23.11.1978
Sameinað þing: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér hefur verið rædd nokkurn tíma, miðar að því, að sett verði ákvæði í lög er stefni að því að hamla gegn veiði útlendinga í íslenskum laxveiðiám með því að setja sérstakt gjald á veiðileyfi til útlendinga sem síðan yrði notað til þess að efla fiskrækt í sjó og vötnum. Ég get tekið undir með hæstv. landsbrh. þegar hann ræddi þessi mál er málið kom fyrst til umr., að e.t.v. sé of skammt gengið í þessum efnum og þetta gjald muni ekki verða sá hemill á sókn útlendinga í laxveiðiárnar sem æskilegt er. Eins og okkur er kunnugt eru það fyrst og fremst útlenskir auðmenn sem sækjast í okkar laxveiðiár og laxveiðileyfið sem slíkt er oft og tíðum minnsti hlutinn af þeim tilkostnaði sem þeir leggja í þegar út í þessar veiðar er farið.

Laxveiðimálin hafa verið vandamál hér á landi nokkur undanfarin ár. Það er öllum kunnugt að gjaldið fyrir veiðileyfi til þess að veiða í þessum ám er orðið mjög hátt og naumast nokkrum fært að ráða við slíkt nema útlenskum auðmönnum og Íslendingum sem hafa tiltölulega mjög góðar tekjur. Í þessu felst ákveðið misrétti Í þessu felst það, að forgangur að ánum er bundinn við efnameiri íslenska borgara, á meðan okkur er kunnugt um að fjölmargir Íslendingar af öllum stigum og stéttum hafa áhuga á að stunda þetta sport. Það hlýtur að vera mál sem verður að athuga, hvort ekki sé rétt að gefa öllum kost á því að njóta þessa íslenska réttar að veiða í íslenskum laxveiðiám.

Hv. þm. Páll Pétursson upplýsti hér í umr., að framboðið á laxveiðileyfum sé meira en eftirspurn. Þetta undirstrikaði hv. þm. Pálmi Jónsson og upplýsti einnig, að mikið væri afgangs af laxveiðileyfum sem ekki hefðu selst á undanförnum árum. Auðvitað eru eðlilegar ástæður til þessa. Sú fyrsta er náttúrlega sú, að gjaldið fyrir leyfið er orðið svo hátt, að það er ekki nema á færi fáeinna Íslendinga að ráða við það. Það þarf töluverðar tekjur til þess að ráða við stangveiðidag að upphæð 50–100 þús. kr. og það geta ekki nema þeir sem hafa miklar tekjur. Og þegar framboðið er orðið meira en eftirspurnin, þá virðast það fremur vera hagsmunir bænda að halda þessu í háu verði og fá miklar tekjur fyrir færri veiðileyfi heldur en lækka verðið og koma til móts við óskir velflestra Íslendinga. Hitt er svo málið sem við skulum líka athuga, að þegar talað er um að framboðið sé e.t.v. meira en eftirspurnin, þá eru inni í þessu fjölmargir dagar í laxveiðiám víða um land, sem eru annaðhvort fisklausar eða nánast vatnslausar.

