22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5236 í B-deild Alþingistíðinda. (4608)

116. mál, endurskoðun meiðyrðalöggjafar

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég á sæti í hv. allshn. og skrifa undir þetta nál. þar sem mælt er með samþykkt þeirrar till., að endurskoðun meiðyrðalöggjafar fari fram. En ég tel nauðsynlegt að gera grein fyrir afstöðu minni til að koma í veg fyrir hugsanlegan misskilning um það, að ég sé með þessu að taka undir þá röksemdafærslu, sem fram kemur í grg. með nefndri till. til þál., eða taka undir þau ummæli, sem fram komu í ræðu frsm. með þessu máli á sínum tíma. Bæði í grg. og í framsögunni var vísað til svokallaðra VL - málaferla sem forsendu fyrir því, að nauðsynlegt væri að endurskoða löggjöf um ærumeiðingar. Eins og allir vita eru tildrög þeirra mála þau, að vegna einarðrar og afdráttarlausrar skoðunar nokkurra manna á varnarmálum og öryggismálum og forustu þeirra í því að efna til undirskriftasöfnunar voru þeir bornir svívirðingum, fúkyrðum og jafnvel landráðum með svo blygðunarlausum hætti að fá dæmi eru til um slíkt hér á landi. Þessir menn áttu ekki annarra kosta völ til þess að verja æru sína en að höfða mál til að fá ummæli í þeirra garð dæmd dauð og ómerk. Þetta svokallaða VL-mál er því engan veginn tilefni til þess að endurskoða löggjöf um ærumeiðingar. Það mál er þó e. t. v. frekar til þess fallið að vekja upp umr. um æruna sem slíka og reyna þá að haga löggjöf þannig að hver sem er geti ekki svívirt æru annarra manna. Löggjöfin og siðgæðisverðir þjóðarinnar eiga miklu fremur að vernda æru en að tala um að breyta löggjöf til þess að auðvelda ómerkilegum og lítilsigldum blöðum eða einstaklingum að svipta menn æru fyrir litlar sem engar sakir.

Í framsögu með þessari till. tók hv. flm., Svava Jakobsdóttir, þannig til orða, að tjáningarfrelsi ætti að sitja í fyrirrúmi og smásmuguleg vernd ærunnar ætti að víkja. Þessum ummælum hafna ég algerlega. Tjáningarfrelsið er varið samkv. stjórnarskrá, en menn verða auðvitað að vera ábyrgir orða sinna. Ég vil fyrir mitt leyti standa vörð um æru manna, því að hún er jafnmikilvæg og tjáningarfrelsið. Í þessu sambandi, herra forseti, vil ég vitna til þess, að í þál., sem samþ. hefur verið hér á hinu háa Alþingi um aðild Íslands að alþjóðasamningum um mannréttindi segir svo í 19. gr.

„Allir skulu eiga rétt á að ráða skoðunum sínum afskiptalaust.

Allir skulu eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar. Í þessum rétti felst frelsi til þess að leita, taka við og miðla alls konar vitneskju og hugmyndum án tillits til landamæra, annaðhvort munnlega, skriflega eða á prenti, í formi lista eða eftir hverjum öðrum leiðum að þeirra vali.“

Og síðan segir í þessari grein:

„Sérstakar skyldur og ábyrgð felast í því að nota sér réttindi þau sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar. Því má takmarka þessi réttindi að vissu marki en þó aðeins að því marki sem mælt er í lögum og er nauðsynlegt:, til þess að virða réttindi eða mannorð annarra; til þess að vernda þjóðaröryggi eða allsherjarreglu, eða heilbrigði almennings eða siðgæði.“

Þessi grein er eins í mannréttindasáttmála Evrópuráðsins. Ég vil leggja áherslu á það, að verði um endurskoðun á meiðyrðalöggjöf er að ræða nú hér á landi, þá á hún að felast í því að hafa þessi grundvallaratriði í heiðri.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti, til þess að fyrirbyggja allan misskilning um það, að ég skrifi undir samþykkt á þessari till. með þeim rökstuðningi sem fram kemur í grg. eða framsögu, eins og ég gat um áðan.