09.11.1978
Sameinað þing: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þessi þáltill., sem nú er til umr., er gamall kunningi. Hún hefur komið fram, eins og flm. rakti, tvívegis áður hér í þinginu. Ég hef verið andstæðingur þessarar hugmyndar, en ég nenni ekki að standa í deilum um hana lengur og get verið stuttorður. Ég sé nefnilega fram á það, að vinur minn, hv. 5, þm. Norðurl. v., Eyjólfur K. Jónsson, er að vinna sigur í málinu, og þess vegna er ég ekkert að berja höfðinu við steininn með það og verð að óska honum til lukku með þann árangur sem hann hefur þar með náð. Raunar er það ekki Eyjólfur einn sem hefur unnið þetta verk, því að Alþb.-menn tóku rækilega undir við hann og gengu nú í lið með honum í þessari krossferð, og það mega bændur náttúrlega líka þakka þeim og muna.

Hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson gat um í framsögu sinni, að það hefðu að vísu komið umsagnir um þetta mál í fyrra sem hefðu verið því nokkuð andsnúnar. Hann orðaði það svo, að kerfið hefði að sjálfsögðu sent neikvæðar umsagnir. Nú er ég ekki viss um nema það sé rétt til glöggvunar, að ég lesi hér hluta af nál. minni hl. allshn. frá í fyrra. Nál. er nokkuð ítarlegt og langt og ég mun ekki lesa það allt saman, en þar eru dregin saman nokkur þau atriði sem mér finnst skipta talsvert miklu máli. Landsbanki Íslands segir m.a., með leyfi forseta:

„Af því, sem hér hefur verið sagt, er ljóst, að í framkvæmd eru miklir annmarkar á þeirri tilhögun, sem till. gerir ráð fyrir, og hafa þeir ekki verið kannaðir til hlítar.“ Í umsögn Búnaðarbanka Íslands stendur:

„Það er því ekki sjáanleg leið til að framkvæma núverandi afurðalánakerfi, ef greiða ætti lánin beint til bænda án milligöngu þeirra fyrirtækja, sem hafa afurðirnar í sinni vörslu og annast sölu þeirra.“

Frá Búnaðarfélagi Íslands barst eftirfarandi ályktun Búnaðarþings:

„Búnaðarþing mælir gegn því, að till. til þál, um greiðslu rekstrar- og afurðalána til bænda (108. mál 99. löggjafarþings) verði samþykkt.“

Frá Stéttarsambandi bænda barst eftirfarandi bókun stjórnarinnar:

„Stjórn Stéttarsambands bænda telur framkvæmd slíkrar lánabreytingar sem hér um ræðir miklum vandkvæðum bundna og ekki líklegt að hún verði bændum almennt til hagsbóta. Ekki hafa komið fram óskir frá samtökum bænda um slíka breytingu og getur stjórnin ekki mælt með samþykkt tillögunnar.“

Mjólkursamsalan bendir á að bændur og mjólkurbú fái ekki kerfisbundin rekstrarlán, en segir síðan:

„Um afurðalánin gildir annað. Þar hafa mjólkurbúin fengið lán út á vinnsluvörubirgðir. Æskilegt væri að þau lán yrðu hækkuð í 90% heildsöluverðs varanna. En útilokað er að breyta greiðslufyrirkomulagi þessara lána, því mjólkurbúin ein geta veðsett birgðirnar.“

Umsögn stjórnar Sláturfélags Suðurlands hljóðar þannig:

„Af þessu tilefni vill stjórn Sláturfélags Suðurlands taka fram, að hún telur ekki þörf skipulagsbreytingar á fyrirkomulagi afurðagreiðslna frá Sláturfélaginu til bænda. Í áratugi hefur sá háttur verið hafður á hjá Sláturfélagi Suðurlands, að andvirði afurða er greitt til bænda með þeim hætti, að peningar eru lagðir inn á bankareikninga á nöfnum framleiðendanna, sem þeir geta síðan að sjálfsögðu ráðstafað að vild. Það sem einkum hefur háð því, að þetta fyrirkomu lag teljist fullnægja þörfum búvöruframleiðenda innan Sláturfélagsins, er að lán út á afurðabirgðir hafa verið allt of lág hlutfallslega miðað við verðmati afurðanna. Af þeim sökum hafa framleiðendurnir orðið að bíða eftir fullnaðaruppgjörum of lengi eða þar til afurðirnar eru að fullu seldar, og getur þetta vegna eðlis framleiðslu sauðfjárafurða oft tekið á annað ár. Því ber að leggja höfuðáherslu á hækkun afurðalánanna hlutfallslega miðað við verðmæti, svo að framleiðendur geti fengið sem mestan hluta afurðanna greiddan í bankareikninga sína sem fyrst eftir afhendingu afurðanna til vinnslustöðvanna. Stjórn Sláturfélags Suðurlands telur, að það fyrirkomulag, að bankar mundu greiða afurðaandvirði beint til bænda, yrði mjög þungt í vöfum, einkanlega þegar kæmi að endurgreiðslum lánanna frá framleiðendum til viðskiptabankanna.

Ef um væri að ræða, að bændur fengu afurða- og rekstrarlán beint til sín, mundu greiðslur til þeirra frá afurðafélögunum ekki geta farið fram fyrr en jafnóðum eftir sölu, væntanlega þá mánaðarlega og aðeins að litlum hluta andvirðis hvern mánuð, en hver bóndi yrði þá væntanlega einnig að endurgreiða bönkunum hlutfallslegan hluta lána mánaðarlega eins og afurðafélögin gera nú.“

Þetta var úr nál. sem minni hl. allshn. skilaði um málið í fyrra.

Það er meira blóð í kúnni. Samband ísl samvinnufélaga sendi mjög langa og ítarlega umsögn, sem var mjög neikvæð eins og aðrar umsagnir sem bárust um þetta mál.

Hv. flm. sagði í framsögu sinni, að hagur bænda væri betri þar sem mikil samkeppni ríkti í slátrunarmálum og afurðasölu. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessu. Ég held, að það séu engin efni til þess að halda þessu fram.a.m.k. er það svo í því kjördæmi, sem við hv. þingmaður erum fulltrúar fyrir, að það er síður en svo að hagur þeirra, sem hafa verið í stríði út af sínum afurðasölum, sé betri en hinna, sem hafa komið sér saman um hvernig þeir hagi þeim. Og ég lít svo á að það sé illt verk að reyna að brjóta niður það kerfi samhjálpar og samvinnu sem bændur hafa komið sér upp.