Það er rétt, að ásókn útlendinga í fiskveiðiárnar hefur aukist mikið að undanförnu. Það er einnig ljóst, að útlendingarnir eru í samkeppni við Íslendingana um árnar. Það skiptir útlendingana nánast engu máli hvað veiðileyfið kostar, þeir veiða eigi að síður, og fyrir það þurfa Íslendingar að líða vegna þess að þeir verða undir í samkeppni við þessa auðmenn, sem veiða í ánum. Þess vegna tel ég að málið fjalli um það, á hvern hátt við getum verndað rétt Íslendinga til þess að eiga eðlilegan aðgang að þessum náttúruauðlindum okkar, þannig að við höldum áfram að verja Ísland fyrir Íslendinga á þann hátt, sem við mögulega getum. Ég þekki fjölmarga aðila, sem hafa haft áhuga á veiðiskap um langan tíma, en það er nú svo, að það eru æ fleiri sem verða að láta af þessu sporti vegna þess að þeir ráða ekki við það fjárhagslega. Mér verður hugsað til þessara aðila þegar hér stækkar hópur útlendinga sem stundar þessar veiðar með slíkt fjármagn handa í millum að það skiptir þá nánast engu máli hvað veiðileyfið kostar. Við skulum einnig líta á að það er að verða æ erfiðara fyrir stangveiðifélög hér í landinu að viðhalda gömlum leigusamningum. Það er sagt sem svo, að það séu kannske önnur íslensk stangveiðifélög, sem gangi inn í samningana og bjóði betur. En þá skal minnt á það skipulag sem hefur viðgengist á þessum málum að undanförnu. Það felst í því, að hér hefur verið stofnað hvert leppafélagið af öðru sem tekur ár á leigu nánast í umboði útlendinga. Og þetta er mikilvægt atriði málsins, sem verður að athuga nánar. Þó að nokkrar ár séu eingöngu í leigu útlendinga í landinu og sumar ákveðinn hluta sumarsins, þá skulum við einnig athuga það, að hér hafa sprottið upp félög eða fyrirtæki, sem taka þessar ár á leigu og leigja þær síðan eingöngu út til útlendinga. Það er því ekki síður ástæða til að taka það skipulag, sem hefur viðgengist á sölu á veiðileyfum að undanförnu, til gaumgæfilegrar athugunar og það fyrr en seinna.

Ég er þeirrar skoðunar, að efla þurfi yfirumsjón með þessum málum, setja á nokkurs konar verðlagseftirlit, sem fylgist með því hvernig þessum málum er háttað, og að lögð verði áhersla á að koma upp einhverju nýju skipulagi sem miðar að því að vernda rétt okkar Íslendinga gagnvart ásókn útlendinga í árnar.

Veiðiréttarmál hafa einnig komið inn í þessa umr. Eins og okkur er kunnugt er hér um hagsmunamál bænda að ræða. Það má líta svo á að sjónarmið okkar Alþfl.-manna á undanförnum árum, sem hafa komið fram í till. okkar um landið sem sameign, miði að einhverju leyti að því að skerða réttindi og hagsmuni bænda frá því sem er í dag. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að réttur bænda til þess að taka tekjur af þessum hlunnindum sé óraunhæfur, þó að hann sé til í lögum og verndaður þar. Mér þætti eðlilegra að það skipulag og sú skipan, sem ríkir í þessum málum í Bandaríkjunum, taki einnig gildi hér, þannig að laxveiðiárnar verði sameign okkar Íslendinga sem lúti einni yfirstjórn bæði hvað varðar nýtingu og einnig hvað varðar uppbyggingu.

Ég hef stundum sagt sem svo, að mér þætti það óeðlilegt að bændur þessa lands skuli hafa tekjur af auðlindum sem þjóðin raunverulega á öll saman. Við þekkjum það einnig, að fjölmargar ár eru til í landinu, sem bændur og veiðifélög þeirra hafa lítið sem ekkert lagt í, hvorki tilkostnað né annan kostnað, heldur hirða einungis tekjurnar af útleigunni. Vissulega mundi það að einhverju leyti skerða kjör bænda frá því sem nú er ef þessi hlunnindi yrðu af þeim tekin. En við skulum taka tillit til þess, að við erum að reyna að miða framtíðarskipulag þjóðarinnar við það sem eðlilegt er, og þá verður að gera einhverjar ráðstafanir, sem bæta þann missi sem bændur verða fyrir af þessum sökum, ef þurfa þykir.

Annað atriði þessa máls vil ég einnig benda á, en það er að okkur er kunnugt um að kirkja og ríki eiga jarðir viða um land sem eru annaðhvort í eyði eða í útleigu. Þessar jarðir liggja sumar hverjar að mörgum okkar bestu laxveiðiám. Það væri t.d. fróðlegt að fá það upplýst, hve miklar tekjur ríkið hefur af laxveiðijörðum sínum, eða fá það upplýst, hvað miklar tekjur leigutakar viðkomandi jarða hafa af þessum hlunnindum, og bera það síðan saman við þau leigukjör sem þeir njóta fyrir þær jarðir sem þeir hafa undir höndum frá ríkinu. Ég gæti trúað því, að hér væri um fróðlegar upplýsingar að ræða, og mundi mörgum malarbúanum koma það vissulega á óvart þegar hann fengi tækifæri að sjá hvernig það mál stæði.

