16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

332. mál, málefni Landakotsspítala

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Einari Ágústssyni í því efni að vera undrandi á þessum umr. Þær eru ekkert miklu vitlausari en margar aðrar sem fara fram á hinum síðari dögum hins háa Alþingis.

Hafi þessi fsp. átt að beinast að því að fá upplýsingar um laun ákveðinna rannsóknarmanna eða yfirlækna við Landakotsspítala, þá varð ég ekki af fróðari, því upplýsingarnar lutu að því, að mér skilst, að hér sé um rekstur á sérfyrirtæki að tefla þar sem þessi umgetnu laun ganga til rekstrar stofnunnar, afskrifta tækja og launa starfsmanna. En þýði svarið það að þetta séu dágóð laun til handa þeim, sem störfin inna af höndum, þá fagna ég því. Mér þykir alltaf vænt um ef menn hafa góða afkomu og þurfa ekki að leggja t.d. fyrir sig skarfaskytterí til bjargræðis sér, eins og mér skildist að einn maður í vænni stöðu nýskipaður hefði þurft að leggja fyrir sig á síðasta ári.

Ég átti einu sinni ómerkilegt erindi á Borgarspítalann í Reykjavík og drap tímann með því að spyrjast fyrir um hvernig þeir hefðu það þar, aðrir en sjúklingar. Mér satt að segja ofbauð fjöldi starfsfólksins, sem þar vann bæði heilan og hálfan dag, og fjöldi læknanna. Og mér er nær að halda og ég man það rétt, að þá muni kostnaður við legu mína á hverjum degi hafa verið töluvert hærri en það kostaði að gista á Waldorf Astoria í New York, og krefjast þeir þó prísa þar eftir því sem ég hef spurnir af. (StJ: Þar hefur verið hlúð að piltinum.) Það er rétt, það var hlúð að sjúklingum, þ. á m. mér, ólastanlega.

Ég hef síðan og af ýmsum öðrum ástæðum kynnt mér dálítið rekstur sjúkrahúsa og ég er þess fullviss, að þar fer margt öðruvísi en skyldi og þyrfti að taka til rækilegrar athugunar. Mér er nær að halda að rekstur þessara stórfyrirtækja sé ekki eins og hann ætti að vera, þar ráði ferðinni læknar, sem hafa í allt öðru að snúast en að athuga um hagkvæman rekstur, og ráði nánast allri ferð um fjárhagslega afkomu þessara stofnana.

Meðan ég átti sæti í heilbr.- og trn. Nd. á sínum tíma kynnti ég mér sérstaklega innkaup á lyfjum. Og nú er það svo, að gervilyf eru framleidd, mjög mikill fjöldi þeirra, gervilyf sem koma í stað og mjög mörg þeirra jafngóð frumlyfjum, sem framleidd eru, og þau kosta e.t.v. aðeins part, kannske 1/20 af frumframleiðslulyfjunum. Samt sem áður er það gersamlega eftirlitslaust, hvort læknir tekur um það ákvörðun að panta sér til handa frumlyfin eða gervilyfin. Þannig er þetta í fjölmörgum atriðum. Vitanlega eiga læknar hvergi að koma nærri rekstri þessara stórfyrirtækja, heldur þarf sérmenntaða rekstrarhagfræðinga til þess að hafa þar framkvæmdastjórn með höndum. — Þessu vildi ég koma á framfæri alveg sérstaklega af þessu gefna tilefni.