14.11.1978
Sameinað þing: 19. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

54. mál, fjárlög 1979

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Allajafna eru fjárlagaumr. með líku sniði á hverju ári. Í rauninni er ekki að sjá að miklu máli skipti hvaða flokkar eiga hlut að máli í stjórn eða stjórnarandstöðu, því að svipuðum rökum er oftast beitt með og móti hver sem í hlut á. Stjórnarsinnar telja venjulega fjárlagafrv. innan skynsamlegra marka, lofa að stilla framkvæmdum í hóf, gæta aðhalds í ríkisrekstri o.s.frv. Stjórnarandstaða býsnast á hinn bóginn yfir stórhækkuðum framlögum milli ára, gagnrýnir skattastefnu og bendir á einstaka liði í frv., sem hvergi duga til að mæta þeim óskum eða brýnu þörfum, sem fyrir eru. Kjósendum kann að þykja þetta tilbreytingarlaus söngur og innantómur, alvörulítill leikur æfðra stjórnmálamanna, þar sem þeir tileinka sér rök hver annars eftir því hvorum megin borðs þeir sitja.

Í sjálfu sér er ekki hægt að áfellast þm. fyrir þau hefðbundnu skoðanaskipti, sem fram fara yfirleitt við fjárlagaumr., og það er vissulega hlutverk stjórnarandstöðu að benda á veilur í frv. og veita stjórnvöldum aðhald. Hitt má benda á, að blæbrigði virðast ekki vera mjög mikil á fjárlögum frá einu ári til annars og almennt talað virðast stjórnmálamenn eða þingið ekki hafa vald á umtalsverðum breytingum við fjárlagagerð. Báknið veltur áfram og litlu er unnt að þoka til í rekstrarútgjöldum, mannahaldi og þeirri umfangsmiklu yfirbyggingu sem við höfum smám saman verið að reisa.

Allar ríkisstjórnir, hvort heldur til hægri eða vinstri, lýsa yfir góðum hug til að ráðast gegn útþenslu ríkisgeirans og gæta aðhalds í ríkisrekstri. En flestum hefur meira og minna mistekist í þessari viðleitni og kemur þar margt til: samningsbundnar hækkanir á launum og verðlagi og víxlverkanir þar á milli, fastráðið starfslið, hagsmunir og þarfir einstakra hópa eða byggðarlaga og þrekleysi kjörinna stjórnmálamanna til að setja hnefann í borðið og segja nei framan í hv. kjósendur. Þetta kemur fram í ýmsum myndum. Rauða línan t.d. í þessu frv., sem hér er til umr., er þessi setning: „Hækkanir stafa af eðlilegum launa- og verðlagshækkunum.“ Þessi setning er gegnumgangandi í allri grg. með þessu frv.

Þm. fara mörgum orðum um það hér í ræðustólnum, að gæta þurfi aðhalds, en á sama tíma eru þeir velflestir að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna og beita sér fyrir hækkunum á margvíslegum framkvæmdum og rekstri sem þessa umbjóðendur þeirra varða. Almennt talað er fjárlagagerðin mjög gölluð að því leyti, að verið er að gera allt í einu, en fæstu lokið. Fjármunir standa bundnir og óarðbærir í hálfbyggðum mannvirkjum um land allt og kerfið allt er svifaseint, en umsvif ríkisins verða sífellt meiri þrátt fyrir þá óumdeilanlegu staðreynd, að flest verk séu verr og óhagkvæmar unnin þegar opinberir aðilar eru annars vegar.

Enda þótt fjárlagaumr. hafi á sér hið hefðbundna yfirbragð nú, þá geta flestir viðurkennt að hún er að ýmsu leyti óvenjuleg í þetta skipti. Fjárlagafrv. sjálft er lagt fram með fleiri fyrirvörum en dæmi eru til um áður. Í öðru lagi er bersýnilegt, að langt er enn í land með að þeir flokkar, sem standa að ríkisstjórn, séu sammála um hin veigamestu atriði. Og í þriðja lagi blasir nú við allt að 14% launahækkun um næstu mánaðamót, sem mun hafa gífurleg áhrif á fjárlagagerðina ef ekki koma til róttækar ráðstafanir. Öll þessi atriði tengjast efnahagsþróuninni á næstu mánuðum og munu reyndar hafa úrslitaáhrif á efnahagsmálin eftir því hvað til bragðs verður tekið.

Alvarlegasta málið er þó að frv. markar hvorki heildarstefnu né sameiginlega stefnu í efnahags- og fjármálum ríkisins. Þetta er auðvitað hrikaleg staðreynd sem verður ljós við lestur frv. og hefur enn betur verið staðfest í umr. í dag. Þau tíðindi gerðust við umr. hér seinni part dags, að fulltrúar tveggja stjórnarflokkanna lýstu margföldum og veigamiklum fyrirvörum um stærstu þætti þessa fjárlagafrv. Annar þessara talsmanna stjórnarflokkanna, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, lýsti reyndar algerri andstöðu sinni við meginforsendur frv. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson bað okkur í stjórnarandstöðunni um að hlakka ekki yfir því, þótt þessi ágreiningur kæmi fram og fyrirvarar væru settir, og ég skal upplýsa það, að í mínum huga er enginn hlátur yfir þeirri ömurlegu staðreynd að engin samstaða sé um efnahagsaðgerðir á næstunni. Við í stjórnarandstöðunni hörmum það hins vegar, að til valda er komin ríkisstj. sem hefur ekki getað komið sér saman í grundvallaratriðum og hefur ekki minnstu stefnu um það sem á næsta leiti er.

