16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

25. mál, samstarf Norðurlanda á sviði sjónvarpsmála

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er verið að ræða hér um samnorrænt sjónvarp og það kann að vera góðra gjalda vert. Ég er talsmaður menningartengsla við Skandinavíu ekki síður en við aðra heimshluta og jafnvel fremur. Nefndar eru háar tölur í þessu sambandi. En ég vil nota þetta tækifæri til að minna á það, ef hv. alþm. kynnu að hafa gleymt því, að enn þá eru heil byggðarlög á Íslandi þar sem sjónvarp næst ekki og er þó komið fram í árslok 1978. Litvæðing sjónvarpsins er komin langt fram úr þeirri áætlun sem upphaflega var gerð þegar hafist var handa um hana, en nýbygging stöðva hefur aftur á móti tilsvarandi dregist aftur úr þeirri áætlun sem þar átti að vinna eftir.

Hvað varðar undirbúning að nýbyggingu stöðva er mér kunnugt um að í lok ráðherratíðar Vilhjálms Hjálmarssonar, hæstv. fyrrv. menntmrh., voru teknar ákvarðanir,og ég hef fyrir því yfirlýsingar hans úr ræðustól á Alþ., að fjármagn væri fyrir hendi og búið að panta tækin og raunar var hafist ofurlítið handa um byrjunarframkvæmdir á sumum stöðvum, en síðan hefur lítið eða ekkert gerst. Þetta athafnaleysi tæknimanna, þeirra sem eiga að hafa þetta á hendi, er mér óskiljanlegt, og þessi slóðaskapur okkar allra er okkur öllum til skammar. Þetta er aðstöðumunur sem ekki er þolandi, og því vek ég máls á þessu og legg það inn í þessa umr. um stórbrotnar áætlanir um alþjóðlegt sjónvarp. Ég heiti á hæstv. menntmrh. að hafa nú snör handtök. Ég er búinn að ræða þetta mál við hann og veit að vilji hans er góður og hann hefur ýtt á þetta mál. Ég heiti á hann að hafa snör og mjög ákveðin handtök til þess að koma sjónvarpi um landið, þar sem á annað borð er kostnaðarins vegna skynsamlegt að gera það, og ljúka því áður en hann fer að taka ákvarðanir um áætlanir um alþjóðlegt sjónvarp.