14.05.1979
Efri deild: 100. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4720 í B-deild Alþingistíðinda. (3924)

271. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. (Bragi Níelsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. þessarar d. hefur haft 271. mál á þskj. 557 til meðferðar á allmörgum fundum og fengið til viðtals landlækni og skrifstofustjóra heilbr.- og trmrn. N. leggur einróma til að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem hún leggur til að gerðar séu og um getur á þskj. 696.

Ég vil biðja hv. þm. strax í upphafi að leiðrétta eina ritvillu í upphafi 1. brtt. okkar. Þar stendur: „Heilsugæslustöðvar geta verið með tvennu móti“, en ber að vera: með þrennu móti.

Þær brtt., sem n. leggur til að gerðar verði á frv., eru ekki stórvægilegar. Í fyrsta lagi að heimilt sé að ráða aðstoðarlækni á H 1 stöðvar hluta úr ári. Í gildandi lögum er þess ekki kostur nema í orlofs- og veikindatilfellum. Þetta ákvæði gæti að einhverju leyti létt nokkuð á þeirri ströngu og þrúgandi viðveruskyldu lækna í einmenningshéruðum og gert þeim kleift að sinna H-stöðvum á annatímum eða ómannaðri H 1 stöð í nágrenni. Einnig getur þetta verið mikilvægt atriði í verstöðvum þar sem mikil fjölgun íbúa verður um skamman tíma á ári. Auk þessa gæti þetta verið kjörin námsstaða fyrir læknanema á síðasta námsári. Að áliti sérfróðra manna má ekki búast við að kostnaður af þessu geti farið yfir 20 millj. kr. á ári miðað við núgildandi verðlag — og þó sennilega miklu minna.

2. brtt. felur í sér að á Grundarfirði verði H1 stöð. Þarna er um að ræða breytingu í samræmi við till. á þskj. 568 og til skýringar að þarna er um 700 manna þorp að ræða sem er með mikil útgerðarumsvif í 48 km fjarlægð frá heilsugæslustöðinni í Stykkishólmi. N. var sammála um þessa breytingu.

Í þriðja lagi er lagt til að hlutur Raufarhafnar og Þórshafnar haldist óbreyttur frá því sem er í núgildandi lögum. Þarna er farið að tillögum heilbrigðismálaráðs Norðurlands eystra.

Í 4. brtt. er sú breyting að H 2 stöð verði á Eskifirði, og er það í samræmi við þá almennu reglu, að þegar íbúafjöldi á stað er kominn fast að 2000 skuli tveggja lækna stöð vera staðsett þar. Á þessu svæði munu nú vera milli 1800 og 1900 íbúar, og þetta mál kom fram í frv. hér á þingi í haust sem flutt var af Helga F. Seljan og Vilhjálmi Hjálmarssyni, á þskj. 50. Þá var leitað umsagna frá landlækni og héraðslækni Austurlands og voru þær báðar jákvæðar.

5. till. er um það, að í Grindavík verði H 1 stöð. Íbúafjöldi í Grindavík hefur farið hratt vaxandi og er nú um 1800. Hins vegar eru samgöngur góðar við næstu H 2 stöð, sem er í Keflavík, og vegalengdir eru ekki miklar. Það hefur vakið nokkra undrun, að ekki skuli vera komin H 1 stöð í þessum kaupstað, en aðspurður svaraði fulltrúi rn. því til, að þetta stafaði af áhugaleysi heimamanna. N. hefur hins vegar haft samband við bæjarstjóra og nokkra þm. kjördæmisins og héraðslækni, og telja þeir allir, að mikill og vaxandi áhugi sé á þessu máli núna, og eru allir hlynntir breytingunni.

N. hafði íhugað fleiri brtt. við þetta frv., en við frekari athugun þeirra mála reyndist ekki grundvöllur fyrir þeim. N. leggur til að frv. verði samþ. með þessum breytingum sem ég áður hef talið.