Það gekk á mjög mörgu, þegar þetta stjfrv. var í undirbúningi. Talað var um að hafa víðtækt samstarf við verkalýðshreyfinguna, og þetta frv. var kynnt sem stjfrv. og lögð mikil áhersla á það, m.a. á blaðamannafundi sem hæstv. fjmrh. hélt, að þetta væri frv. allrar ríkisstj. Nú er hins vegar spurningin sú, hvort það sé í samræmi við vilja launþegahreyfingarinnar, sem víðtæk samstaða er höfð við, að hækka skuli það sem kallað er launamannaskattur með réttu, hvort það sé með vilja verkalýðshreyfingarinnar að dregið sé úr framlögum til Byggingarsjóðs. Og skyldi það vera í samræmi við stefnu verkalýðshreyfingarinnar, að dregið sé stórlega úr framlögum til félagslegra framkvæmda?

Það var upplýst í dag, að hæstv. fjmrh. hefði ekki samþykkt þær óskir Alþfl. og Alþb. að leggja fram óbreytt það frv. sem undirbúið hafði verið af hálfu fyrri ríkisstj., heldur sjálfur viljað hafa áhrif á gerð þessa frv., setja sinn svip á frv. og þá um leið marka meginstefnu ríkisstj. í efnahagsmálum með framlagningu þess. Nú kemur hins vegar í ljós við þessa umr., að það er enginn stuðningur við þessa meginstefnu sem frv. er að myndast við að móta. Hæstv. ráðh. er sannarlega ekki öfundsverður af því að sitja undir þeim hótunum og þeim yfirlýsingum, sem gefnar voru hér í dag af hálfu samstarfsmanna hans í ríkisstj.

Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni í dag, með leyfi forseta:

Ríkisstj. leggur í þeim efnum“ — þ.e.a.s. í verðbólguviðnáminu — „höfuðáherslu á þrennt: að dregið verði úr sjálfvirkum verðbólgugangi vísitölukerfisins og mörkuð skynsamleg launamálastefna, sem treysti hæstan mögulegan kaupmátt launa án þess að ofbjóða atvinnulífinu og efnahagskerfinu; að dregið verði úr fjárfestingu í heild og henni beint að framleiðniaukandi verkefnum, að ríkisfjármálin verki sem hemill á verðþensluna.“

Þetta skil ég að hafi verið megininntak ræðu hæstv. ráðh., enda voru þessi ummæli hans sérstaklega undirstrikuð í ræðunni þegar henni er útbýtt meðal þm. En við skulum athuga þessi þrjú atriði örlítið nánar.

Ráðh. telur að draga skuli úr víxlverkunum kaups og verðlags, og það hefur verið gert með bráðabirgðaráðstöfunum og á samkv. þessu frv. að gera áfram næsta ár. Þetta er auðvitað ein meginforsendan í þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. greip til. En er nú samkomulag um þetta milli stjórnarflokkanna? Heldur betur ekki. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur miklar áhyggjur af því, ef dregið skuli úr þessum niðurgreiðslum, en á sama tíma lýsir hv. þm. Sighvatur Björgvinsson yfir, að þm. Alþfl. muni greiða atkv. gegn áframhaldandi niðurgreiðslum í þessum mæli.

Hæstv. ráðh. vill draga úr fjárfestingu, en að svo miklu leyti sem hún á sér stað skal beina henni að framleiðniaukandi verkefnum. Þessi stefna er að vísu ekki ný. Hún er framhald á stefnu fyrri ríkisstj., enda þótt þáv. stjórnarandstaða hafi mjög gagnrýnt hana. Magnminnkun verklegra framkvæmda samkv. þessu frv. er hlutfallslega sú sama og átti sér stað samkv. síðustu fjárl. En nú kemur Alþb. og lýsir því yfir, að það telji þessa stefnu fráleita, telur fráleitt, að þessi magnminnkun eigi sér stað, og telur, að auka beri verklegar framkvæmdir og fjárfestingar. Á sama tíma lýsir Alþfl. því yfir í þeirri ræðu, sem hv, þm. Sighvatur Björgvinsson flutti hér í dag, að hér sé hvergi nærri nógu langt gengið. M.ö.o.: um þessi tvö atriði, um viðnámið gegn verðbólgunni með því að draga úr víxlverkunum og það að draga úr fjárfestingunni, er engin minnsta samstaða.

