21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

331. mál, útbreiðsla sjónvarps

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég tek undir orð þeirra sem hafa lagt á það áherslu, að tekjur ríkissjóðs af innflutningi sjónvarpstækja verði alfarið notaðar til hinna margvíslegu þarfa Ríkisútvarpsins, hljóðvarps og sjónvarps. Það er alveg vafalaust að mjög margt er þar ógert, og ég held að útvarpinu veiti ekki af að fá þessar tekjur óskertar.

Hér var vikið að hugsanlegu skólasjónvarpi og einnig að því, að Ríkisútvarpið miðlaði sjómönnum sjónvarpsefni á segulböndum. Mér er kunnugt um að bæði þessi mál hafa verið til athugunar á liðnum árum og nefndir voru skipaðar til að kanna hvort þetta mál um sig. En mér er nú nær að halda að þær hafi ekki unnið mikið, a.m.k. er ekki hægt að segja að skýrar niðurstöður liggi fyrir. Ég tel að þarna sé um að ræða mjög þýðingarmikið mál, bæði hugsanlegt skólasjónvarp og svo aftur miðlun sjónvarpsefnis í þágu sjómanna, og ég hef ætlað mér að hafa þar nokkurt frumkvæði.