22.05.1979
Sameinað þing: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5195 í B-deild Alþingistíðinda. (4565)

354. mál, símamál

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í tilefni af fsp. hv. þm. Ellerts B. Schram vil ég upplýsa, að tækjabúnaður til þess að gjaldfæra innanbæjarsamtöl á höfuðborgarsvæðinu eftir tímalengd voru pöntuð 1. mars 1979 — 1. mars s. l. — og afgreiðslutími er áætlaður 15 mánuðir.

Í öðru lagi spyr þm. að því, hver sé kostnaðurinn við þennan búnað, bæði í innkaupi og uppsetningu. Því er til að svara, að innkaupsverð er áætlað 395 720 sænskar kr. Uppsetningarkostnaður er áætlaður um tvö ársverk og unnið verður að þessu verkefni í ígripum að verulegu leyti.

Í þriðja lagi: Hvar á að nota þennan tækjabúnað? spyr hv. þm. Því er til að svara, að nefndur búnaður verður fyrst um sinn notaður á höfuðborgarsvæðinu, en síðar fyrir landið allt í áföngum eftir stærð stöðva.

Í fjórða lagi spyr hv. þm. hverjar séu áætlanir Pósts- og síma um tekjur af þessari ráðagerð. Svarið er, að áætlað er að þessi breyting gefi 30–35 millj. skrefa á einu ári og fer það þá eftir verðlagningu skrefa á hverjum tíma hversu mikið það gefur.

Framangreint kerfi auðveldar útjöfnun símagjalda fyrir landið í heild. Þar með gefst þá tækifæri til þess að lækka langlínugjöldin og fækka gjaldflokkum niður í 3 eða 4 taxta. Innan heimastöðvasvæða er að færast í vöxt að nota sjálfvirka símakerfið til ýmiss konar flutninga eftir símalínum, m. a. á textum og myndum. Slíka notkun er nauðsynlegt að gjaldfæra samkv. tímalengd til þess að forðast misnotkun í þessu efni.

Þessar upplýsingar eru byggðar á gögnum frá Póst- og símamálastofnuninni.