22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Mér finnst nokkuð á skorta í þessu frv. sem hér liggur fyrir, að siðbótin, sem ætlað er að frv. leiði af sér, sé ótvíræð, þar sem flm. virðast ætlast til þess að alþm. séu áfram með puttann í kjaramálum sínum. Ég vil hins vegar stíga skrefið til fulls og mun flytja brtt. við allar greinar frv., þ.e. að út falli orðin „að fengnum till. þfkn.“ úr öllum gr., 1.–4. og mun e.t.v. flytja fleiri brtt. við málið.

Hv. 1 þm. Austurl. gagnrýndi lög um Kjaradóm í ræðu sinni í fyrradag og vildi ekki vísa þessum málum til hans. En í því sambandi spyr ég: Mætti ekki breyta lögum um Kjaradóm þannig, að verkamaður, bóndi og sjómaður bættust við þá sem þar eru fyrir, þannig að það væru ekki eingöngu embættismenn sem ákvæðu embættismönnum laun.

Hér hefur mikið verið talað í dag í þeim dúr, að þm. ættu ekki að vera hræddir við að ákveða eigin laun, þeir ættu að sýna reisn og vera óhræddir við almenningsálit. Undir þetta get ég tekið, þó ég hins vegar vilji taka þennan bikar alfarið frá þm., en ekki með sýndarmennsku. En væri ekki líka rétt fyrir þm. að nota reisn sína og skörungsskap, sem hefur verið títtnefnt í umr. manna í allan dag, ekki bara til að hækka eigið kaup og fríðindi, heldur líka til að hækka annarra kaup og ekki síst þeirra er minnst mega sín? Ætti það ekki að vera forgangsverkefni?

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.