Þriðja atriðið hjá hæstv. ráðh. var, að ríkisfjármálin ættu að verka sem hemill á verðþensluna. En hvernig getur það farið saman að hafa þetta meginmarkmið, en hækka þó fjárlög vel umfram það sem verðbólgunni nemur, og hvernig getur það farið saman við þá staðreynd, að öll ríkisútgjöld til rekstrar stórhækka án nokkurs viðnáms?

Reyndar er meginþráðurinn í frv., að rekstrargjöld hækka sjálfkrafa einmitt vegna launa- og verðlagshækkana. Frv. hækkar t.d. vegna launa og launatengdra gjalda um 10 milljarða. Skyldi nú einhver halda að ef það væri stefna ríkisstj, að láta fjárlög verka sem hemil á verðþensluna, þá reyndi hún að halda aftur af þessum kaupgjaldshækkunum. Það er hárrétt, sem fram kom í máli síðasta ræðumanns, að það er auðvitað sparðatíningur hinn mesti að vera sífellt að krukka í verklegar framkvæmdir og fjárfestingar, sem eru tiltölulega lítill hluti af fjárlagadæminu öllu, á sama tíma sem enginn minnsti hemill er hafður á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs. Ef einhver stefna er í þessu frv., þá er sú meginstefnan að taka fullt tillit til allra launa- og verðlagshækkana og hækka allar fjárveitingar til ríkisfyrirtækja, ríkisstofnana og rn. í fullu samræmi við þessar hækkanir.

Af því, sem að framan er rakið, og með hliðsjón af þessum þremur mikilvægu atriðum, sem hæstv. ráðh. taldi upp, er ljóst af þeim ræðum, sem voru fluttar hér í dag, að það er enginn stuðningur við þessi meginmarkmið ráðh. Ríkisstj. greip til bráðabirgðaráðstafana í sept. s.l. Meginatriði þeirra ráðstafana voru þau að hækka niðurgreiðslur til að mæta kauphækkunum og leggja á aukna skatta til að standa undir niðurgreiðslunum. Samkv. þessu frv. er stefnt að því, að ríkisstj. haldi áfram á þessari braut. En við þá umr., sem nú fer fram, hefur komið í ljós að gegn þessari stefnu er mjög sterk andstaða. Hún er svo sterk, að formaður þingflokks Alþfl. lýsir yfir því, að flokkur hans muni greiða atkv. gegn auknum sköttum og áframhaldandi niðurgreiðslum. Þm. lýsir því réttilega, að frv. gangi lengra en bráðabirgðaráðstafanirnar frá því í sept. varðandi niðurgreiðslur og skattahækkanir. Þetta allt hefur hæstv. fjmrh. verið ljóst frá því áður en frv. var lagt fram, samkv. upplýsingum sem fram komu í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Alþfl. mun hafa tilkynnt ráðh. það mjög skilmerkilega áður en frv. var lagt fram, að hann gæti ekki sætt sig við þá meginstefnu frv. að halda áfram niðurgreiðslum og leggja áherslu á aukna skatta. Þrátt fyrir þetta leyfir hæstv. ráðh. sér að kynna þetta frv. sem stjfrv. og það er lagt fram sem slíkt. Nú er erfitt að segja til um það, hvort formaður þingflokks Alþfl. talar fyrir munn allra meðlima þingflokksins, hvort hann talar fyrir munn ráðh., en erfitt hlýtur að vera fyrir hæstv. ráðh. Alþfl. að sitja undir þessum ummælum, hvort heldur sem við lítum til ummæla hæstv. fjmrh. eða ummæla formanns þingflokks Alþfl.

