09.11.1978
Sameinað þing: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Kannske má segja að sú till. til þál., sem nú er til umr., sé orðin gamall kunningi hér á Alþ. Fyrst flutti ég hana einn árið 1976. Á síðasta þingi fluttum við Jóhann Hafstein till. saman, en nú eru meðflm. hv. þm. Jónas Árnason og Sighvatur Björgvinsson. Meiri hl. allshn. mælti með samþykkt till. á s.l. vori, en ekki vannst hins vegar tími til að afgreiða hana í hv. Sþ. Till. er nú flutt orðrétt eins og meiri hl. allshn. gekk frá henni s.l. vor.

Eins og till. ber með sér er það vilji flm., að gerbreyting verði annars vegar gerð á fyrirkomulagi rekstrar- og afurðalána landbúnaðarins, þannig að bændur fái í hendur þá fjármuni sem þeim eru ætlaðir, en þeir staðnæmist ekki lengri eða skemmri tíma í verslunar- og afurðasölufyrirtækjum, og hins vegar að leiðir verði fundnar til þess að útflutningsbætur og niðurgreiðslur nýtist bændum betur en nú er.

Með lögum nr. 28 frá 1930 — eða fyrir nærfellt hálfri öld — var kveðið svo á, að verkkaup sjómanna og verkamanna skyldi greiðast í peningum og innskriftarkerfi því, sem tíðkaðist, skyldi lokið. Nú hálfri öld síðar búa bændur hins vegar víða við það fyrirkomulag, að þeir fá ekki fjármuni sína í hendur og engar upplýsingar fást um það hvernig með þetta fé er valsað. Hér er þó ekki um neinar smáfjárhæðir að ræða. Afurðalán til landbúnaðarins urðu hæst á s.l. ári í desembermánuði, 12.7 milljarðar, og rekstrarlánin urðu hæst í október, eða 3.3 milljarðar kr. Hækkanir nú verða vafalaust mjög miklar, þó að enn liggi ekki fyrir tölur í því efni.

Alkunna er að fjármunir þessir eru notaðir í almennum rekstri ýmissa verslunarfyrirtækja. Heildarvextir af fé þessu eru nú 181/4% og því ekki ónýtt fyrir verslunarfélög að geta valsað með þessa fjármuni í rekstri sínum þegar almennir vextir eru miklu hærri.

Flm. vilja að bændur fái sjálfir þetta fé í hendur, og næmi það fé, sem þeir þannig fengju, að meðaltali talsvert á þriðju millj. til hvers búandi manns, miðað við upphæð lánanna eins og hún hefur verið, og nú væntanlega ekki undir þrem millj. á ári á meðalbú.

Það hefur verið reynt að halda því fram, að miklir annmarkar og skriffinnska væri því samfara að greiða bændum beint afurða- og rekstrarlánin. Þetta er þó hinn mesti misskilningur. Þvert á móti má halda því fram, að skriffinnska yrði minni þegar hætt verður að skrá hvern eldspýtustokk sem bóndi þarf að taka út, því að hann mundi greiða fyrir vöru sína að jafnaði, þó að auðvitað yrði engum bannað, hvorki verslunarfyrirtækjum né bændum, að standa í lánsviðskiptum, ef báðir aðilar eru um það sammáta. Fyrirkomulag lánveitinganna gæti verið svipað og í sjávarútveginum, þar sem tryggt er að útgerðarmenn og hlutarsjómenn fá fé sitt í hendur, en fiskvinnslufyrirtækin ráðskast ekki með fé annarra manna.

Það skal að vísu játað, að umsagnir ýmissa þeirra aðila, sem fjölluðu um málið að ósk allshn. Sþ, á s.l. vetri, voru loðnar og sumar neikvæðar. En þetta voru umsagnir kerfisins, Sambandsins, bankanna o.s.frv. Og hvenær hefur það gerst í veraldarsögunni, að kerfið gagnrýndi sjálft sig?

Það held ég að sé fátítt. Sú skepna, kerfið, þolir illa gagnrýni annarra, og þess vegna er þess vart að vænta, að hún gagnrýni sig sjálf.

Rétt er að taka fram, að mjög er það misjafnt hversu greiðlega afurðasölu- og verslunarfyrirtæki reiða af höndum þá fjármuni sem bændur eiga að fá. Sums staðar er þetta í allgóðu lagi, en annars staðar ekki, og að sjálfsögðu er hagur bænda betri í þeim héruðum, þar sem um samkeppni er að ræða, en í hinum, þar sem einokun ríkir. En mergurinn málsins er sá, að heilbrigðast og eðlilegast er að uppræta alla tortryggni og launung um hvernig með fé bænda er farið, og það verður einungis gert með þeim hætti, að bændur fái peningana í hendur svo að hver og einn viti hvað honum ber.

