21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

89. mál, Vesturlína

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég vænti þess, að hæstv. forseti leyfi mér að fara ögn fram yfir þessar lögmæltu tvær mínútur til að ræða um þetta mikilvæga mál.

Það var svo þegar Orkubú Vestfjarða var stofnað, að þá var ein forsenda þess að Vesturlína væri tengd við aðalorkukerfið og yrði lögð á árunum 1978–1979. Á stofnfundi Orkubúsins lét ég bóka yfirlýsingu sem hæstv. iðnrh. las upp, og ég lýsti yfir þar að ég mundi beita mér fyrir því, að þetta yrði gert. í samræmi við það lagði svo iðnrn. til að í fjárlög fyrir árið 1978 yrði tekin upp sú fjárhæð sem Rarik taldi þá nauðsynlega í þessu skyni, en Rarik átti að sjá um lagningu þessarar línu, og þá gengið út frá því, að það, sem á vantaði, kæmi í fjárlög og lánsfjáráætlun 1979.

Þessi upphæð, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. nú í ár, var 693 millj. kr. Við endanlega afgreiðslu fjárl. kom upp sú ósk að lækka þá fjárveitingu um 285 millj. kr. niður í 408 millj. Áður en tekin væri ákvörðun um það var leitað upplýsinga hjá rafmagnsveitustjóra ríkisins um það, hvort ekki væri unnt að ljúka línunni engu að síður á árinu 1979, þó þessi lækkun yrði gerð, enda yrði bætt við fjárútvegun á árinu 1979. Eftir að hann hafði svarað því játandi, að það væri framkvæmanlegt, þó að nokkur hluti fjárveitinga flyttist yfir á árið 1979, var þetta gert.

Næst gerist það svo í málinu sem alþjóð er nú kunnugt og þarf ekki að rekja hér, að þegar átti að panta efni og hefja undirbúning að framkvæmdum í ár andmæltu nokkrir stjórnarmenn Rafmagnsveitna ríkisins þessu, og þegar ég sem iðnrh. gaf fyrirmæli um að panta þá þegar nauðsynlegt efni til þess að unnt væri að standa við það sem Alþ. hafði ákveðið um framkvæmdir á árinu 1978, þá svöruðu þrír þeirra með því að segja af sér í mótmælaskyni, og það er nokkuð athyglisvert, að þeir þrír, sem sögðu af sér, voru allir fulltrúar núv. stjórnarflokka.

Engu að síður var þessu verki haldið áfram og að sjálfsögðu gerði ég till. um að á fjárl. fyrir árið 1979 yrði áætlað það fé sem þyrfti til að ljúka línunni á árinu 1979, eins og til hafði staðið og gert hafði verið ráð fyrir.

Þegar iðnrn. lagði fram þessar till. sínar til fjmrn. var því í fyrstu tekið þunglega í fjárlaga- og hagsýslustofnun af tveimur ástæðum, annars vegar var sú ástæða að reyna að lækka útgjöld fjárl. og lánsfjáráætlunar, en einnig var það vegna þess, að fyrir lá frá Rafmagnsveitum ríkisins að hagkvæmara mundi að þeirra áliti að dreifa þessum framkvæmdum á árin 1979 og 1980. Hins vegar var sá stóri annmarki á því áliti Rafmagnsveitna ríkisins, að þær höfðu gersamlega sleppt því að líta á hversu mikill kostnaður mundi verða bæði í gjaldeyri og íslenskum krónum af slíkri frestun. En þá kom í ljós að dísilrekstur og olíueyðsla á árinu 1980 mundi verða svo að skipti mörg hundruð milljónum kr., sem Rarik hafði sleppt í greinargerð sinni og rökstuðningi fyrir því, að það væri hagkvæmara að fresta málinu.