Það kom hv. þm. Pálma Jónssyni nokkuð á óvart, að ræða hv. þm. Sighvats Björgvinssonar stangaðist á við ræðu hv. þm. Finns Torfa Stefánssonar fyrir nokkrum dögum. Það er vissulega rétt hjá honum, að mikið misræmi er í þessum ræðuflutningi. Annars vegar er því lýst yfir, að ráðstafanir ríkisstj. frá því í sept. séu í fullu samræmi við stefnu Alþfl. og séu í samræmi við þann kjarasáttmála sem Alþfl. hafi beitt sér fyrir. Hins vegar koma svo fram þær yfirlýsingar frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, sem ég hef verið að rekja hér. Kannske skýringin sé sú, sem gefin var í Alþýðublaðinu í frásögn af ræðu einhvers Alþfl.-manns á flokksþingi þeirra um helgina, að þingflokkurinn sé bandalag einstaklinga, sem flotið hafi inn á Alþ. í þeim mikla kosningasigri sem flokkurinn vann s.l. vor.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur í umr. fyrr í vetur lýst eftir efnahagsstefnu Alþfl. Það er slæmt að hv. þm. skuli ekki vera viðstaddur nú, en hann hefur áreiðanlega gert sér grein fyrir því eins og ég, að þessi stefna er nú komin fram. Hún kom fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Stefna Alþfl. er sem sagt sú að vera á móti þeim meginþáttum sem þetta fjárlagafrv. byggist á. Nú er það aftur kapítuli út af fyrir sig, hvernig framkoma og afstaða Alþfl. hefur verið í þessum málum. Flokkur getur auðvitað ekki hagað sér svo, að lýsa yfir stefnu fyrir kosningar, en ganga svo til stjórnarsamstarfs á allt öðrum grundvelli og halda þá kokhraustar ræður hér í þinginu um að þeir séu á móti þeim ráðstöfunum sem líf þessarar ríkisstj. byggist á. Svona tala menn ekki ef þeir ætla að virða siðgæðisformúlur Alþfl. Þaðan af síður getur nokkur maður tekið mark á því, þegar vitnað er til þess, að fluttar séu hér í þinginu till. um breytta stefnu í vaxta-, landbúnaðar- og skattamálum. Það var sem sagt einhvers konar yfirklór og afsökun, — sjálfsagt gagnvart kjósendum Alþfl., af því að þeir voru nýkomnir út úr kosningum eins og þm. tók til orða, — það átti að vera einhver afsökun að þessi flokkur hafi lagt fram þáltill. um þessi mál og jafnvel frv. Og þessi frv. ganga þvert á stefnu þá sem fram kemur í þessu fjárlagafrv.! Hvernig ætlar þessi flokkur, sem sigraði í kosningunum, að standa undir því að gefa kokhraustar yfirlýsingar í fjárlagaumr. og vísa svo til þess, að hann sé með till. í Sþ. sem hann ætlist til að séu samþykktar? Eða ætlar hann kannske að láta þetta frv. fara í gegn svona eftir þessar yfirlýsingar og ætlast svo til þess, að samstarfsmenn þeirra eða þá stjórnarandstaðan hjálpi þeim til þess að koma hinum till. og frv. í gegn síðar í vetur? Það væri kannske eftir öðru. En ég mun koma betur að þessari framkomu Alþfl. aðeins síðar.

Meðan ekkert er upplýst um frekari aðgerðir og meðan stjórnarflokkarnir þrír lýsa opinberlega ósætti sínu um nokkrar eða allar leiðir, þá er auðvitað erfitt fyrir stjórnarandstöðuna að leggja mat á efnahagsstefnu ríkisstj. Í raun og veru hlýtur stjórnarandstaðan að túlka þá skoðun allra skynsamra kjósenda, hvort heldur þeir fylgja þessari ríkisstj. eða ekki, að það sé hámark getuleysis og vesaldóms einnar ríkisstj. að hafa enga markaða efnahagsstefnu eða sameiginlega skoðun á næstu lágmarksaðgerðum. Þetta sannar auðvitað þær staðhæfingar stjórnarandstöðunnar, að þessi ríkisstj. er sett saman af valdagræðgi frekar en skoðunum, og það er fleira, sem sundrar og skilur á milli hjá stjórnarflokkunum heldur en sameinar þá í ríkisstjórn. (StJ: Þetta er nú of mikið sagt.) Það skaltu afsanna með því að koma hingað upp í ræðustólinn, hv. þm. Stefán Jónsson.

Ég get auðvitað rakið óteljandi dæmi úr þessu frv., sem sýna ýmist hug stjórnarinnar til viðkomandi málefna eða eru bein svik við gefin loforð undanfarin ár. Það hefur verið upplýst í umr., að hæstv, fjmrh. hafi umfram allt viljað setja svip sinn á þetta frv., hafi ekki tekið í mál að flytja frv. sem undirbúið hafði verið af fyrri stjórn. Hann hefur sjálfsagt viljað koma fram sínum stefnumálum. Því verður að skoða frv, með hliðsjón af þessum upplýsingum.

Ég get með hliðsjón af því tíundað hvernig hæstv. fjmrh. gerir skipulega tilraun til þess að halda hækkunum niðri með því að setja inn í frv. óbreyttar tölur frá fyrra ári í velflestum félagsmálaliðum frv. Menningarmál, íþróttamál og æskulýðstarfsemi hafa greinilega ekki átt upp á pallborðið hjá ráðh. þegar þetta frv. var sett saman, þó hann hafi greinilega endurskoðað afstöðu sína, a.m.k. til íþróttamála, í millitíðinni. Sumir liðir hafa hækkað til málamynda, en aðrir ekki, og erfitt er að sjá hvort ætlast er til að mark eigi að taka á þessum till. eða hvort ráðh. ætlast til þess, að þingið taki ákvarðanir um eitt og annað meðan hann og stjórnin taka afstöðu til annarra atriða og eru að útkljá deilumál sín og ágreiningsmál. Flest þessara mála er þó þess eðlis að bæta má í meðförum þingsins, þótt það sé lærdómsríkt út af fyrir sig fyrir þrýstihópana og kröfugerðarmennina, sem s.l. fjögur ár hafa deilt stanslaust á fráfarandi stjórn og vildu hana feiga vegna þess að hún væri menningarfjandsamleg og andfélagsleg: námsmenn sem hafa barist fyrir hækkuðum námslánum, rauðsokkar sem hafa krafist hærri fjárveitinga til dagvistarstofnana, menningarvitar sem hneykslast hafa á lágum fjárveitingum til menningarmála, vinstri sinnaðir skólamenn sem hafa fullyrt að menntamál hafi verið vanrækt o.s.frv., o.s.frv. Hér hefur verið bent á við þessar umr. að milljarða vantar upp á til skólamannvirkja, heilbrigðismála o.s.frv., o.s.frv.

