18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4983 í B-deild Alþingistíðinda. (4307)

271. mál, heilbrigðisþjónusta

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða til þess að lengja þennan fund, en ég vildi að skoðun mín á þessari breytingu kæmi fram, þannig að það sæist svart á hvítu og menn gætu lesið um hana. Ég harma mjög að í þessu frv., eins og það kemur nú frá Ed., skuli ekki hafa verið tekið tillit til þeirra breytinga sem ég og raunar fleiri töldu mjög æskilegar varðandi Norðurl. e. Þar á ég við það, að samkv. frv. er ákveðið að á Þórshöfn verði H 1 stöð og önnur H 1 stöð á Raufarhöfn. Þetta tel ég, eins og sakir standa nú, afskaplega óheppilegt.

Það er mjög erfitt að fá lækna til starfa í heilsugæslustöðvum sem eru afskekktar og einangraðar tiltölulega, eins og á Þórshöfn og Raufarhöfn. Læknar vilja gjarnan vera tveir saman á heilsugæslustöðvum. Nú er svo ástatt, að ekki hefur reynst unnt að fá lækni til Raufarhafnar. Þar starfar hjúkrunarkona, að vísu mjög hæf, sem hefur gegnt störfum sínum frábærlega. Nú er starfandi einn læknir á Þórshöfn sem hefur haft orð á því að hann muni ekki starfa þar stundinni lengur eftir að ljóst verður að hann fær ekki lækni við hlið sér. Þessi afstaða læknanna er afskaplega auðskiljanleg, því að þeir eru á hinum einangruðu stöðum á vakt 24 tíma á sólarhring 365 daga á ári. Þórshafnarlæknirinn þarf, auk þess að sinna Þórshafnarsvæðinu, að fara til Raufarhafnar og eykur það mjög á vanda hans.

Ég vil að þetta komi skýrt fram vegna hugsanlegra umræðna í framtíðinni um þetta mál og afdrif þess á þingi. Og ég treysti því að hæstv. félmrh. beiti áhrifum sínum til þess að bæta megi úr á þessu svæði, sem er mjög afskipt í sambandi við læknisþjónustu. Þar er um að ræða mjög verulega erfiðleika. Ég ber þessa staði mjög fyrir brjósti og hefði talið miklu betri úrlausn ef á Þórshöfn störfuðu tveir læknar sem þá hefðu getað sinnt Raufarhöfn mun betur en einn læknir gerir nú. Ég hef ekki trú á að það takist, eins og nú er málum háttað hér á landi með læknastéttina, að fá einn lækni til hvors þessara staða ef þeir eiga að starfa þar án aðstoðar.