10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4633 í B-deild Alþingistíðinda. (3779)

238. mál, námsgagnastofnun

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., hefur verið á ferð í sölum Alþingis um margra ára skeið, en aldrei hlotið afgreiðslu. Nú er það á leið í gegnum þingið í fyrsta sinn svo merkjanlegt sé, því að það kemur frá Ed. þar sem það hefur hlotið einróma samþykki. Ég hef satt að segja aldrei skilið hvers vegna frv. þetta hefur ekki átt greiða leið í gegnum sali Alþingis, vegna þess að hér er um ótvíræða hagræðingu að ræða sem hlýtur að hafa í för með sér sparnað og ráðdeild í meðferð opinberra fjármuna.

Með þessu frv. er að því stefnt að sameina í eina stofnun þrjár stofnanir: Skólavörubúð, Ríkisútgáfu námsbóka og Fræðslumyndasafn ríkisins. Frv. felur síðan í sér skipulag hinnar nýju stofnunar, sem nefnast mun Námsgagnastofnun.

Það skal vissulega viðurkennt, að sá dráttur, sem orðið hefur á afgreiðslu frv., hefur orðið til þess að frv. hefur tekið breytingum og áreiðanlega í öllu til batnaðar. Fyrst í stað, þegar frv. var fyrst lagt fram, fannst mönnum að þrátt fyrir sameiningu gætti þess um of og gægðist í gegnum frv., að á bak við stæðu þrjár gamlar stofnanir sem hver um sig starfaði með sínum hætti þótt búið væri að sameina þær í eina stofnun. Mönnum fannst skipulag hinnar nýju stofnunar nokkuð þunglamalegt og hafa þeir sennilega fyrst og fremst af þeirri ástæðu verið tregir til að samþ. það, þó það horfði til nokkurra bóta. Eftir að gerðar voru verulegar breytingar á frv. í þá átt að fella stofnunina saman í samræmda heild og sniðnir voru af því agnúar af þessu tagi hefði frv. átt að eiga hér upp á pallborðið, en af einhverjum ástæðum hefur það alltaf strandað í menntmn. þar til nú að það hefur hlotið afgreiðslu úr annarri deildinni.

Í frv. er gert ráð fyrir að ríkisstofnanir, sem starfa að útgáfu, miðlun og framleiðslu námsefnis og kennslugagna, séu sameinaðar í þeirri stofnun sem ég áður nefndi, Námsgagnastofnun, er lúti daglegri stjórn eins forstjóra, námsgagnastjóra.

Í stað námsbókanefndar og stjórnar Fræðslumyndasafns ríkisins kemur óskipt námsgagnastjórn og skal hún hafa með höndum yfirstjórn á starfsemi og fjárreiðum Námsgagnastofnunar.

Ákvæði eru um náið samstarf Námsgagnastofnunar og þeirra aðila er vinna að endurskoðun námsefnis og nýjungum í kennslustarfi á vegum menntmrn., við Kennaraháskóla Íslands og aðrar þær stofnanir er kennaramenntun veita.

Þessi stofnun mun framleiða ýmis náms- og kennslugögn miðað við íslenskar þarfir og aðstæður önnur en prentað mál.

Herra forseti. Ég tel að fyrir löngu sé orðið tímabært að mál þetta fái afgreiðslu óbreytt eða með breytingum, eftir því sem Alþ. telur eðlilegt og nauðsynlegt, og síst af öllu megi draga lengur að málið nái fram að ganga. Satt best að segja stendur það þessari starfsemi talsvert fyrir þrifum að ekki hefur fengist úr því skorið hvort Alþ. gæti fallist á þá stefnumótun sem í frv. felst.

Eins og ég hef áður tekið fram hefur Ed. Alþ. afgreitt frv, án þess að gera á því nokkrar breytingar. Hvernig sem það veltur í þessari d. legg ég hins vegar aðaláherslu á að frv. fái hraða afgreiðslu á þeim fáu dögum sem eftir eru til þingslita.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að frv. þessu verði vísað til hv. menntmn. að lokinni 1. umr.