11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4690 í B-deild Alþingistíðinda. (3889)

234. mál, samvinnufélagalög

Flm.(Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Um langt árabil hefur verið ljóst að nauðsyn hefur borið til að endurskoða ýmiss konar löggjöf um félagarekstur. Á síðasta Alþingi gerðust þau ánægjulegu tíðindi að samþ. voru ný lög um hlutafélög, hin merkasta löggjöf að mínu mati, þar sem margar hugmyndir voru sóttar til þróunar bæði vestan hafs og austan. Samvinnufélagalög eru gömul og ófullkomin eins og hlutafélagalögin voru, og samvinnumönnum eins og öðrum hefur lengi verið ljóst að breytinga væri þörf. Nú er tímabært að mínu mati að fylgja fram breytingum á samvinnufélagalöggjöfinni alveg á sama hátt og hlutafélagalögunum og samræma þessi lög. Þess vegna er lagt til að Alþ. feli ríkisstj. að láta hefja undirbúning nýrrar löggjafar um samvinnufélögin.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta, herra forseti. Ég geri ráð fyrir að allir þm. séu sammála um að nauðsyn beri til að endurskoða þessa löggjöf alveg á sama hátt og hlutafélagalögin, og vænti ég því að hv. allshn., sem ég legg til að fái málið til umfjöllunar, muni geta afgreitt það nú alveg næstu daga þannig að till. fái samþykki á þessu þingi.