En hvað þá um útflutningsbæturnar og niðurgreiðslurnar? Í umr. hér á Alþ. á s.l. vetri lýsti einn af þm.

Framsfl., Ingi Tryggvason, yfir að hann teldi vel til greina koma að útflutningsbæturnar yrðu greiddar beint til bænda. Ekki fæ ég séð að nokkrir annmarkar ættu að vera á því að greiða útflutningsbæturnar beint til bænda. Yrðu þá greiddar svo og svo margar krónur fyrir hvert kjötkg. og svo og svo margar krónur fyrir hvern innlagðan lítra af mjólk. Hugsanlegt væri líka að einskorða þetta við ákveðið magn vöru, við ákveðna peningaupphæð, þannig að upp yrði tekið, óbeinlínis a.m.k. nokkurs konar kvótakerfi, í raun sjálfvirkt kvótakerfi og miklu einfaldara en ráð er fyrir gert í till. 7 manna n, svonefndu sem hæstv. landbrh. skipaði nú nýlega og hefur skilað áliti, eins og hv. þm. þekkja. Þetta kerfi er miklu einfaldara með þessum hætti.

Að því er niðurgreiðslurnar varðar hefur verið á það bent, að greiðslur þeirra beint til bænda undirstrika að um styrki til landbúnaðarins væri að ræða. Ég fæ ekki séð að nein ástæða sé til slíkrar viðkvæmni. Það má alveg eins snúa dæminu við og segja að niðurgreiðslurnar séu styrkur til neytenda. Ef ríkisvaldið ákveður að beita niðurgreiðslum sem hagstjórnartæki, sýnist mér liggja alveg beint við að greiða fjármunina til eigenda vörunnar, þ.e.a.s. bændanna, en ekki einhverra allt annarra. Engir aðrir en bændur sjálfir, sem vöruna framleiða og hana eiga, geta átt neitt tilkall til þessara miklu fjármuna. Hér má gjarnan geta þess, að það er yfirlýst, að allar þessar vörur eru í umboðssölu allt þar til þær eru komnar í verslanir til neytenda, þannig að það eru bændur sem þessar vörur eiga, en engir aðrir, og raunar algerlega óheimilt að mínu mati og hrein lögleysa að veðsetja vörur eins og nú er gert af hálfu afurðasölufyrirtækjanna. Ég tel að bankarnir hafi ekki veð í einu einasta kg af kjöti, það sé allt saman ólöglegt. Það eru bændur einir sem hafa lagalega heimild til að veðsetja þessar vörur.

Áður en vinstri stjórnin tók við völdum var gert ráð fyrir að útflutningsbætur og niðurgreiðslur losuðu á þessu ári 11 milljarða kr. sem til bænda eiga að renna. Þetta þýðir að meðaltali um 2.5 millj. á hvern bónda, því að bændur eru taldir vera nálægt 4500, a.m.k. ekki fleiri. Þessa fjármuni teldi ég eðlilegt að greiða t.d. mánaðarlega, þannig að meðalgreiðsla til hvers bónda væri um 200 þús. kr. á mánuði. Væri þá hægt að fara að tala um að bændur fengju laun sín greidd á sama hátt og aðrar stéttir, enda fengju þeir þá líka yfirráð yfir því lánsfjármagni sem til landbúnaðar á að renna, eins og áður getur.

Samkv. stefnu núv. ríkisstj. og fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að greiðslur þessar tvöfaldist rúmlega og verði a.m.k. 22–23 milljarðar, eða 5 millj. á meðalbú á ári, ef þær verða þá ekki enn hækkaðar til muna eins og margt bendir til. Þar við bætast svo lánin. Þannig næmu heildargreiðslur úr bankakerfinu og ríkissjóði nærri 8 millj. kr. á meðalbú á ári, — 8 millj. kr. sem bændur ættu auðvitað að fá beint, en ekki að ganga í gegnum verslunarfyrirtækin. Auðvitað dylst engum að taka þarf til hendinni þegar breytingar eins og þessar eru gerðar. En hitt er alveg ljóst að mínu mati, að fyrirkomulagið verður allt miklu einfaldara eftir en áður, gagnstætt því sem kerfið heldur nú fram. Enginn efi er á því, að breytingar í þessa átt eru eitthvert mesta hagsmunamál bændastéttarinnar og því þarf Alþ. að taka af skarið í þessu efni fyrr en síðar.