Af þessu frv. mátti marka að íþróttahreyfingin var ekki virt viðlits, vegna þess að framlög til Íþróttasjóðs Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands voru nákvæmlega hin sömu í krónutölu og í fjárl. þessa árs. Nú hefur hæstv. ráðh. gefið mjög athyglisverða og drengilega yfirlýsingu um að fjvn. eigi að taka það til sérstakrar athugunar að hækka þessar fjárveitingar mjög ríflega. Ég fagna mjög þessari yfirlýsingu. Hún er því athyglisverðari vegna þess, að þetta voru nánast einustu tilmælin sem fjvn. fékk frá hæstv. ráðh. Ég átti reyndar von á því að hæstv. ráðh. hefði skilning á þessum málaflokki — hann er íþróttamálum kunnugur — og mér kom mjög á óvart og ég varð fyrir miklum vonbrigðum að sjá að hann hafði ekki beitt sér fyrir því sem ráðh. að hækka þessa liði. En núna hefur hann gefið grænt ljós á það, að fjvn. sinni þessu með myndarlegum hætti, og ég treysti því, að hann hafi áhrif á samstarfsmenn sína a.m.k. í þessu máli, svo að þeir verði við óskum hans. — En þetta var hliðarspor. Því miður er meginsvipurinn og meginstaðreyndin sú, að á félagsmálaliðnum, menningarmálaliðnum og öllu sem að því víkur eru nánast engar breytingar, engar hækkanir. Stefnubreyting hefur ekki komið fram — nema síður sé — við framlagningu þessa frv.

Fjárlagafrv. staðfestir viljaleysi og merkingarleysi þeirra slagorða, sem uppi voru höfð í stjórnarandstöðu þessara flokka, sem gagnrýndu fráfarandi ríkisstj., að þeir vildu sinna menningarlegum og félagslegum verkefnum meira en gert hefur verið. Hvað gert verður í meðförum þingsins er annað mál og kemur í ljós við lokaafgreiðslu þessa frv., en víst er að það verður í öllum aðalatriðum ekki fyrir forgöngu ríkisstj.

Í seinni tíð hafa einstaka stjórnmálamenn og jafnvel heilir stjórnmálaflokkar talið sig kallaða til að efla siðgæðið í landinu. Þar hefur legið mikið við og í þeim efnum hefur fáum verið hlíft og allra síst pólitískum samherjum. Nú virðist siðgæðishugmyndum deilt niður samkv. kenningum þessara manna eftir því, hvar í flokki fólk stendur. Þannig þótti það ein helsta forsenda fyrir því að koma þurfti fráfarandi stjórn frá, að hún héldi hlífiskildi yfir siðspillingu hvers konar, neðanjarðarhagkerfi, braski, pólitískri samtryggingu o.s.frv. Versta sökin átti þó að liggja í þeim tvískinnungi, sem á að hafa einkennt stjórnmálamennina af gamla skólanum, að segja eitt, en framkvæma annað, að lofa kjósendum fyrir kosningar, en svíkja þá eftir kosningar. (Gripið fram í.) Þetta skyldi þó aldrei henda hinar nýju siðgæðishetjur. Við skulum athuga það aðeins nánar.

Við þessa fjárlagaafgreiðslu er fyrst og fremst tvennt til umr.: frv. sjálft og efnahagsráðstafanir ríkisstj., ef ráðstafanir skyldi kalla. En auðvitað tengist þetta tvennt og þetta eru langsamlega stærstu viðfangsefni stjórnmálanna í dag. Helsta krafa fyrrv. stjórnarandstöðuflokka, Alþfl. og Alþb., var að taka kjarasamningana í gildi. Það var hámark siðleysis að brjóta samninga og fella þá úr gildi. Í fyrstu eftir að þessi ríkisstj. settist að völdum voru kjarasamningar að einhverju leyti tekur aftur í gildi, en hvergi þó að öllu leyti, eins og margoft hefur verið sannað og staðfest, m.a. í ræðu hæstv. ráðh. í dag. En að svo miklu leyti sem það var gert, að taka samningana í gildi, var gripið til þess ráðs að auka niðurgreiðslur og fella niður söluskatt og það tekjutap bætt upp með því að seilast í vasa þess fólks sem átti að njóta góðs af gildandi samningum, með aukinni og hertri skattheimtu. Getur þetta kallast siðleg framkoma? Svari því hver sem vill. Skyldi þetta vera heiðarlegt gagnvart kjósendum sem höfðu fengið loforð um að ekki yrði tekið upp úr einum vasanum það sem sett var í hinn?