Hv. þm. Páll Pétursson ræddi um það, að þetta gjald, sem rætt er um í þáltill., yrði skattur, nýr skattur á veiðileyfin, og mundi verða til þess að hækka gjaldið á veiðileyfunum. Kann vel að vera að svo verði, vegna þess að það eru bændur og veiðiréttareigendur sem nánast ráða því, hvert verðlag er á laxveiðileyfum, og þeim er náttúrlega í lófa lagið að leggja þennan skatt á, þar sem mér sýnist verðlag á veiðileyfum undanfarin ár hafa farið mjög hækkandi. Hv. þm. Páll Pétursson sagði einnig að það væri greinilegt, að það fyrirfyndust enn þá einhverjir Íslendingar sem hefðu fjárhagslegt bolmagn til þess að kaupa sér veiðileyfi í góðri laxveiðiá. Já, enn þá fyrirfinnast nokkrir Íslendingar, en við skulum átta okkur á því, að ef sama þróun heldur áfram verða þeir orðnir ósköp fáir innan stutts tíma.

Við skulum gæta að því að selja ekki úr landi mikilvægustu og dýrmætustu auðlindir sem við eigum til. Í þessum flokki eru vissulega laxveiðiárnar, og við skulum gæta þess einnig, að við getum nýtt landið í þágu Íslendinga sjálfra í framtíðinni, þannig að um íslenskan forgang verði að ræða gagnvart ánum umfram útlendinga.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg fleiri orð um þessi mál, nema að lokum lýsa yfir undrun minni á orðum hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, sem nú er að vísu fjarverandi, þar sem bann lagði mikla áherslu á hagsmuni veiðiréttareigenda í þessum umræðum og leggur sig fram um að verja hagsmuni þeirra í þessu máli og varar mjög við þeim tilgangi frv. að bola útlendingum, eins og það er orðað í hans máli, burt frá íslenskum veiðiám. Ég hef trú á því, að kjósendur þessa hv. þm. hörmuðu að eiga slíkan málsvara í þessum málum. Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé um slík atriði að ræða, að rétt sé að upplýsa kjósendur öllu nánar um það.

Vissulega er það hagsmunamál Íslendinga að bola útlendingum frá íslenskum fiskveiðiám. (StJ: Fiskveiðilögsögunni.) Vissulega, þetta er fiskveiðilögsaga, það er okkar hagsmunamál. Tekjur okkar af þessum mönnum kunna að vera einar eða aðrar í erlendu silfri, en það er ekki allt fengið með silfrinu einu saman. Við skulum einnig gæta að ýmsum öðrum mikilvægum þáttum þess máls. Þetta er einn þáttur af því landhelgismáli sem við höfum verið að fjalla um hér í landinu á undanförnum árum. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig málum væri komið í okkar samfélagi, ef þeirri skipan hefði einhvern tíma verið komið á, að íslenskar sjávarjarðir ættu sér ákveðna eignarlögsögu út frá ströndum landsins. (Gripið fram í.) Ég er að tala um mílur sem skipta fiskveiðar landsmanna máli. (Gripið fram í.) Þjóðareign fiskveiðilögsögunnar var grundvöllur landhelgisbaráttunnar, en öðruvísi hefði farið ef sama skipulag hefði gilt um fiskveiðilögsöguna á hafinu og er nú í eignarréttarmálum laxveiðiánna. Sú samstaða, sem náðist um þá útfærslu á sínum tíma, varð landi og þjóð til mikilla heilla. Þjóðnýting ríkir á hafinu umhverfis þetta land og felst í því, að þjóðin öll á hafið og auðlindir þess kringum landið og hefur jafnan rétt til nýtingar á þeim auðæfum sem þar fyrirfinnast, en það eru stjórnvöld sem stjórna því, hvernig sú nýting fer fram. Ég tel eðlilegt að þeirri skipan verði einnig komið á hvað varðar aðrar auðlindir á þessu landi, og þá á ég fyrst og fremst við hinar ýmsu náttúruauðlindir, eins og heitt vatn og laxveiðiárnar og landið allt í sameign.

Þetta vildi ég láta koma fram hér og að lokum benda hv. þm. á það, að áður en langur tími er liðinn geta þessi mál verið komin í slíkt óefni að vá verði fyrir dyrum.