15.11.1978
Efri deild: 14. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

38. mál, verðlag

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Stjórnarandstöðunni í þessari deild hafa borist tilmæli um að greiða fyrir því, að mál þetta nái lokaafgreiðslu í dag. Ástæðan er sú, að annars öðlast verðlagslögin gildi á morgun. Frestir eru allir útrunnir. Í sjálfu sér viljum við greiða fyrir þingstörfum og munum þess vegna greiða atkv. með afbrigðum, en væntanlega sitja hjá við afgreiðslu málsins. Okkur finnst þó, að við getum ætlast til þess af hæstv. viðskrh. með hliðsjón af því, að þetta er mál sem minn flokkur hefur lengi barist fyrir, að hann gefi um það yfirlýsingu, að það verði þegar í stað tekið hraustlega til höndum að undirbúa það að þetta mál geti náð fram að ganga að ári liðnu, þannig að það væri ekki hægt að koma aftur eftir eitt ár, hver sem ríkisstj. þá kann að vera, og segja: Nú er enn ekki tími til að framfylgja málinu, þar sem ekki hefur verið unnið að undirbúningi þess. — Ég fer þess vegna fram á það við hæstv. viðskrh., að hann gefi um það yfirlýsingu, að hann muni beita sér fyrir því, að málið verði undirbúið nú þegar og haldið áfram þeim undirbúningi þannig að örugglega muni þetta ár endast, og ég lýsi því jafnframt yfir, að stjórnarandstaðan mun greiða fyrir framgangi málsins, ekki hindra að það nái fram að ganga í dag, ef skýlaus yfirlýsing verður gefin á þann veg sem áður greinir.