16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4862 í B-deild Alþingistíðinda. (4185)

311. mál, tímabundið aðlögunargjald

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör sem hann gaf við fsp. mínum, þó að þau hafi ekki verið tæmandi nema síður sé.

En ég vil harma það sem kom fram hjá hv. 9. þm. Reykv., þar sem hann segir að þegar og ef gjaldið verður fellt niður 31. des. 1980, sem hann leggur alla áherslu á að gert verði vegna þess að annars séum við að svíkja þá samninga sem við höfum náð við erlendar þjóðir, þá skuli leggja á önnur gjöld til að afla sömu tekna. Taka af — það þýðir að leggja á annars staðar! Sá verðbólguhugsunarháttur er náttúrlega bara ímyndun, eins og gefur að skilja. Ég vona að slíkt verði þrátt fyrir allt ekki gert.

Hitt er annað mál, að ég legg á það áherslu að gerð verði úttekt á íslenskum iðnaði. Allt það, sem unnið er og kallað er iðnaður á Íslandi, er langt frá því að vera sannur íslenskur iðnaður, og þegar við leggjum á jöfnunargjöld eða aukum tolltekjur á þennan hátt og tvöföldum þær í þessu tilfelli frá því sem var s. l. ár hlýtur það að verða krafa þjóðarinnar að við séum ekki að styrkja annað en það sem er hreinn íslenskur iðnaður.

Hæstv. ráðh. gaf upp að jöfnunargjald það, sem um hríð hefur verið í gildi og er 3%, hafi gefið af sér um 1200 millj. kr. á s. l. ári. Yfirstandandi áætlun er þá að 2/3 af því renni til iðnaðar og 1/3, 400 millj., renni í ríkissjóð. Þá er mér spurn, þegar verið er að gera neyðarráðstafanir til að aðstoða íslenskan iðnað til að skapa ný atvinnutækifæri: Hvernig í ósköpunum stendur á því að ríkisstj. leyfir sér að nota þær neyðarráðstafanir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð? Hver er ástæðan? Er það rétt að ríkissjóður þurfi að fá 400 millj. kr. í sinn hlut vegna þess að með nýjum gjöldum þurfi að auka aðstoð við íslenskan iðnað? Eru þeir kannske farnir að prjóna í ríkisstjórnarsætum sínum og þurfa efnahagsaðstoð? (Gripið fram í: Þeir eru alltaf með eitthvað á prjónunum.) Þeir eru alltaf með einhverja bölvun á prjónunum, ég veit það.

Ég vona að hæstv. iðnrh. beiti sér fyrir því og tryggi það, að sú upphæð, sem hér er verið að bæta við, 3% ofan á önnur 3% sem eru fyrir, renni öll til íslensks iðnaðar og sköpunar á nýjum atvinnutækifærum, það verði gerð úttekt á íslenskum iðnaði þannig að ljóst liggi fyrir, hvaða iðnað á að styrkja og hvaða iðnað á ekki að styrkja, og að komið verði í veg fyrir að ríkissjóður hirði í verðbólguhít sína hluta af því fé sem lagt er á borgara þessa lands að greiða í þeim tilgangi að skapa hér atvinnutækifæri til frambúðar. — Og það má bæta því við, að ég trúi því, að með þessum álögum sé verið að búa þjóðina betur undir samkeppni við háþróaðar iðnaðarþjóðir sem keppa við innanlandsmarkaðinn, við íslenskan iðnað, og þegar slík gjöld eru lögð á get ég ekki með nokkru móti skilið þörfina fyrir að ríkissjóður geri þessar neyðarráðstafanir að féþúfu fyrir sig — má segja persónulega.