18.10.1978
Neðri deild: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

4. mál, stjórnarskipunarlög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það eru orðnar nokkrar umr. hér út af litlu frv. Það er gott að mönnum sé mikið niðri fyrir og standi sig nú, það er mönnum dýrmætt að vera frjóir í hugsun. Það eru komin fram hér á þinginu tvö frv. um sama efni — nákvæmlega sama efni — annað í Nd., það sem hér er til umr., hitt 13. mál þingsins, á þskj. 13, frv. frá Ólafi Ragnari Grímssyni. Það er að vísu ofurlítið öðruvísi sett upp í greinaskipan, en efnið nákvæmlega það sama.

Ég er nú að velta því fyrir mér, hvort ég geti ekki slegist í þennan hóp með einhverslags frumvarps- eða tillöguflutning, því að sjálfsagt er vinnusparnaður að því fyrir mann að flytja mál sem einhver annar er nýbúinn að flytja, þá er hægt að vinna sér þetta allt saman hraðar og léttar. Hugsanlega væri líka hægt að flytja till. til þál. um að skipa rannsóknarnefnd, því að hér eru orðnir margir duglegir rannsóknarmenn í þinginu sem gætu tekið að sér rannsóknastörf, t.d. til að finna út hvernig þessu er eiginlega háttað, hver eigi þessa snjöllu hugmynd, að færa aldurinn niður í 18 ár, þurfa ekki að vera að karpa um það hér á fundartímanum, en varpa þannig ljósi á sögu málsins.

Efnislega vil ég segja það, að ég man þá tíð að mér þótti sárbölvað að fá ekki að taka þátt í kosningum þegar ég var um tvítugt. (Gripið fram í.) Ég hafði gott vit á pólitík, Sverrir minn, á þeim tíma, ekki síður en nú, ég hefði vel getað notað minn kosningarrétt, og voru framsóknarmenn fleiri þá heldur en þeir eru nú.

Hvað varðar grg. þessa frv., þá er orðalag í henni sem ég vil gera ofurlitla aths. við. Það er við greinaskilin á 1. bls., þar segir, með leyfi forseta: „En nú er 18 ára kosningaaldur að breiðast út í landinu.“ Er þetta með vírus — eða hvernig má þetta verða? Déskotans riðan er að breiðast út í landinu og af henni hef ég stórfelldar áhyggjur. En ég er kannske smitaður af þessu. Ég styð þetta frv., og ég segi eins og hv. 1. þm. Vestf., að það er aldeilis ófært að láta Albani slá sig út í mannréttindum.