22.05.1979
Efri deild: 114. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5263 í B-deild Alþingistíðinda. (4648)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður í þessu máli nú að sinni. Þetta mál var mjög vel rætt í Nd. og ekki alltaf af þeim sama skilningi og lýsti sér í ræðu síðasta ræðumanns. Ég þakka honum alveg sérstaklega fyrir þær undirtektir og þær yfirlýsingar sem hann gaf í þessum ræðustól áðan. Ég átti raunar ekki við nema góðu að búast af þeim hv. þm.

Ég vil aðeins geta um smávægileg atriði sem hv. þm. talaði hér um. Hann bjóst við að menn væru ekki ginnkeyptir fyrir eignarnámi, og það er alveg hárrétt. Það er vissulega enginn ginnkeyptur fyrir eignarnámi. Þess vegna fóru þeir aðilar, sem biðja nú um eignarnám, út á þessa braut fyrir rúmu ári, að þeir sáu enga aðra leið. Þeir sáu ekki möguleika á að ganga að þeim þá mjög svo háu kröfum sem eigendur hversins gerðu. Þær hafa lækkað síðan, en samt þykja þær mjög svo óaðgengilegar, og er þá fyrst og fremst miðað við það sem annars staðar hefur verið gengið til móts við neytendur heits vatns, og heyri ég þá sérstaklega talað um Hitaveitu Suðurnesja. Árið 1976 munu þessir aðilar frá Akranesi og Borgarnesi hafa gert tilboð sem svaraði nokkurn veginn til þeirra kjara sem leiddu til samkomulags með Hitaveitu Suðurnesja og eigendum heitavatnsréttinda þar, ef miðað var við sölu vatnsins þegar það var komið heim til neytenda á dreifingarstað. En því miður tókst ekki að ná samkomulagi. Núna stendur til eignarnám, en ég vona og allir vona að menn komist samt að samkomulagi, a. m. k. um það að hlíta réttlátri gerð, réttlátum gerðardómi um það, hversu mikið þarf að greiða fyrir þessi hlunnindi. Því hefur verið lýst hér áður, að það er ákveðin skoðun Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar að hlutur Reykholtsdalshrepps skuli hvergi líða fyrir töku þessa vatns, og hreppnum hefur verið boðin þátttaka í þessu fyrirtæki. Hreppurinn óskaði ekki að verða þátttakandi, en ég býst við að það boð standi áfram. Mér eins og fleirum var það mikið kappsmál að þarna yrðu ekki átök, og ég mun sem starfsmaður í þessu héraði beita mér fyrir öllum þeim sættum sem ég get, svo að þetta fyrirtæki og íbúar Reykholtsdals og Flókadals, sem skrifuðu undir mjög harðorð mótmæli, geti báðir verið vinir og bræður við framkvæmd þessa máls.