Þegar það var skýrt fyrir fjárlaga- og hagsýslustofnun í ágústmánuði af hálfu iðnrh. með tveimur bréfum, annars vegar að þetta væri forsenda fyrir stofnun Orkubúsins og fyrirheit ríkisstj. væri að ljúka línunni á árinu 1979, og enn fremur lágu fyrir upplýsingar um gífurlega olíueyðslu og sóun gjaldeyris með því að draga þetta í eitt ár, þá breytti fjárlaga- og hagsýslustofnun till. sínum, eins og kom fram í ræðu hv. 1. þm. Vestf. og liggur fyrir í plaggi sem útbýtt var á síðasta stjórnarfundi fyrrv. ríkisstj.

Nú vil ég taka það skýrt fram, að það er misskilningur að fyrrv. ríkisstj. hafi skilið eftir eitthvert tilbúið fjárlagafrv. Það var ekki. Hins vegar hafði fjárlaga- og hagsýslustofnum gert sér grein fyrir ýmsum meginatriðum frv., og m.a. í þessum till. eða grg. frá fjárlaga- og hagsýslustofnun, sem dags. er 28. ágúst, kemur skýrt fram að til Vesturlínu eru áætlaðir 3 milljarðar 980 millj. kr. með vísun til viljayfirlýsingar ríkisstj. um það mál

Til að skýra þetta mál enn nánar er rétt að það komi fram, að Rafmagnsveitur ríkisins eða rafmagnsveitustjóri skrifaði á sínum tíma — það mun hafa verið í ágústmánuði — að til þess að ná þessu marki, sem rafmagnsveitustjóri taldi framkvæmanlegt, að ljúka línunni á árinu 1979, þyrfti að afla 200 millj. í ár til viðbótar þeim 408 millj. sem voru í lánsfjáráætlun og fjárl. Af þessum 200 millj. voru 150 millj. til greiðslu í desember n. k., en 50 millj. sem gert var ráð fyrir að þyrfti í október —nóvember til að flýta byggingu aðveitustöðvar.

Þegar iðnrn. kannaði þetta mál kom í ljós að ekki væri nauðsynlegt að afla þá nema fyrirheits um 50 millj. lántöku vegna umræddrar aðveitustöðvar, en hinar 150 millj. mætti láta bíða fram yfir áramót vegna þess að hér var um pantanir á efni að ræða.

Í bréfi, sem ég skrifaði 22. ágúst til fjmrn., er þetta mál rakið og ítrekað að nægilegt fé verði í fjárl. og lánsfjáráætlun á árinu 1979 til að ljúka lagningu Vesturlínu. Till. iðnrn. varðandi fjárl. og lánsfjáráætlun næsta árs byggjast á þessari fyrirætlun og fyrirheiti.

Nú er því haldið fram, að það sé ekki framkvæmanlegt að ljúka verkinu á árinu 1979 vegna dráttar í tíð fyrrv. stjórnar og þess vegna ástæðulaust að gera ráð fyrir því í fjárl. Þetta er ekki rétt og kemur m.a. fram í bréfi sem hæstv. iðnrh. minntist raunar á, dags. 6. okt. s.l., frá rafmagnsveitustjóra. Þar segir hann, 6. okt., að ekki sé hægt að ljúka framkvæmdum við línuna á árinu 1979. Til þess að hægt væri að gera viðhlítandi ráðstafanir hefði ákvörðun þurft að liggja fyrir strax upp úr mánaðamótum ágúst–september. Hvenær var þessi hæstv. núv. ríkisstj. mynduð? Hún var mynduð 1. sept. Ef hún hefði ekki beint eða óbeint stöðvað þetta mál, heldur tekið ákvörðun í byrjun sept., þá liggur fyrir í bréfi rafmagnsveitustjóra að þetta var framkvæmanlegt. Þess vegna er það ekki rétt og ekki maklegt þegar sumir málsvarar hæstv. núv. ríkisstj. reyna að koma þessu yfir á fyrrv. ríkisstj. Þetta mál liggur alveg skýrt fyrir, og ef ekki verður unnt að ljúka þessari línu á árinu 1979 er það verk núv. ríkisstj. og hennar einnar.