Hvers vegna var gripið til þess að hækka tekjuskattana? Það var vitaskuld af því að þeir eru ekki í vísitölunni. Vísitalan á að vera hlutlaus mælikvarði á framfærslukostnað almennings. Það breytir auðvitað engu, hvort skattarnir eru í vísitölunni eða ekki, fyrir þann sem þarf að greiða þá. Kostnaðarbyrði hans og fjölskyldu hans vex sem því nemur. Eigið fé til framfærslu sér og sínum minnkar sem nemur aukinni skattbyrði. Þetta er auðvitað alveg ljóst. Það er hugsanlega löglegt og tölfræðilega rétt reiknað að fá þá útkomu hjá Hagstofunni, að skattalækkun hafi ekki áhrif á framleiðsluna, af því að slíkt er ekki í vísitölunni, en ekki hefði þetta verið talið mjög siðlegt eða heiðarlegt á máli siðgæðispostula fyrir kosningar.

Alþfl. átti sér mjög stór baráttumál í þessari kosningabaráttu. Annað var að afnema eða a.m.k. lækka mjög verulega niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum. Annað er heldur en ekki uppi á teningnum í þessu frv. Nú eru þessar niðurgreiðslur áætlaðar 20 milljarðar á næsta ári. Hitt baráttumálið var að afnema tekjuskatt af öllum almennum launatekjum. Hvað segir í fjárlagafrv. um það? Tekjur ríkissjóðs hækka af beinum sköttum úr 18% í 22%. Auðvitað eru þessir skattar í langmestum mæli teknir af almennum launatekjum almennings. Þetta er launamannaskattur, eins og réttilega var orðað í dag. Með þessari skattheimtu er hvort tveggja gert að leggja tekjuskattsviðauka á allan almenning, sem hefur miðlungstekjur eða meira, og svo hitt, að skattvísitölunni er vísvitandi haldið niðri og langt fyrir neðan það mark sem almennar launatekjur og framfærslukostnaður segja til um. Gert er ráð fyrir í þessu frv. að skattvísitalan verði 143 stig, á sama tíma sem upplýst er að verðbólgan nemur a.m.k. 50%. Skyldu nú slík kosningaloforð kallast siðleg þegar þau koma fram í dagsljósið og efndirnar sjást?

Nú hafa þeir Alþfl.-menn stór orð um, að hverfa skuli af þessari braut, og hafa í hótunum við hina flokkana. Óánægja þeirra sannar fyrst og fremst að þeir hafa engu ráðið um gerð þessa frv. Hitt er aftur spennandi, að fylgjast með því, hversu mikið mark verður tekið á þessum yfirlýsingum sigurvegaranna þegar til kastanna kemur. Kjósendur munu taka eftir því, og þá munu siðgæðishugmyndirnar, sem boðaðar voru fyrir kosningar, enn vera í fersku minni. Svo er líka annað meginatriði í þessu spjalli mínu um það sem hafði mikil áhrif í kosningunum. Við skulum ekkert draga fjöður yfir það, að sá áróður, sem hefur verið rekinn hér af hálfu þeirra Alþfl.-manna, hafði áhrif í kosningunum. Það er auðvitað mikil ábyrgð fyrir þessa ungu þm., sem hingað eru komnir eftir að hafa aflað fylgis með þessum hætti, mikil ábyrgð sem fylgir því að standa við allar þessar yfirlýsingar fyrir kosningar. En þessi flokkur, Alþfl., getur auðvitað ekki staðið að myndun ríkisstj., sem grípur til ráðstafana sem fela í sér auknar niðurgreiðslur og hækkun skatta, og sagt svo á eftir: Við erum á móti þessu. — Þessi flokkur getur auðvitað ekki staðið að framlagningu fjárlagafrv. sem stjfrv. og sagt svo á sama tíma: Ja, við erum með þáltill. og frv. um að breyta til í þessum efnum. — Þetta hefði einhvern tíma verið kallað yfirklór og tvískinnungur í meira lagi.

Það er að sjálfsögðu af mörgu að taka í þessu fjárlagafrv., sem gagnrýna má, og margt, sem mætti gera aths. við í þeim ræðum sem hér voru fluttar í dag, einkum og sér í lagi í ræðu hæstv. ráðh. Ég skal þó ekki fara mörgum orðum um einstök atriði. Hér hafa aðrir talsmenn Sjálfstfl. gert þau mörg hver að umtalsefni.

Ég vil þó að eins nefna jöfnunargjaldið. Í fyrra var lagt sérstakt gjald á innfluttar iðnaðarvörur í þeim tilgangi að efla iðnaðinn og bæta stöðu hans. Þetta gjald hefur núna einfaldlega verið tekið inn í ríkisframlögin og sjálfsögð og eðlileg framlög af hálfu ríkissjóðs hafa verið lækkuð sem nemur þessu jöfnunargjaldi með einni undantekningu. Þessi aðferð er, að ég vil segja, jafnvel fyrir neðan virðingu núv. hæstv. ráðh.

