakerfisins væri sá að menn gætu komið inn til Marks and Spencer og fengið stuttar nærbuxur, en ekki síðar, þætti honum of dýrt að reka menntakerfið til að ná þeim tilgangi.

Með hliðsjón af því, sem ég hef hér sagt, voru fulltrúar Sjálfstfl. í n. ekki reiðubúnir til að samþykkja þetta frv. Ég legg áherslu á að þó að margt sé jákvætt í frv. og mikil nauðsyn sé að sett verði löggjöf um framhaldsskóla þannig að þessi mikilvægu mál hætti að þróast fyrir tilviljun, eins og þau hafa gert, þá eru svo veigamiklir gallar á frv. að mér sýnist fráleitt að samþykkja það í þessum búningi. Þess vegna leggjum við til að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, eins og greinir í nál. okkar á þskj. 665.