Eins og ég gat um áðan er allt það kerfi, sem fjárstreymi í landbúnaði lýtur, með þeim ósköpum að ógerningur er að fá upplýsingar um ferðalag þessara gífurlegu fjármuna, hversu lengi aðrir en bændur ráðskast með það og hversu mikið vaxtatapið er meðan upphæðir þessar, sem eru vaxtalausar hjá þeim sem hafa þær undir höndum, eru á leiðinni til réttra móttakenda, en þar er auðvitað um stórfjárhæðir að ræða. Mig grunar raunar að hér sé að finna meginvanda landbúnaðarins, ekki síst á miklum verðbólgutímum, og ef þessi vandi væri leystur færi margt betur.

Mig langar að varpa þeirri spurningu fram til hæstv. landbrh., hvort hann geti hér og nú gefið einhverja lýsingu á þeirri ferðasögu fjármunanna sem ég áðan nefndi. Ekki ætlast ég til þess, að hann geti nú rakið nákvæmlega dagsetningar og upphæðir ríkissjóðsávísananna né þá tímalengd sem þetta fé hefur viðdvöl hjá öðrum en bændum. En ég óska þess þá, að hann geri sem allra gleggsta grein fyrir þessu í Sþ. síðar, við aðrar umr. um málefni landbúnaðarins.

Mig langar einnig að drepa aðeins á annað vandamál landbúnaðarins og raunar líka neytenda, en það er hinn hái slátrunarkostnaður. Hann er nú 303 kr. á hvert kg dilkakjöts eða 4242 kr. á 14 kg skrokk. Þar að auki eru greiddar að meðaltali tæpar 800 kr. vegna gærunnar. Sútunarverksmiðjur kaupa þær á 1844 kr., en bændur fá aðeins 1065 kr. Heildarslátrunarkostnaður á dilk er því yfir 5 þús. kr. og á eina milljón fjár hvorki meira né minna en 5 milljarðar kr. Þetta eru ótrúlegar upphæðir, og fullyrði ég að þær mætti lækka verulega. Ég fullyrði að þær mætti lækka verulega — endurtek það — líklega sem næmi hátt í þriðjung eða 100 kr. á hvert kg, ef vel væri að staðið, og samt ættu sláturhús að geta vel borið sig. Þegar þetta er skoðað skilja menn kannske betur en ella þá heiftarbaráttu sem háð er til að viðhalda aðstöðu verslunar- og afurðasölukerfis þess sem aflar sér fjármuna með þeim hætti, sem nú hefur verið lýst, á mismunandi vegu.

Víst hefur tekið tíma að fá menn til að ræða þessi málefni hispurslaust, og enn er sannarlega margt á huldu. En héðan í frá geta menn ekki skýlt sér á bak við þögnina. Hún hrópar nú þegar á svör og aðgerðir. Almennt var því fagnað, sem stóð í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj., að hún hygðist beita sér fyrir úrbótum í fjármálum bændastéttarinnar þannig að bændur fengju fjármuni sína fyrr. Mig langar að spyrja hæstv. landbrh. annarrar spurningar, sem hann sjálfsagt getur svarað strax, en hún er á þessa leið: Er ekki ætlunin að tryggja nú að bændur fái það fé, sem lánakerfið ætlar þeim, beint í hendur, en því verði ekki haldið fyrir þeim í verslunar- og afurðasölufyrirtækjum? Ber ekki að leggja þann skilning í eftirfarandi orð samstarfsyfirlýsingarinnar, en þar segir, með leyfi forseta: „Rekstrar- og afurðalánum verði breytt þannig, að bændur geti fengið laun sín greidd og óhjákvæmilegan rekstrarkostnað svipað og aðrir aðilar fá nú?“

Ég spyr beint að þessu, vegna þess að orðalag er nokkuð loðið í þessari yfirlýsingu. En þýðir hún ekki að nú skuli bændur fá sína peninga í hendur, en þeim verði ekki haldið fyrir þeim í afurðasölu- og verslunarfyrirtækjum? Nú starfar nefnd að þessum málum, og enn fremur er þá spurt: Ber ekki þessari nefnd að gera till. um það, hvernig þessu markmiði verði náð, og í annan stað hvað störfum n. liði, en mér skilst að hún eigi að skila áliti fyrir 20. þ.m., og þá fæst vonandi úr því skorið, hvort einhver meining er í þessari yfirlýsingu ríkisstj. eða hvort enn þá á að halda fé bænda. Það er vissulega brýnt, að Alþ. fái um þetta sem gleggstar upplýsingar, og efast ég ekki um að hæstv. landbrh. muni leitast við að svara því.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni umr. nú vísað til hv. allshn.