Leikurinn með Byggðasjóð er ákaflega forvitnilegur. Skiljanlegt er að þær breytingar, sem gerðar eru á framlögum til Byggðasjóðs, verki illa á þá sem barist hafa fyrir byggðastefnu árum saman. Ég mun út af fyrir sig ekki setja fram efnislega gagnrýni á þessa tilhögun. En það verður þó að segja eins og er, að þarna er verið að fara í kringum tilgang laganna og bregðast því trausti, sem lagt var á þá sem hingað til hafa þóst berjast fyrir byggðastefnu, með því að taka hluta af fjárframlagi Byggðasjóðs til ákveðinna verka, þ.e.a.s. til vegamála, og skerða þannig það ráðstöfunarfé sem sjóðurinn á að hafa.

Þá er vert að vekja enn einu sinni athygli á því, að þrátt fyrir að ríkisstj. hafi skorið 10% af öllum framkvæmdasjóðum og hyggist leggja fram frv. í framhaldi af því á næstu vikum, þá er síður en svo að þetta 10% minnkandi framlag til framkvæmdasjóðanna hverfi út, heldur fer það einfaldlega til ríkissjóðs beint, fer í hítina og er notað til þess að greiða stóraukinn kostnað af rekstri ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana. Alvarlegasta málið varðandi niðurskurðinn á framkvæmdasjóðunum er auðvitað að framlag til Byggingarsjóðsins er skert um rúmlega 600 millj. kr. Þarna er um að ræða hluta af launaskattinum sem greiddur hefur verið og auðvitað verður greiddur áfram. Um þetta var gott samkomulag á sínum tíma, m.a. við verkalýðshreyfinguna, að þennan skatt skyldi greiða til þess að efla Byggingarsjóðinn. Nú hefur þessi ríkisstj. hinna félagslegu hugsjóna, félagshyggjunnar, tekið þá einhliða ákvörðun, kannske þó í samráði og víðtæku samstarfi við launþegahreyfinguna, að skerða hlut Byggingarsjóðs og láta þessar 600 millj. — rúmlega þó — renna beint í ríkissjóð. Ekki er þetta þó í samræmi við þá stefnu sem boðuð hefur verið, m.a. af hæstv. félmrh., um eflingu Byggingarsjóðsins.

Í frv. má sjá lækkun á framlagi til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, lækkun til Byggingarsjóðs verkamanna, lækkun til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Fjárveiting til Styrktarsjóðs vangefinna stendur í stað og nú er gengið út frá því eins og það sé sjálfsagt, að sjúklingar skuli taka aukinn þátt í lyfjakostnaði og sérfræðingaaðstoð. Það gekk ekki svo lítið á þegar fráfarandi ríkisstj. hugðist fara þá leið að láta sjúklinga í vissum tilfellum taka þátt í greiðslu á lyfjakostnaði. En nú eru málsvarar hinna minni máttar og félagshyggjunnar hvergi sjáanlegir og ekki er annað að heyra en það sé fullt samkomulag um þessa ráðstöfun hjá stjórnarflokkunum.a.m.k. hafa talsmenn Alþfl. og Alþb. ekki séð ástæðu til þess að hreyfa aths. við þessa ákvörðun.

Herra forseti. Yfir öllu þessu vofir verðbólgudraugurinn, hrikalegri og bólgnari en nokkru sinni fyrr. Verðbólgan er auðvitað mál málanna. Við skulum láta liggja milli hluta af hvaða völdum hún vex eða hverjum sé um að kenna, en ég leyfi mér að fullyrða að það er sennilega og því miður gleggsta veikleikamerki þingræðis og þingkjörinna stjórna, hversu illa og lítið stjórnmálamönnum hefur gengið að ráða við verðbólgudrauginn. Þar geta stjórnmálmenn kennt sjálfum sér að mestu um. Þeir hafa flotið sofandi að feigðarósi, verið eftirgefanlegir á örlagastundum og látið undan þrýstingi hagsmuna- og þrýstihópa og þeir hafa sem þm. dregið sífellt úr styrk Alþingis og völdum þess.

Ég skal segja það mjög hreinskilnislega, að ég hef haft af því miklar áhyggjur þegar lýðræðislega þingkjörin stjórn er að lýsa því yfir, að hún muni hafa víðtækt samstarf við hin og þessi samtök, hversu góð sem þau eru. Auðvitað er gott að hafa samráð, en stjórnleysi er afleitt, og það er hlutverk þingkjörinnar stjórnar að stjórna. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir okkur öll, sem berum hag Alþingis og þingræðis fyrir brjósti, þegar smám saman dregur úr völdum og áhrifum þingsins, þegar þessi völd færast meir og meir út í bæ, sterk hagsmunasamtök eru farin að ráða ferðinni meira og minna. Við hljótum öll að hafa áhyggjur af þessu, hvar í flokki sem við stöndum.

