14.05.1979
Efri deild: 100. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4726 í B-deild Alþingistíðinda. (3938)

304. mál, jöfnunargjald

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt þrem hv. þm. leyft mér að flytja á þskj. 701 frv. um breyt. á l. nr. 83 18. maí 1979, um jöfnunargjald. Meðflm. að frv. þessu eru hv. 6. þm. Suðurl., hv. 8. landsk. þm. og hv. 3. landsk. þm.

Þetta frv. á sér þann aðdraganda, að á síðasta þingi voru samþykkt lög um jöfnunargjald. Þar er svo kveðið á að við innflutning vöru, sem tollar hafa verið lækkaðir eða felldir niður af og tollfrjálsar verða 1. jan. 1980 samkv. ákvæðum samnings um aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og samnings milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu (EBE), skuli greiða 3% jöfnunargjald.

Lög þessi voru sett til að jafna samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar gagnvart iðnaði landa EFTA og EBE vegna ólíkra söluskattskerfa. Vegna þeirra uppsöfnunaráhrifa, sem það söluskattskerfi, sem í gildi er hér á landi, hefur í för með sér, er í verði vöru, sem flutt er út frá Íslandi, innifalinn ákveðinn söluskattur, en aftur á móti ekki í vöru sem flutt er frá landi þar sem virðisaukaskattkerfið gildir. Samkeppnisaðstaða framleiðenda, er búa við svo ólík söluskattskerfi, er því að þessu leyti ójöfn. Ef jafna á stöðu íslenska framleiðandans verður því að endurgreiða honum þann söluskatt sem innifalinn er í útflutningsverði, eins og nú er gert með tilkomu tekna af verðjöfnunargjaldi.

Við söluskattskerfi eins og það, sem við búum við, safnast upp söluskattur einnig á margvíslega framleiðslustarfsemi og þjónustu fyrir innlendan markað. Þegar hliðstæð vara er flutt inn frá landi þar sem virðisaukaskattkerfi gildir, þá flyst hún inn í landið án uppsöfnunaráhrifa söluskatts og er að því leyti betur samkeppnisfær í verði en innlend vara, þar sem í verði hennar gætir uppsöfnunaráhrifa söluskatts vegna þess skattkerfis sem við búum við. Ef jafna ætti samkeppnisaðstöðu vara þessara hér á innlendum markaði hvað söluskattsáhrif á verð snertir verður að leggja gjald á innfluttu vöruna er svarar til þess uppsafnaða söluskatts sem falinn er í verði innfluttu vörunnar. Þyki hins vegar ástæða til að undanþiggja jöfnunargjald innfluttrar vöru, sem íslenskur iðnaður á í samkeppni við, eins og nú á sér stað t. d. að því er varðar veiðarfæri og fiskumbúðir, verður samkeppnisaðstaða þeirrar framleiðslu ójöfn samkeppnisaðstöðu annarrar iðnaðarframleiðslu sem keppir við innflutning. Er því eðlilegt að ná hliðstæðum jöfnuði með því að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt af framleiðslu þessara vara séu þær framleiddar innanlands, svo sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Þetta er kannske ekki stórt mál í sjálfu sér, en er stórt mál að því leyti, að það er ekki hægt að una því í þeim tilvikum, sem hér er um ræða, að íslenskur iðnaður sæti verri aðstöðu en erlendur iðnaður. Með tilliti til þessa er frv. þetta flutt.