Við skulum líka gera okkur grein fyrir því, að í augum kjósenda fer ekki lengur að vera spurning um það, hvaða stjórnmálaflokkur á sök í þessu verðbólgubáli eða hver sé við völd hverju sinni. Þeir munu hafa hina mestu skömm á stjórnmálaflokkunum öllum þegar verðbólgan hefur lagt þá alla að velli og hverja ríkisstjórnina á fætur annarri. Og það verður gersamlega þýðingarlaust að hefja einhverjar kappræður um það hér í þingi eða í kosningabaráttu, hver hafi brugðist og hver hafi svikið. Það verður kveðinn upp sameiginlegur dómur yfir okkur öllum — dómur sem lýsir vonbrigðum og vantrú á hlutverki stjórnmálamanna, þings og ríkisstj. Og hvaða afleiðingar mun þetta hafa? Verðbólgan mun að sjálfsögðu dafna áfram með öllum sínum kvillum, spákaupmennsku, spillingu og óréttlæti, þingið og trúin á lýðræðislega stjórn mun og gjalda þess. Það kallar á stjórnleysi, upplausn og ringulreið sem kippir stoðunum undan því heilbrigða og lýðræðislega þjóðfélagi sem við höfum hér þrátt fyrir allt. Mér finnst vera kominn tími til að allir þeir, sem fást við stjórnmál, hvar í flokki sem þeir standa, taki höndum saman til þess að varðveita þingræðið og lýðræðið og þeir hefji sig upp fyrir flokkadrætti og atkvæðaveiðar og geri það sem gera þarf. Mér er alveg sama hvort þar er að verki ríkisstj., sem skipuð er öðrum flokkum en mínum flokki. Hafi hún kjark og vit til þess að taka á málunum af skynsemi og raunsæi, þá mun ég a.m.k. fyrir mitt leyti ekki leggja stein í götu hennar.

Fjárlagafrv., þessi umr. og sá meiri hl., sem að þessari ríkisstj. stendur, er því miður sorglega langt frá þessu marki. Þjóðin hefur.horft nánast agndofa á það sjónarspil, sem farið hefur fram í þingsölum að undanförnu. Hér hafa menn verið að karpa út af hinum ómerkilegustu málum. Það er verið að halda klukkutíma umr. uppi um það, hvort ráða skuli blaðafulltrúa hjá ríkisstj. eða ekki. Það virðist vera aðalmálið í augum almennings og fjölmiðla, hvort þingið muni skipa einhverjar rannsóknarnefndir eða ekki. Og nú liggur hér fyrir fjárlagafrv. yfirfullt af fyrirvörum, og því hefur verið lýst, að ágreiningur sé um öll stærstu mál þessa frv. Það felur ekki í sér neina stefnu — alls enga stefnu, engar sameiginlegar till. og enga fyrirsjáanlega heildarlausn á verðbólguvandanum. Það sjáum við á því, að þrátt fyrir þær ráðstafanir, sem þessi ríkisstj. greip til nú í sept. og áttu að vera fyrsti áfanginn og áhrifarík aðferð til þess að draga úr verðbólguhraðanum, stefni allt í 14% kauphækkun 1. des. Þetta er harmleikur og ógæfa sem öllum mönnum rennur til rifja.

Allir sögðu á s.l. sumri, að það þyrfti að mynda ríkisstj. til að stöðva verðbólguna. Sjálfstfl., sem er stærsti flokkur þjóðarinnar með víðtæk áhrif, vildi taka þátt í þeirri baráttu en aðrir töldu það þjóna sínum pólitíska tilgangi að halda þeim flokki utan stjórnar. Nú hefur komið í ljós, að stjórnarflokkarnir hafa hvorki vit né þrek til þess að standa að erfiðum ákvöðunum, sem eru óhjákvæmilegar í þessari baráttu, og þrátt fyrir bráðabirgðaráðstafanir í sept., eins og ég sagði áðan, æðir verðbólgan áfram.

Verkalýðshreyfingin talar um það núna opinskátt, að hugsanlegt sé að gefa eftir kauphækkun 1. des. Þessu ber að sjálfsögðu að fagna. Það hefði verið betur að verkalýðshreyfingin hefði uppgötvað þetta fyrr og hafið sig yfir flokkadrætti og þjónkun við einstaka pólitíska flokka í þessu landi, tekið ábyrgt á málum fyrr á þessu ári. Þá hefði staðan e.t.v. verið örlítið betri. En ef verkalýðshreyfingin ber gætu til þess að taka þátt í því að leysa verðbólguna nú á næstunni, þá mun Sjálfstfl. ekki gagnrýna ríkisstj. ef hún fer inn á þá braut að skerða verðbótavísitöluna um næstu mánaðamót. Og Sjálfstfl. mun yfirleitt ekki gagnrýna þessa ríkisstj. ef henni auðnast að grípa til skynsamlegra og raunhæfra ráðstafana. Það spáir því miður hins vegar ekki góðu, hvernig að þessari fjárlagagerð er staðið, og ég kvíði framhaldinu.